Kinn við kinn

Markaðsdeild Forlagsins kynnir mig sem matmóður Íslendinga. Jájá, ég veit nú ekki hvort ég stend undir því. Ekki var það ég sem fann upp matinn, svo mikið er víst. Og mér finnst eiginlega nógu mikið mál að vera matmóðir barnanna minna. En þau eru reyndar oftastnær frekar sátt við það sem ég elda handa þeim (annað mál með barnabörnin).

Ég er búin að vera að grilla smávegis um helgina, ekki af þvi að mér þætti beinlínis vera svo upplagt grillveður, heldur vegna þess að mig vantaði myndir með grein sem ég er að skrifa. En nei, grillsumarið er eiginlega ekki alveg byrjað … og þegar kom upp úr dúrnum að sonurinn og tengdadóttirin kæmu í mat á laugardagskvöldið varð allt annað en grillmatur uppi á teningnum. Enda var ekkert Eurovisionpartí hér, það var ekki einu sinni kveikt á sjónvarpinu.

Ég átti nokkrar nautakinnar í ísskápnum sem ég þurfti annaðhvort að fara að nota eða setja í frysti. Og svoleiðis er hvort eð er varla hægt að elda nema um helgi því þær þurfa sinn tíma. Nautakinnar eru ekki matur sem hentar vel á grillið. Ég segi ekki að það væri ekki hægt að grilla þær – það er allt hægt sosum – en það eru bara til miklu hentugri eldunaraðferðir fyrir kinnar.

Ég hef áður eldað grísakinnar (og fékk þær meira að segja í matinn á aðfangadagskvöld úti á Madeira þótt ég eldaði þær ekki sjálf í því tilviki) og fengið nautakinnar en ekki eldað þær sjálf. En ég vissi svona nokkurn veginn hvað ég ætlaði að gera við þær.

_MG_7117

Þetta voru semsagt fjórar nautakinnar, eitthvað rétt um eitt kíló samanlagt.

_MG_7120

Ég byrjaði á að snyrta kinnarnar og skera burt himnu- og fitulag sem var öðrum megin á þeim (gerði það bara eins og þegar maður roðflettir fiskflak). Síðan þerraði ég kinnarnar með eldhúspappír.

_MG_7123

Svo hitaði ég 2 msk af olíu í stórum, þykkbotna potti, kryddaði kinnarnar með pipar og salti og brúnaði þær vel á báðum hliðum við nokkuð góðan hita.

_MG_7125

Síðan tók ég kinnarnar upp úr pottinum, setti þær á disk og lét þær standa á meðan ég brúnaði grænmetið.

_MG_7126

Ég var búin að skera niður 4-5 gulrætur og 2 sellerístöngla og saxa einn lauk og 4 hvítlauksgeira. Setti þetta í pottinn (það má bæta við meiri olíu ef þarf) og brúnaði við meðalhita í nokkrar mínútur. Setti svo 3-4 lárviðarlauf og nokkrar timjangreinar út í og kryddaði með pipar og salti.

_MG_7129

Hellti svo 400 ml af rauðvíni í pottinn, hitaði að suðu og lét malla í nokkrar mínútur.

_MG_7133

Svo hellti ég 500 ml af tómatmauki (passata) út í og hrærði vel. Kryddaði með pipar og salti.

_MG_7141

Svo setti ég kinnarnar út í. Vökvinn þarf alls ekki að fljóta yfir þær en ef hann nær ekki upp á þær miðjar er best að bæta við dálitlu vatni. Setti svo lok á pottinn og lét malla á mjög vægum hita í um 3 klst. Sneri kinnunum nokkrum sinnum á meðan og hrærði í, að öðru leyti þarf ekkert að sinna matnum.

_MG_7158

Þá voru kinnarnar orðnar svo meyrar að það var bókstaflega hægt að skera þær í sundur með gaffli.

_MG_7160

Sem ég gerði – skar eða reif þessar fjórar kinnar sundur í minni bita.

_MG_7163

Ég veiddi lárviðarlaufin og timjangreinarnar upp úr sósunni og henti þeim. Hellti svo sósunni og grænmetinu í skál, setti kinnabitana út í og saxaði steinselju og stráði yfir (má sleppa).

_MG_7446

Svo bar ég kinnarnar fram með sætkartöflustöppu (kryddaðri með kummini) og venjulegri kartöflustöppu (kryddaðri með basilíku).

_MG_7451

Gróft, meyrt, safaríkt og bragðgott. Jújú, þetta er nú svolítið matmóðurlegt, er það ekki?

*

Nautakinnar í rauðvíns-tómatsósu

4 nautakinnar (um 1 kg)

pipar

salt

2 msk olía (meira ef þarf)

4-5 gulrætur

2 sellerístönglar

1 laukur

4 hvítlauksgeirar

3-4 lárviðarlauf

nokkar timjangreinar

400 ml rauðvín

500 ml tómatpassata

e.t.v. söxuð steinselja

Um 3 klst. við hægan hita.

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s