Gott, hollt og afar einfalt

Gleðilega hátíð. Segi ég af gömlum vana en skal nú játa að páskarnir hafa aldrei verið nein sérstök hátíð hér á þessu trúlausa heimili, fremur annaðhvort afslöppunar- og letidagar eða ein stanslaus vinnutörn – ég hef þýtt heilu bækurnar í einu páskafríi (en mundi nú ekki nenna því núna, orðin of gömul og værukær) eða notað allt fríið í bókaskrif, matartilraunir og annað slíkt.

En fjölskyldan kemur í mat, jújú. Það verður ekkert páskalamb í kvöld en ég tók úr frysti dádýralundir sem ég er ekki enn alveg búin að ákveða hvernig ég elda, það rætist úr því. Og það eru til ratte-kartöflur og efniviður í einhver salöt og fleira gott með. Svo getur nú verið að ég baki einhverja súkkulaðiköku með sykri til að gleðja soninn, sem segir að lífið hafi verið ánægjulegra áður en ég og systir hans hættum að borða sykur (og hann hatar döðlur, gráfíkjur og annað slíkt). Ég er nefnilega ekkert endilega hætt að nota sykur þótt ég borði hann ekki sjálf. Það verður þá bara eitthvað annað handa okkur mæðgunum.

Uppskrift dagsins er ekki að neinum veislumat og ekki páskatengd á neinn hátt en gæti samt alveg verið meðlæti með ýmsu – ég notaði þetta til dæmis á föstudaginn sem hluta af nautakjötssalati sem var í forrétt. Það má alveg haga krydduninni eftir því hver réttiurinn er. En annars er þetta bara hugsað eitt sér sem nart, eða sem hluti af meze eða á hlaðborð. Uppskriftin birtist fyrst í miðausturlenska þættinum sem ég var með í febrúarblaði MAN og hún hefur gert lukku víða, veit ég.

Þetta er afskaplega einfaldur réttur, aðeins þrjú hráefni fyrir utan salt og pipar. Og náttúrlega hollur og allt það. Ég var með miðausturlenskt grillað blómkál í huga en og það er hægt að setja þetta á grillið ef maður er að kveikja upp í því hvort eð er en oftast er fyrirhafnarminna að hita bara ofninn vel. Blómkálið á að brenna dálítið, þá er það best. – Kálið er vegan en sósan sem uppskrift er að hér er það ekki, þið athugið það.

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 225-230°C.

_MG_4044

Ég var með einn blómkálshaus, ekkert mjög stóran, líklega 500-600 grömm. Tók öll blöðin af honum og skar stilkinn í burtu og skipti svo afganginum í frekar litla kvisti, einn til tvo munnbita hvern.

_MG_4045

Það sem sést á myndunum er reyndar ekki nema svona helmingurinn af því magni þótt uppskriftin sé miðuð við allt saman því að ég var ekki nógu ánægð með myndirnar sem ég tók upphaflega svo að ég notaði myndr sem ég tók á föstudaginn, af kálinu sem ég notaði í salatið, og þá var magnið minna.

_MG_4046

Svo blandaði ég saman í skál svona 4 msk af ólífuolíu, 2 tsk af kummini, pipar og salti, setti blómkálið út í og blandaði vel.

_MG_4048

Ég setti pappír í ofnskúffu (eða bökunarplötu eða í stórt, eldfast mót) og dreifði jafnt úr blómkálinu.

_MG_4055

Siðan bakaði ég það í miðjum ofni í 20-25 mínútur, eða þar til það er vel meyrt og farið að brúnast og brenna ögn. Það má alveg brúnast misjafnt, engin þörf á að hræra í því. Annars má bökunartíminn líka fara dálítið eftir því hvernig á að nota blómkálið, ég baka það minna ef ég ætla t.d. að nota það í salat eða sem meðlæti en meira ef það á að vera snakk – þá finnst mér best að hafa það svolítið brennt.

_MG_4111

Blómkálið má svo bera fram heitt eða við stofuhita, t.d. með kryddjurtabættri jógúrt …

_MG_7085

… eða með tahini-jógúrtsósu: 3 msk tahini, 1 saxaður vorlaukur, 2 msk sítrónusafi, 4 msk grísk jógúrt, 2 msk ólífuolía, pipar og salt, allt sett í matvinnsluvél og þeytt vel saman. Sósuna má svo þynna ögn með köldu vatni ef vill. Þessa sósu/ídýfu má líka bera fram með ýmsum miðausturlenskum mat

*

Grillað blómkál

(eða bakað, öllu heldur)

500-600 g blómkál

4 msk ólífuolía

2 tsk kummin

salt og pipar eftir smekk

230°C í 20-25 mínútur.

*

Tahini-jógúrtsósa

3 msk tahini

1 vorlaukur, saxaður

2 msk sítrónusafi

4 msk grísk jógúrt

2 msk ólífuolía

pipar

salt

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s