Þessa kjarasamninga- og verkfalladaga er mörgum matarkostnaður ofarlega í huga, enda er matur oft stór hluti af útgjöldunum. Og í síðustu viku voru einhverjir að mynda innkaupin sín og sýna hvað þeir fengu fyrir peningana. Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég kom heim úr Krónunni á miðvikudaginn og ég ákvað að gera þetta líka. Þetta er svona frekar dæmigerð innkaupaferð hjá mér, held ég.
Þarna má sjá heilhveiti, hrísgrjón, kókosmjólk, nýmjólk, hreina jógúrt, kotasælu, fetaostkubb, þorsk, kindalundir, melónu, perur (1 kg), chorizopylsu, mandarínur, appelsínur, epli, plómur, límónur, blaðlauk, blómkál, butternutkúrbít, sellerí, konfekttómata, eggaldin, hnúðkál, sæta kartöflu, klettasalatsblöndu, sykurbaunir og tannkrem (það eina sem ekki var matarkyns). Fyrir þetta borgaði ég 8.419 krónur. Sem er nú alveg slatti svosem.
Ég setti myndina á Facebook og svo spunnust umræður um hana, bæði í vinnunni og annars staðar. Og það voru tvær spurningar sem voru mest áberandi: ,,Hvernig ferðu að því að kaupa svona mikið af ávöxtum og grænmeti, það er svo dýrt?“ og ,,hvernig notarðu svo allt þetta grænmeti?“
Svarið við fyrri spurningunni er eiginlega: jú, grænmeti og ávextir kostar sitt en sumt er ódýrara en annað – og næstum allt grænmeti er ódýrara en unnar matvörur – ef horft er á hvað er ekki á myndinni má kannski sjá hvernig ég hef efni á að kaupa það sem er þar. Og hvað ég geri við grænmetið og annað sem er á myndinni – ja, ég borða það bara eins og það kemur fyrir eða nota það í matinn. Ég er nefnilega svo stálheppin að a) mér finnst grænmeti almennt gott b) ég kann að elda og c) ég hef alveg slatta af hugmyndaflugi til að vinna úr, sem er eins gott, því ég er afskaplega óskipulögð og gæti aldrei nokkurn tíma skipulagt matseðla langt fram í tímann og eldað samkvæmt þeim. Ég kaupi sjaldnast inn eftir því hvað ég ætla að elda, heldur kaupi það sem mér líst á og læt svo hráefnið sem ég á til ákveða hvað ég elda. En það hentar sannarlega ekki öllum, það veit ég vel.
Svo að ég ákvað að sýna – núna og á næstunni – hvað ég gerði við sumt af því sem var í innkaupapokanum í þetta skiptið. Og hér er allavega einn réttur, hann er dálítið á arabískum nótum: Kindalundir með möndlukurli, steiktum eggaldinsneiðum, smjörbaunastöppu og sykurbaunum. Það má auðvitað nota lambalundir líka en kindalundir eru mun ódýrari og hreint ekki síðri. Skammturinn sem ég eldaði er fyrir tvo; ef einhverjum þykir kjötmagnið of lítið má bæti við 1-2 lundum.
Ég byrjaði á möndlukurlinu. Setti svona 4 msk af möndluflögum (mega vera heilar möndlur) í matvinnsluvél ásamt grænu blöðunum af 1 vorlauk, 1 söxuðum hvítlauksgeira, 1/2 tsk af kummini, 1/2 tsk af möluðu kóríanderfræi, pipar og salti …
… og lét ganga þar til þetta var orðið að fíngerðu kurli.
Ég tók svo lundirnar- þetta voru þrjár lundir, ein reyndar áberandi stærri en hinar, samtals um 330 grömm – og skar eitthvað af himnunum af þeim. Hellti svo dálítilli ólífuolíu á disk, velti lundunum upp úr henni og dreifði svo hnetukurlinu jafnt á allar hliðar og þrýsti því vel inn í kjötið. Lét þetta svo standa nokkra stund á eldhúsbekknum.
Á meðan gerði ég smjörbaunastöppuna. Baunirnar sjálfar voru ekki úr innkaupapokanum, ég sótti dós í jarðskjálftabirgðirnar. Ég hellti leginum af þeim en geymdi svolítið af honum til að þynna stöppuna.
Ég setti svo baunirnar í matvinnsluvél ásamt kúfaðri matskeið af tahini, 75 g af fetaosti, 2 söxuðum hvítlauksgeirum, svona 2 tsk af nýkreistum sítrónusafa og dálitlum pipar og salti.
Ég maukaði þetta vel saman og setti svo lófafylli af basilíkublöðum út í og maukaði enn betur.
Svo þeytti ég 2 1/2 msk af ólífuolíu saman við og þynnti svo stöppuna ögn með soði úr dósinni – hún á ekki að vera þykkfljótandi en heldur ekki stíf – og lét vélina ganga þar til hún var alveg rjómaslétt.
(Já, þetta er nokkurs konar hummus en ég vil samt ekki nota það nafn því hummus þýðir beinlínis kjúklingabaunir. En þótt þetta sé hér borið fram sem meðlæti má nota það sem ídýfu líka.)
Þá var komið að eggaldininu. Ég skar það í 1 cm þykkar sneiðar og kryddaði þær. Notaði reyndar arabíska kryddblöndu sem Valgerður samstarfskona mín færði mér frá Abu Dhabi en það má nota ýmiss konar blöndur, t.d. kóríanderfræ, kummin, ögn af kanil og chili, pipar og salt. Eða eitthvað í þá áttina.
Hitaði svo slatta af olíu á pönnu og steikti sneiðarnar við meðalhita í svona 3-4 mínútur á hvorri hlið. Bætti við dálítilli olíu þegar ég sneri þeim, eggaldin drekkur í sig olíu eins og svampur.
Ég hitaði svo smávegis olíu (notaði reyndar afganginn af ólífuolíunni sem ég hafði velt lundunum upp úr) á annarri pönnu og steikti lundirnar við meðalhita í svona 2 1/2 mínútú á hvorri hlið, nema sú stærsta var lengur á pönnunni. Lét þær svo bíða í 2-3 mínútur áður en ég skar þær í sneiðar. Á meðan sauð ég lófafylli af sykurbaunum í saltvatni í 2 mínútur, hellti þeim svo í sigti og lét kalt vatn buna á þær rétt til að stöðva suðuna.
Eggaldinsneiðarnar voru einmitt tilbúnar og ég tók þær af pönnunni og setti þær á eldhúspappír.
Svo setti ég kjötið, smjörbaunastöppuna, eggaldinsneiðarnar og sykurbaunirnar á diska. Hluti af möndlukurlinu hafði dottið af og sat eftir á pönnunni en ég sópaði því saman og stráði yfir kjötið. Bar svo meiri smjörbaunastöppu fram með. (Afganginn af henni má svo geyma í kæli í nokkra daga og nota t.d. með brauði.)
Af því sem var í innkaupapokanum notaði ég hér kindalundirnar, fetaost, sykurbaunir og eggaldin.
*
Kindalundir með möndlukurli
3-4 kindalundir (mega auðvitað vera lambalundir)
4 msk möndluflögur (má nota hnetur)
grænu blöðin af 1 vorlauk
1 hvítlauksgeiri
1/2 tsk kóríanderfræ, malað
1/2 tsk kummin
pipar
salt
2 msk ólífuolía
*
Kryddaðar eggaldinsneiðar
1 lítið eggaldin
1 tsk arabísk kryddblanda (eða annað krydd eftir smekk)
3-4 msk olía til steikingar
*
Smjörbaunastappa
1 dós smjörbaunir
kúfuð matskeið af tahini
75 g fetaostur
2 hvítlauksgeirar
2 tsk nýkreistur sítrónusafi, eða eftir smekk
pipar
salt
lófafylli af basilíkublöðum
lögur úr dósinni til að þynna (má líka nota soð eða vatn)
[…] nú ekki alveg komin á fallanda fót ennþá), þá kemur hér næsta uppskrift þar sem ég nota vörur úr innkaupapokanum frá í síðustu viku. Ég er búin að birta kjötrétt og fiskrétt og nú er það […]
[…] er ekki enn búin að nota allt sem var í innkaupapokanum í síðustu viku en hann fer nú að verða langt kominn. Auðvitað hef ég ekki eingöngu notað […]