Utanveltukona steikir bollur

Ég er einhvernveginn ekki alveg með í þjóðfélaginu þessa vikuna. Ég horfi nefnilega ekki á Eurovision. Ég held ég geti meira að segja fullyrt það með nokkurri vissu að ég hafi ekki einu sinni heyrt eitt einasta lag úr keppninni í ár, heldur ekki það íslenska. En kannski hef ég heyrt eitthvað af þessu samt án þess að átta mig á því, hvað veit ég … En ég áttaði mig fyrst almennilega á því hvað ég er utanveltu í hádeginu í dag, þegar ég hlustaði á nokkra karlkyns vinnufélaga mína diskútera kjólana sem einhverjar söngkonur klæðast í Eurovision. Jamm.

Svona er þetta líka þegar einhver íþróttakeppnin stendur yfir. Ég er ekki með í umræðunni og hrekst á milli sjónvarpsstöðva og enda á að horfa á Shipping Wars eða Sex Sent Me to the ER eða Kourtney and Kim take Miami … nei annars, svo langt hef ég aldrei verið leidd. En ég enda af einhverri ástæðu aldrei á Food TV, ég er satt að segja orðin hundleið á flestum matreiðsluþáttum líka. Sérstaklega þáttum á Food TV, reyndar.

Í fyrra var ég í sumarbústað með saumaklúbbnum þegar úrslitakvöld Eurovision var svo ég komst ekki hjá því að heyra – en ég var hins vegar allan tímann í eldhúsinu og slapp við að horfa. Það var ágætt. Núna verð ég heima og ætla líka að eyða kvöldinu í eldhúsinu, hvort sem ég verð ein í mat eða ekki.

Ég veit svosem ekki hvað ég elda en það verður örugglega enginn dæmigerður Eurovisionmatur. Sem ég veit reyndar ekki alveg hvernig má skilgreina … Það er uppskriftin sem hér kemur ekki heldur en gæti samt alveg átt við í Eurovisionpartíi með ýmsu öðru góðgæti, til dæmis ef ætti að vera Miðjarðarhafsþema eða eitthvað svoleiðis, því að einhvers staðar af þeim slóðum er uppskriftin ættuð (en ég sá annars rétt í þessu óvart á netinu hvaða þjóðir fara áfram fyrra kvöldið og það var nú ekki mikill grundvöllur fyrir Miðjarðarhafsfílingi í þeim lista).

Allavega, um daginn átti ég saltfiskbita sem eitthvað þurfti að gera við – ég hafði ætlað að gera eitthvað með tómötum og ólífum og fleiru en átti svo ekki tómata og nennti ekki út í búð svo ég ákvað að gera eitthvað allt annað. Og það var líka kalt úti og leiðinlegt veður og ég ákvað að eitthvað upp úr sjóðandi olíu væri svarið við því.

_MG_6111

Svo að ég byrjaði á að taka saltfiskinn – þetta voru svona 500 grömm, skera hann í bita, setja í pott með dálitlu vatni, hita næstum að suðu og láta malla mjög rólega í 5 mínútur. Þá tók ég fiskinn upp með gataspaða og setti á disk. Lét hann kólna í nokkar mínútur og fletti svo roðinu af honum og athugaði hvort væru einhver bein (það voru engin).

_MG_6118

Svo tók ég tvö egg og aðskildi þau. Setti rauðurnar í matvinnsluvélina með 100 ml af rjóma (má vera mjólk), 1 söxuðum lauk og 2 hvítlauksgeirum og lét vélina ganga þar til þetta var orðið að sléttu mauki. Þá blandaði ég saman 100 g af heilhveiti (eða hveiti), 1 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af pipar og ögn af chiliflögum (eða cayennepipar) og hrærði saman við.

_MG_6121

Svo iosaði ég saltfiskinn í sundur og setti út í, ásamt 2 söxuðum vorlaukum (má sleppa) og maukaði saman við. Ekki of fínt samt.

_MG_6125

Ég setti farsið í skál. Svo stífþeytti ég eggjahvíturnar tvær og blandaði þeim gætilega saman við með sleikju.

_MG_6127

Það þarf ekkert að blanda allt of vandlega, allt í lagi að einhverjar eggjahvítuklessur sjáist í farsinu.

_MG_6130

Svo hitaði ég olíu (tæplega 1 l) í potti upp í 180°C eða svo, mótaði bollur með lítilli matskeið og setti þær út í – ekki of margar í einu, ég steikti þær í þremur skömmtum, svona 8-10 í hvert skipti.

_MG_6134

Ég steikti bollurnar í svona 4 mínútur, eða þar til þær voru fallega gullinbrúnar, bústnar og stökkar, og sneri þeim á meðan svo þær steiktust jafnt. Það má líka hafa þær minni og steikja þær aðeins skemur.

_MG_6137

Ef maður er ekki viss hvort bollurnar séu tilbúnar má taka eina upp úr og rífa eða skera hana í sundur til að athuga hvort hún er gegnsteikt.

_MG_6136

Svo tók ég bollurnar upp með gataspaða og lét renna af þeim á eldhúspappír á meðan ég steikti hinar. Ef maður vill halda bollunum heitum má stinga þeim inn í 100°C heitan ofn á meðan þær bíða.

_MG_6149

Úr þessu urðu semsagt eitthvað 25-30 bollur.

_MG_6176

Ég bar þetta fram með salatblöðum og sítrónubátum, tómötum og avókadói. En svo má auðvitað hafa ýmiss konar sósur og ídýfur með.

*

Djúpsteiktar saltfiskbollur

500 g saltfiskur

2 egg

100 ml rjómi eða mjólk

1 laukur, saxaður

2 hvítlauksgeirar

100 g heilhveiti eða hveiti

1 tsk lyftiduft

½ tsk pipar

e.t.v. ögn af cayennepipar eða chiliflögum

2 vorlaukar (má sleppa)

olía til steikingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s