Brúnhæna í Búðardalspotti

Ég prílaði upp á eldhúströppuna um páskana til að ná í leirpottinn minn og það þýðir nú líklega að ég mun nota hann nokkrum sinnum á næstunni. Vegna plássleysis í eldhúsinu þarf ég nefnilega að geyma hann uppi á háum skáp og man oft ekki eftir honum – nú, eða nenni ekki að príla – og þess vegna líður oft töluverður tími milli þess sem hann er tekinn niður en þá nota ég hann líka oft nokkrum sinnum áður en ég príla upp með hann aftur.

Já, það er að verða aðkallandi að endurskipuleggja eldhúsið.

En allavega, nú ákvað ég að taka hann niður vegna þess að ég ætlaði að elda brúnhænu og taldi tilvalið að hægelda hana í leirpotti. Það var eitthvað svo borðliggjandi – hæg, rök eldun með grænmeti og öðrum bragðgjöfum er einmitt það sem hráefni eins og brúnhæna þarf á að halda. Það hentar ekki að steikja brúnhænur eins og kjúklinga, það tekur langan tíma og þær verða þurrar og seigar. En þær eru fínar í súpur, soð og ýmsa pottrétti og fleira. Það er þó vel hægt að gufusteikja (brassera) þær í lokuðu íláti – leirpotti eða steypujárnspotti með þéttu loki, til dæmis.

En ég á þennan fína íslenska pott úr Fagradalsleir frá Leir 7 og notaði hann náttúrlega.

_MG_4169

Þannig að ég semsagt prílaði, náði í pottinn, setti hann í vaskinn og lét bæði pottinn og lokið liggja í bleyti í volgu vatni í 15-20 mínútur. Á meðan hitaði ég ofninn í 160°C.

Það mætti líka nota Römertopf eða annan leirpott, eða semsagt járnpott, svartan eða emaleraðan, sem þarf auðvitað ekki að liggja í bleyti.

_MG_4171

Á meðan potturinn lá í bleyti og ofninn hitnaði tíndi ég til ýmiss konar grænmeti (þetta var svona ísskápstiltekt), aðallega þó rótargrænmeti. Það er hægt að nota alls konar samsetningar en ég var með 1 sæta kartöflu, 1 frekar litla gulrófu, 1 nípu (parsnip) 4-5 gulrætur, 1-2 sellerístöngla og 1 lítinn blaðlauk. Ég flysjaði rótargrænmetið og skar það niður, ekkert allt of smátt, og skar blaðlaukinn og selleríið niður.

_MG_4173

Ég náði svo í brúnhænuna – sem var ekki alveg fullþiðnuð – tók pottinn úr vaskinum og setti hænuna í hann með bringuna upp. Dreifði svo grænmetinu allt í kring, það fyllti pottinn næstum.

_MG_4177

Ég kramdi 2 hvítlauksgeira og setti út í, ásamt 2-3 lárviðarlaufum. Stráði 1 tsk af þurrkuðu timjani yfir og kryddaði vel með salti og nýmöluðum pipar og svo ýrði ég 1 msk af ólífuolíu yfir hænuna.

_MG_4179

Svo hellti ég svona 1/2 l af sjóðandi vatni í pottinn (í kringum hænuna og yfir grænmetið en ekki yfir hænuna sjálfa). setti lokið á hann, setti hann í ofninn og þar sat hann óhreyfður í – ja, líklega 2 klst og 45 mínútur eða svo.

_MG_4260

Þá tók ég pottinn út og lyfti lokinu. Hænan hafði tekið góðan lit og það af grænmetinu sem efst var líka. Hænan sýnist kannski á myndinni vera svolítið þurr en það var hún þó ekki. Og grænmetið var auðvitað allt afar meyrt og mjúkt en ekkart af því var þó farið í mauk.

_MG_4263

Og soðið í pottinum var sérlega bragðmikið og gott.

_MG_4272

Ég skar bringubita og legg af hænunni og setti á disk, ásamt góðum skammti af grænmetinu og dálitlu grænu salati, og jós svo soði yfir (hefði líka getað sett hluta af soðinu í pott, þykkt það með sósujafnara og borið fram sem sósu). Þetta var fínasti matur, ekki síst lærið, sem var bragðmikið og alls ekki þurrt. Bringan var ekki þurr heldur en hún var svosem ekki safarík … og hún var töluvert bragðminni en lærið. En soðið og grænmetið var svo bragðmikið að það kom ekki að sök. Ágætis matur fyrir lítinn pening.

_MG_4282

Það var heilmikill afgangur, bæði af hænu, grænmeti og soði, svo að þegar hænan var farin að kólna plokkaði ég kjötið af beinunum, skar það eða reif í bita og setti út í pottinn (eða reyndar annan pott því ekki ætlaði ég að hita þetta upp í leirpottinum). Setti í kæli og geymdi til næsta dags. Þá ákvað ég að gera matarmikla hænsnasúpu og bætti við einni dós af söxuðum tómötum og skvettu af vatni (etir því hvað maður vill hafa súpuna þykka), hrærði saman og hitaði að suðu.

_MG_4284

Ég lét súpuna malla í nokkrar mínútur, þar til allt var heitt í gegn, og hrærði öðru hverju. Svo smakkaði ég súpuna og bætti við pipar og salti eftir þörfum (mætti líka setja ögn af chilipipar ef því er að skipta) og af því að ég átti nokkur basilíkublöð sem lágu undir skemmdum setti ég þau líka, en það má alvega sleppa þeim.

_MG_4314

Þá er bara að ausa súpunni á diska, strá e.t.v. dálítilli saxaðri steinselju yfir (það má líka sleppa henni en súpan verður fallegri með einhverju grænu út í) og taka upp skeiðina.

*

Brúnhæna í leirpotti

1 brúnhæna, um 1200 g

grænmeti eftir smekk, t.d. sætar kartöflur, gulrætur, gulrófur, nípur, sellerírót, butternut, blaðlaukur, laukur, sellerí …

2-3 hvítlauksgeirar

2-3 lárviðarlauf

1 tsk þurrkað timjan

nýmalaður pipar

salt

1 msk ólífuolía

2 1/2-3 klst. við 160°C.

*

Tómatlöguð hænsnasúpa

afgangur af brúnhænu, grænmeti og soði

1 dós saxaðir tómatar

vatn eftir þörfum

pipar

salt

e.t.v. nokkur basilíkublöð

e.t.v. chilipipar á hnífsoddi

e.t.v. söxuð steinselja

One comment

  1. Takk fyrir frábærar uppskriftir og skemmtilegar lesningar með.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s