Enn ein uppskrift að hummus …

Nú orðið er varla nokkuð hversdagslegra en hummus og það eru uppskriftir að því út um allt og auðvitað þarf heimurinn ekki á enn einni hummusuppskrift að halda og ég er nýbúin að skrifa grein um matardellur og uppskriftir sem er hægt að finna út um allt í Stundina og jújú, ég hef birt hummusuppskriftir áður. Margar. Enda er það eitthvað sem hægt er að búa til á fimm mínútum og gæti ekki verið einfaldara og allt það.

Það er samt svo óralangt síðan ég bjó fyrst til hummus að þá fengust ekki niðursoðnar kjúklingabaunir, bara þurrkaðar, og gott ef ekki bara í einhverjum sérvitringabúðum. En ég er voða léleg að plana fram í tímann og átti erfitt með að muna eftir að leggja baunirnar í bleyti og nennti ekki að sjóða þær klukkutímum saman. Svo að þegar dósabaunir fóru að fást greip ég þær fegins hendi, jafnvel þótt hummusinn væri auðvitað ekki eins góður. Hann slapp alveg og það var bara svo miklu fljótlegra og einfaldara að nota dósabaunirnar.

En það er brara svo miklu betra að sjóða þær og fyrir skipulagðara fólk en mig er það ekkert mál. Það er hægt að leggja þær í bleyti yfir nótt (eða flýta fyrir sér með því að hleypa upp á þeim suðu í 5 mínútur og láta svo standa í klukkutíma), skipta svo um vatn og sjóða þær í 1-1 ½ klst. Það má líka sleppa því að leggja þær í bleyti en þá þurfa þær lengri suðu, 2-3 klst. Nei, en nú á ég þrýstisuðupott og þá þarf ekkert að leggja baunirnar í bleyti og þær þurfa aðeins 35-40 mínútna suðu svo að það er allt annað mál og ég er hætt að nota dósabaunir. En auðvitað er hægt að gera það líka í þessari uppskrift.

Hummus þýðir einfaldlega kjúklingabaunir svo að það er dálítið mikið út í hött að kalla eitthvað hummus sem ekki inniheldur neinar kjúklingabaunir, eins og stundum sést. Hummus bi tahina er einfaldlega hummus með tahini, sem er langsamlega algengasta útgáfan.

Allir kannast við hummus. Auðvitað er alveg hægt að gera það úr niðursoðnum baunum og það er langfljótlegast og einfaldast – en það verður bara svo miklu betra ef maður sýður baunirnar sjálfur. Það er hægt að leggja þær í bleyti yfir nótt (eða flýta fyrir sér með því að hleypa upp á þeim suðu í 5 mínútur og láta svo standa í klukkutíma), skipta svo um vatn og sjóða þær í 1-1 ½ klst. Það má líka sleppa því að leggja þær í bleyti en þá þurfa þær lengri suðu, 2-3 klst. Ég notaði þrýstisuðupott og þá þarf ekkert að leggja baunirnar í bleyti og þær þurfa aðeins 35-40 mínútna suðu.

En fyrst er að baka brauð með. Þetta er ekki alveg pítubrauð en náskylt. Því linara og blautara sem deigið er og því hærri sem ofnhitinn er, þeim mun betra. Ég gerði þetta fyrir miðausturlenska þáttinn sem ég var með í febrúarblaði MAN.

_MG_6919

Ég setti 350 g af ylvolgu vatni og 1 msk af geri í skál og lét standa í nokkrar mínútur. Setti svo tæplega 500 g af brauðhveiti út í, ásamt 1 1/2 tsk af salti og 2 msk af ólífuolíu, hrærði vel saman og hnoðaði í nokkrar mínútur. Ég bætti við hveiti eftir þörfum; deigið á að vera fremur lint en þó ekki klessast við hendurnar að ráði. Svo mótaði ég það í kúlu, setti í skál, breiddi yfir og lét deigið lyfta sér í 1 1/2-2 klst. Þá hnoðaði ég deigið lauslega og skipti því í sex eða átta kúlur.

_MG_6922

Ég flatti svo hverja kúlu út í aflangt, þunnt brauð. Raðaði þeim á pappírsklædda bökunarplötu (eða -plötur), breiddi viskastykki yfir og lét brauðin lyfta sér í 25-30 mínútur. Hitaðu á meðan ofninn í 250°C (eða eins mikið og hægt er, ef það nær ekki 250°C).

_MG_6933

Síðan bakaði ég brauðin í miðjum ofni í 6 mínútur eða svo, þar til þau voru rétt að byrja að taka lit.

_MG_6890

Þá var það hummusinn og ég byrjaði á að sjóða svona 115 g af þurrkuðum baunum – það ætti að gera um 250 g af soðnum – í þrýstisuðupottinum mínum en það má líka leggja þær í bleyti og sjóða á venjulegan hátt eða nota dósabaunir. Gott er að geyma smávegis af soðinu eða leginum úr dósinni til að þynna hummusinn eftir þörfum.

_MG_7044

Taktu 2-3 matskeiðar af baunum frá en settu afganginn í matvinnsluvél, ásamt 5 msk af tahini, 2 söxuðum hvítlauksgeirum, safa úr 1 sítrónu, 1 tsk af kummini, smáklípu af cayennepipar og 100 ml af ólífuolíu, og lét vélina ganga þar til þetta var orðið að mauki. Bætti þá við dálitlu af soðinu og lét vélina ganga áfram þar til maukið var slétt, silkimjúkt og létt. Svo saltaði ég hummusinn ögn, setti maukið í skál, gerði svolitla laut í miðjuna, hellti afganginum af ólífuolíunni í hana og dreifði heilu baununum sem ég hafði tekið frá yfir og skreytti með smásteinselju (ekki nauðsynlegt en svona er þetta yfirleitt gert í Miðausturlöndum).

_MG_7047

Hummus bi tahina

250 g soðnar kjúklingabaunir

5 msk tahini

2 hvítlauksgeirar, saxaðir

safi úr 1 sítrónu

1 tsk kummin (cumin)

cayennepipar eða chiliflögur á hnífsoddi

125 ml ólífuolía, eða eftir þörfum

soð af baununum eftir þörfum

salt

e.t.v. steinselja

*

Arabískt brauð

350 ml vatn, ylvolgt

1 msk þurrger

um 500 g brauðhveiti, eða eftir þörfum

1 1/2 tsk salt

2 msk ólífuolía

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s