Rauðgræn hakkbaka

Það var ekki beint grillveður á litlum norðursvölum á Grettisgötunni áðan, ég segi það ekki, en ég grillaði nú samt. Fór í hlýja peysu, hitaði grillið, maríneraði nokkra bita af hlýraflaki smástund í ólífuolíu, timjani, pipar og salti og grillaði svo fiskinn. Hann var ansi góður.

Já, ég er enn í fiskifasa, hef satt að segja fátt eldað annað en fisk síðan ég kom heim frá Róm fyrir viku – engin tenging þar á milli, held ég þó. Það er ekki út af kjötskorti heldur, er lítið farin að verða vör við hann í búðum enn sem komið er. Fyrir utan að ég á kjöt af ýmsu tagi í frystiskápnum en fæst af því er þó hversdagsmatur – eða best að orða það öðruvísi, fæst af því eru algengar kjöttegundir. En ef kjöthungur fer að sverfa að, þá á ég grísakinnar og folaldatungur og hérafillet og fasana og kalkúnaleggi og sitthvað annað.

En uppskriftin sem hér kemur er nú ekki að neinu slíku og þetta er ekki fiskuppskrift heldur. Nei, þetta er bara hakkréttur – hakkbaka nánar tiltekið; ég var með bökuþátt í marsblaði MAN og þessi birtist þar. Í þessum þætti sýndi ég m.a. hvernig á að blindbaka bökuskel, þ.e. forbaka hana tóma áður en fyllingin er sett í hana svo að hún haldi lagi. En þess er ekki þörf hér. Sumum bökum hentar nefnilega best grófgert útlit og þá má oft setja deigið beint á pappírsklædda plötu og brjóta bara upp á kantana utan um fyllinguna. Ekki er þó vert að gera það ef fyllingin er blaut eða hálffljótandi en fyrir þessa böku, sem er með hakkfyllingu á miðausturlenskum nótum, hentar þetta mjög vel.

_MG_2944

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 200°C. Svo tók ég 40 g af furuhnetum og ristaði þær á meðalheitri pönnu í nokkrar mínútur; þær eiga ekki að brenna, bara byrja að taka lit, svo það þarf að hrista pönnuna af og til eða hræra í hnetunum. Þegar þær voru farnar að taka lit hellti ég þeim svo á disk.

_MG_2964

Á meðan hneturnar ristuðust hafði ég saxað einn lauk smátt og 3-4 hvítlauksgeira mjög smátt. Svo setti ég 1 msk af olíu á pönnuna og lét laukinn krauma í nokkrar mínútur. Bætti þá hvítlauknum á pönnuna og steikti í 1 mínútu. Svo setti ég 600 g af hakki á pönnuna (ég var með lambahakk en það má alveg eins nota nautahakk eða blandað), brúnaði það og hrærði oft á meðan. Síðan stráði ég yfir þetta 1 tsk af kanel, 1 tsmk af kummini, 1 tsk af kóríanderdufti, 1/4 tsk af chiliflögum (eða eftir smekk), pipar og salti, hrærði og lét krauma þar til hakkið var steikt og allur vökvi gufaður upp. Þá hrærði ég furuhnetunum saman við, tók pönnuna af hitanum og lét kólna aðeins.

_MG_2957

Þá var að gera bökuskelina. Ég blandaði saman 175 g af heilhveiti,125 g af  hveiti (nota má eingöngu annað hvort), blöðum af nokkrum timjangreinum (eða 1/2 tsk af þurrkuðu timjani) og 1/2 tsk af salti í matvinnsluvél. Svo tók ég 150 g af köldu smjöri, skar það í litla bita, setti út í og lét vélina ganga þar til komin var fíngerð mylsna. Bætti svo ísköldu vatni út í smátt og smátt, þar til auðvelt var að hnoða mylsnuna saman en hún var þó ekki blaut eða klesst.

_MG_2965

Þá mótaði ég deigið í kúlu og setti hana á bökunarpappírsörk. Flatti það út í nokkuð stóra, hringlaga plötu og dró pappírinn svo yfir á bökunarplötu.

_MG_2971

Ég muldi svo 125 g af fetaostigróft yfir hakkið. Hellti því svo á mitt deigið og dreifði úr því en ekki út á brúnirnar, skildi eftir svona 3-4 cm.

_MG_2972

Svo braut ég brúnirnar inn yfir hakkfyllinguna þannig að þær mynduðu kant. Penslaði svo kantinn með eggjarauðu og bakaðuibökuna neðarlega í ofni í um 20 mínútur.

_MG_2986

Ég ætlaði að hafa granateplafræ á bökunni (það má samt sleppa því) og á meðan hún var í ofninum tók ég granatepli og fræhreinsaði það. Til þess eru ýmsar aðferðir, sumum finnst t.d. best að gera það í vatni, en mér finnst þessi aðferð langbest: Fyrst tók ég granateplið og skar grunnan skurð hringinn í kringum það – bara gegnum hýðið,

_MG_2988

Svo tók ég með sinni hendinni um hvorn helming og reif þá í sundur – það á ekki að vera neitt mál þegar búið er að skera gegnum hýðið og með því að gera þetta svona haldast öll fræin heil en ef maður sker granateplið í tvennt sker maður óhjákvæmilega fullt af fræjum í sundur.

_MG_2990

Svo tók ég annan helminginn í einu, hélt honum yfir skál og barði hvað eftir annað þéttingsfast með bakkanum á hnífnum (eða með einhverju öðru hentugu tóli) í hýðið. Sneri granateplahelmingnum til svo að barsmíðarnar yrðu sem jafnastar. Við þetta hrynja fræin eitt af öðru ofan í skálina.

_MG_2992

En næstum allt ljósa gumsið (eða frauðkenndi innmaturinn sem maður þarf hvort eð er að tína frá) situr eftir í granateplinu og maður er allt í einu kominn með fulla skál af fagurrauðum granateplafræjum. Stráheilum og með öllum sínum safa. Og ekkert vatnssull eða neitt. Ef eitthvað er enn eftir af fræjunum má skera helmingana í fjórðunga og halda áfram að berja.

_MG_2995

Þegar bakan var tilbúin tók ég hana úr ofninum og renndi henni svo yfir á bretti.

_MG_3003

Svo stráði ég granateplafræjum yfir (kannski ekki öllum en svo má bera hin fram með) og saxaði dálítið af flatblaða steinselju og stráði yfir. Þetta var næstum jólalegt …

_MG_3054

Allavega, þetta er hin ágætasta baka og það má bæði borða hana heita og kalda.

*

Hakkbaka með furuhnetum

*

Hakkfyllingin

40 g furuhnetur

1 laukur

3−4 hvítlauksgeirar

1 msk olía

600 g lamba- eða nautahakk

1 tsk kanill

1 tsk kummin (cumin)

1 tsk kóríanderduft

1/4 tsk chiliflögur, eða eftir smekk

pipar

salt

125 g fetaostur (kubbur)

1 eggjarauða til penslunar

1/2 granatepli

steinselja

*

Bökuskelin

175 g heilhveiti

125 g hveiti

blöðin af nokkrum timjangreinum (eða 1/2 tsk þurrkað timjan)

1/2 tsk salt

150 g kalt smjör, skorið í bita

ískalt vatn eftir þörfum

200°C í um 20 mínútur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s