Ég var í búð í dag og það var dálítil röð og eins og stundum var ég aðeins að spá í hvað fólkið í kring var að kaupa. Ekki af neinni forvitni samt, maður bara kemst ekkert hjá því að sjá þetta … Og þessir tveir á undan mér og sá sem var næstur á eftir voru að kaupa gos og safa og snakk og nammi og kex og tilbúna rétti og pylsur og skyndikaffi og íspinna og eitthvað svoleiðis. Ekkert grænmeti og enga ávexti nema eitt mangó. Og ég var að kaupa tómata og salatpoka og steinselju og blaðlauk og rauðlauk og gulrætur og límónur og ferskan ananas og sæta kartöflu. Jú, og flatbrauðspakka og smjörstykki og eitt beikonbréf. Allir fóru út með einn álíka fullan poka en ég borgaði minnst. Og þá fór ég að hugsa um, af hverju er alltaf verið að tala um að grænmeti og ávextir sé svo dýrt að það sé ekki hægt að kaupa það, en minna heyrðist um að gos og snakk og nammi og kex og unnin matvara sé svo dýrt að ekki sé hægt að kaupa það?
Og í tilefni af þeim hugleiðingum er hér uppskrift að grænmetisrétti. Hún birtist fyrst í marsblaði MAN. Þetta er hugsað sem léttur réttur, kannski í brunch eða hádegisverð, en getur alveg verið aðalréttur, t.d. með brauði og grjónum eða salati. Setja má ýmislegt annað grænmeti með, e.t.v. í staðinn fyrir blómkálið, t.d. papriku eða kúrbít. Það má forsteikja grænmetið og útbúa bögglana fyrirfram og baka þá svo skömmu áður en á að bera þá fram.
Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Svo tók ég 500 g af kastaníusveppum (mega vera venjulegir, mér þykja kastanúsveppirnir betrti) og skar þá í sneiðar og skar líka svona 350 g af blómkáli í bita. Skar svo 3-4 vorlauka í sneiðar og saxaði 2 hvítlauksgeira smátt. Síðan bræddi svo 25 g af smjöri á pönnu, setti sveppi, blómkál, vorlauk og hvítlauk á hana og lét krauma í nokkrar mínútur, eða þar til þetta var aðeins byrjað að taka lit. Svo blandaði ég saman 1 tsk af þurrkuðu timjani, 1 tsk af þurrkaðri basilíku, 1 tsk af paprikudufti, ögn af chilipipar, pipar og salti, stráði öllu kryddinu yfir grænmetið á pönnunni, hrærði vel og lét krauma í 1-2 mínútur í viðbót.
Svo tók ég fjóra ferkantaða búta af bökunarpappír og setti fjórðung af sveppa-blómkálsblöndunni í hrúgu á miðjuna á hverjum þeirra.
Svo skar ég Dalabrie-ost í sneiðar og lagði tvær sneiðar af ostinum ofan á hverja hrúgu.
Svo tók ég öll hornin á örkinni saman og sneri svo upp á þau til að loka bögglinum. Það ætti að duga en öruggast er þó að binda seglgarnsspotta utan um. Ég setti svo bögglana á bökunarplötu og bakaði þá í um 15 mínútur.
Ég bar bögglana fram lokaða …
… og ef þeir eru bornir fram beint úr ofninum er gott að vara fólk við því að það getur komið heit gufa út þegar þeir eru opnaðir. Hér er bara salat með en eins og ég nefndi mætti líka hafa t.d. hrísgrjón og svo nóg af góðu brauði.
*
Sveppa- og blómkálsbögglar
500 g sveppir
350 g blómkál
3-4 vorlaukar
2 hvítlauksgeirar
25 g smjör
1 tsk þurrkað timjan
1 tsk þurrkuð basilíka
1 tsk paprikuduft
chilipipar á hnífsoddi
pipar
salt
1 Dalabrie (eða annar svipaður ostur)
200°C, um 15 mínútur