Rauðlaukur og gleymdur ostur

Það er varla til ódýrara grænmeti en laukur. Oftast er hann þó notaður sem bragðgjafi fremur en grænmeti og er aðeins lítill hluti af því sem fer í réttinn en það eru til ýmsir góðir réttir þar sem laukurinn er í aðalhlutverki og þar er franska lauksúpan auðvitað þekktust. En það er hægt að gera margt annað, bæði úr venjulegum lauk og rauðlauk, og hér kemur uppskrift að rauðlauksböku.

Ég setti hér fyrir fáeinum dögum inn uppskrift að böku þar sem byrjað var á að forbaka bökuskelina blint (þ.e. með fargi til að hún héldi lögun) og þessi er þannig líka. Það er þó eiginlega það eina sem líkt er með þeim – nema báðar eru grænmetisbökur – og deigið er töluvert frábrugðið, þetta hér inniheldur bæði ost og krydd.

Þetta er semsagt gómsæt baka fyrir alla sem kunna að meta gljáðan rauðlauk – málið er að láta hann krauma nokkuð lengi við fremur vægan hita svo að hann verði fallega brúnn og karamellugljáður. Bakan getur verið aðalréttur með góðu salati en það mætti líka bera hana fram sem forrétt.

_MG_3104

Ég byrjaði á að setja 200 g af hveiti (ég notaði hvítt hveiti í þetta skipti en það má alveg eins vera heilhveiti), kúfaða teskeið af dijonsinnepi, 1/ 2 teskeið af paprikudufti og 1/2 teskeið af salti í matvinnsluvél og blanda því saman.

_MG_3105

Svo skar ég 100 g af köldu smjöri í litla bita, setti það út í og lét vélina ganga þar til komin var fíngerð mylsna. Svo bætti ég ísköldu vatni út í smátt og smátt, þar til auðvelt var að hnoða mylsnuna saman en hún var þó ekki blaut eða klesst – ætli ég hafi ekki notað svona 1 1/2 matskeið.

_MG_3107

Að lokum reif ég 75 g af enskum cheddar (eða einhverjum öðrum bragðmiklum osti) fremur gróft og blandaði honum saman við. Ég notaði þó ekki vélina til þess því ég vildi ekki hakka ostinn saman við.

_MG_3114

Svo mótaði ég deigið í kúlu, pakkaði henni í álpappír og kældi í a.m.k. háltíma.

_MG_3122

Á meðan gerði ég fyllinguna. Ég tók 750 g af rauðlauk, flysjaði laukana, skar þá í fjórðunga og síðan aftur í meðalþykkar sneiðar. Bræddi 2 msk af smjöri á stórri pönnu og lét laukinn krauma í nokkrar mínútur. Hellti svo 4 msk af  balsamedik yfir, setti nokkrar timjangreinar (eða 1/2 tsk af þurrkuðu timjani) út í, kryddaði með dálitlum pipar og salti og lét krauma við fremur vægan hita í um 25 mínútur …

_MG_3138

… eða þar til allur vökvi er gufaður upp og laukurinn gljáandi brúnn. Ég hrærði oft á meðan og gætti þess að laukurinn brynni ekki. Í lokin fjarlægði ég svo timjangreinarnar.

_MG_3152

Á meðan laukurinn kraumaði hafði ég hitað ofninn í 190°C og svo tók ég deigið út úr ísskápnum, flatti það út, setti það yfir bökuform og bakaði blint eins og lýst er hér, fyrst í 10 mínútur með fargi og svo 5 mínútur án þess. Síðan tók ég bökuskelina út, hellti lauknum í hana og jafnaði yfirborðið.

_MG_3150

Ofan á þetta fer svo ostur. Það má vera brie eða eitthvað slíkt en mér finnst betra að nota Stóra Dímon eða gullost og það vildi svo til að ég átti Stóra Dímon sem hafði gleymst í ísskápnum – óvart eða viljandi – og var kominn einhverja mánuði fram yfir ,,best fyrir“ dagsetningu, sem ætti reyndar í þessu tilviki að vera ,,best eftir“ því osturinn stórbatnar við þetta. En það má nú nota annan ost eftir smekk.

_MG_3154

Ég semsagt skar og braut ostinn í bita og raðaði ofan á rauðlauksfyllinguna.

_MG_3203

Svo setti ég bökuna í ofninn og bakaði hana í um 20 mínútur.

_MG_3221

Svo bar ég hana fram heita með salati.

*

Rauðlauksbaka með osti

*

Bökuskelin

200 g hveiti

1 kúfuð tsk dijonsinnep

1/2 tsk paprikuduft

1/2 tsk salt

100 g smjör, kalt

ískalt vatn eftir þörfum

75 g bragðmikill ostur, t.d. cheddar

*

Rauðlauksfyllingin

750 g rauðlaukur

2 msk smjör

4 msk balsamedik

nokkrar timjangreinar eða 1/2 tsk þurrkað timjan

pipar

salt

200 g ostur, t.d. Stóri Dímon eða gullostur

190°C í um 20 mínútur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s