Um vín og ber en aðallega brauð

Nýja bókin mín, Sætmeti án sykurs og sætuefna, hefur hlotið mjög góðar móttökur og ég er auðvitað þakklát fyrir það. En mig langar að benda enn einu sinni á að:

a) já, ég veit að það er sykur í ávöxtum og fjalla nokkuð rækilega um það í formála bókarinnar og af hverju ég nota ávexti – í hófi.

b) ég mæli alls ekki með óhóflegri notkun sætra ávaxta og þess vegna skipti ég bókinni í kaflana Oft, Stundum og Sjaldan – döðluuppskriftirnar og þurrkuðu-ávaxta-gúmmilaðið er aðallega í síðasta kaflanum og þegar ég segi sjaldan meina ég sjaldan. Og lítið í einu.

En hér er uppskrift úr Oft-kaflanum. Jújú, það eru vínber í brauðinu. Ég vigtaði ekki berin sem ég notaði en gæti trúað að þetta hafi verið svona 250 grömm. Það þýðir að ef maður borðar væna sneið, áttunda part af brauðinu, er það svona ein teskeið af ávaxtasykri. Svo það ætti nú að sleppa og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin telur ferska ávexti heldur ekki með í sykurviðmiðum sínum. (Nota bene, vínberjasykurinn í hvít- og rauðvíni telst auðvitað ekki með heldur – ég veit reyndar ekkert hvað Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir um það en hann telxt ekki með í mínum viðmiðum, goes without saying – allt í hófi auðvitað.)

Ég var lengi hrifin af ítölsku vínberjabrauði og hef birt uppskrift að því hér en það er gert úr hvítu hveiti og svo er sykri stráð yfir það áður en það er bakað og hann gerir gljáandi skorpu á brauðið. Þetta er hollara, auðvitað, og alveg ljómandi gott líka.

_MG_8838

Ég byrjaði á að setja 250 ml af ylvolgu vatni í hrærivélarskál og stráði svo 1 msk af þurrgeri yfir. Lét þetta standa í nokkrar mínútur, þar til gerið var farið að freyða og bætti þá 2 msk af ólífuolíu og ¾ tsk af salti í skálina og síðan 200 g af heilhveiti og 50 g af möndlumjöli (en það má líka sleppa möndlumjölinu og nota bara meira heilhveiti) og hrærði saman. Svo bætti ég við brauðhveiti (eða venjulegu hveiti, það má reyndar líka nota heilhveiti eingöngu en mér finnst brauðið betra með blöndu af hveiti) smátt og smátt, þar til hægt er að hnoða deigið án þess að það klessist mikið við hendur en það á þó að vera fremur lint. Ég notaði alls um 100 g af brauðhveitinu. Svo hnoðaði ég deigið vel, mótaði það í kúlu, breiddi yfir skálina og lét deigið lyfta sér I 1-1 ½ klst.

Svo sló ég deigið niður, hnoðaði það ögn og og setti það svo á vinnuborð og flatti það út í hring, svona 12 tommur í þvermál (alltsvo á stærð við meðalpítsu).

_MG_8840

Svo setti ég brauðið á pappírsklædda bökunarplötu og tók síðan vínber – líklega svona 250 g eins og ég sagði áðan en það má nota minna eða meira. Það má nota græn en dökk koma betur út og ég mæli mjög sterklega með steinlausum vínberjum. Raðaði þeim nokkuð jafnt á deigi og þrýsti þeim vel ofan í það. Breiddi svo viskastykki yfir og lét brauðið lyfta sér í um 1 klst. Hitaði á meðan ofninn í 200°C.

_MG_8988

Ég penslaði svo brauðið með vatni og bakaði það á næstneðstu rim í ofninum í 25-30 mínútur, eða þar til það hafði tekið góðan lit og vínberin voru orðin krumpótt. Lét það kólna á grind.

_MG_9040

Mér finnst brauðið gott bæði volgt og kalt.

*

Vínberjabrauð

250 ml volgt vatn

1 msk ger

2 msk ólífuolía

¾ tsk salt

200 g heilhveiti

50 g möndlumjöl (eða meira heilhveiti)

um 100 g brauðhveiti (eða enn meira heilhveiti)

steinlaus vínber

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s