Það er víst að verða eða alveg orðið kjúklingalaust. Og gott ef aðrar kjöttegundir eru ekki að ganga upp líka, sumar hverjar – ég er meira að segja að velta því fyrir mér hvort ég þurfi kannski að endurskoða hluta af því efni sem ég er búin að gera fyrir næsta tölublað MAN, setja eintóma grænmetisrétti (og kannski fisk) í staðinn fyrir kjötréttina því það er náttúrlega ekkert vit í að vera með ófáanlegt hráefni … En við sjáum nú til.
Semsagt enginn kjúklingur en ég á enn brúnhænur í frysti og tók eina út fyrr í vikunni til að elda hana í staðinn fyrir kjúkling. Nú eru svona hænur engir kjúklingar 😉 og koma ekkert í staðinn fyrir þá – það er ekki hægt að taka hænu og elda hana eins og kjúkling. Það þýðir hins vegar ekki að þetta geti ekki verið afbragðs matur. Soðið er sérlega bragðmikið og fuglarnir henta vel í ýmsa pottrétti. Og það var einmitt einn slíkur sem ég ákvað að gera.
Eins og sjá má er byggingin dálítið önnur en á holdakjúklingi, bringan er hlutfalslega minni og fuglinn allur rýrari. Ég hef áður verið með uppskriftir þar sem ég byrja á að sjóða hænuna heila eða steikja hana í leirpotti en í þetta skipti ákvað ég að elda hana í bitum.
Ég byrjaði á að skera/höggva sundur bringubeinið og síðan hjó ég hryggbeinið frá til að hluta fuglinn í tvennt. Hryggbeinið má alveg fylgja öðrumhvorum helmingnum en ég hjó það reyndar alveg frá en eldaði það svo með til að fá úr því kraftinn. Svo hjó ég í sundur bringu og læri og var þá komin með fjóra bita (og hryggbeinið).
Ég hitaði dálitla olíu í þykkbotna potti og brúnaði bitana við góðan hita – tvo í einu því potturinn rúmaði ekki meira.
Svo setti ég hænsnabitana aðeins til hliðar á meðan ég steikti grænmeti sem ég var búin að skera niður: einn lauk, tvo sellerístöngla og tvær eða þrjár gulrætur. Ég notaði grænmeti sem var aðeins farið að láta á sjá og ég ætlaði bara að hafa í soðið en ekki nota sem hluta af réttinum svo ég var ekkert að flysja laukinn eða gulræturnar, en það má alveg gera það líka og hafa grænmetið með. Svo bætti ég við þremur lárviðarlaufum og kryddaði vel með pipar og salti.
Ég setti svo hænuna ofan á, hellti sjóðandi vatni yfir – svona tæpum 1 lítra, nóg til að það flyti næstum yfir bitana – setti lok á pottinn og lét malla við hægan hita í svona tvo tíma.
Þá veiddi ég hænsnabitana upp úr og setti þá á disk …
… en setti sigti yfir skál og síaði soðið. Það er reyndar óþarfi ef maður ætlar að nota grænmetið en þá þarf bara að muna að fjarlægja lárviðarlaufin (og hryggbeinið ef maður var með það laust). Ég mældi soðið, það var rétt rúmlega 1/2 l.
Svo skolaði ég og þerraði pottinn og hellti soðinu aftur í hann. Hrærði svo 150 ml af hnetusmjöri og 150 ml af tómatpassata (eða maukuðum, niðursoðnum tómötum) saman við.
Kryddaði með 1 tsk af kummini, 1 tsk af túrmeriki og dálitlum cayennepipar (ég vildi ekki nota mikið, bragðið af hænsnasoðinu var það gott), smakkaði og bætti við ögn af pipar og salti. Lét þetta malla í svona 15 mínútur.
Á meðan tók ég hænsnakjötið af beinunum og skar það í munnbita. Það er smekksatriði hvort maður hefur haminn með eða ekki.
Setti kjötið svo út í sósuna ásamt 3-4 msk af salthnetum og lófafylli af söxuðu kóríanderlaufi.
Lét þetta malla í nokkrar mínútur. Smakkaði og bragðbætti sósuna eftir þörfum og bætti svo að lokum við 2-3 msk af graskersfræjum og grænu blöðunum af 1 stórum vorlauk, söxuðum – en þetta tvennt er nú ekkert nauðsynlegt svosem.
Svo bar ég kássuna fram á hrísgrjónabeði og skreytti með kóríanderlaufi.
Hænan var vel meyr og sósan ansi góð, enda var soðið kraftmikið.
*
Hæna í hnetusósu
1 brúnhæna
2 msk olía
1 laukur
2 sellerístönglar
2-3 gulrætur
2-3 lárviðarlauf
pipar
salt
um 1 l vatn, sjóðandi
150 ml hnetusmjör, helst ósætt
150 ml tómatpassata eða maukaðir tómatar
1 tsk kummin
1 tsk túrmerik
cayennepipar á hnífsoddi, eða eftir smekk
3-4 msk salthnetur (má nota t.d. kasjúhnetur)
lófafylli af kóríanderlaufi
grænu blöðin af 1 vorlauk
2-3 msk graskersfræ (má sleppa)