Gleðilega páska, öllsömul.
Það er alltaf verið að spyrja fólk hvað það ætli að gera um páskana og ég get hér með upplýst að ég ætla ekki að gera neitt, nema taka til og henda dóti og skrifa grein sem ég átti að vera búin að skila af mér fyrir löngu og fá fólk í mat og prófa uppskriftir og taka myndir fyrir næsta blað MAN og … en þar fyrir utan ætla ég helst ekki að gera neitt.
Fá fólk í mat, sagði ég. Það verða nú bara kvöldverðir en ég hef stundum hugsað um að það gæti nú verið gaman að hafa páskabrunch. Það yrði þá helst á laugardaginn fyrir páska, ég sé ekki alveg fyrir mér að fjölskyldan yrði viljug að mæta fyrir eða í hádeginu á páskadag. Auk þess er helsti brunch-áhugamaðurinn, hann Úlfur, norður í Húnavatnssýslu alla páskana í hestamennsku og skítmokstri hjá afa sínum. Og hann vill hvort eð er bara amerískan brunch með pönnukökum og beikoni og miklu hlynsírópi og alls konar óhollustu
Hann fengi nú kannski eitthvað af því ef hann kæmi í páskabrunch hjá ömmu sinni en ég myndi nú bjóða upp á ýmislegt fleira, til dæmis kannski rótargrænmetislummur eða rösti. Þetta er hollur og bragðgóður réttur sem er skemmtilegur á brunch-borðinu en getur líka vel verið léttur kvöldverður handa fjölskyldunni. Eða jafnvel á smárétta-fermingarhlaðborð. Uppskriftin birtist fyrst í marsblaði MAN.
Úr þessu urðu 12-16 stykki hjá mér en geta vel orðið fleiri (eða færri), það fer eftir stærð auðvitað. Ég notaði sætar kartöflur, gulrófur og rauðrófur en það má breyta því og nota t.d. gulrætur, kartöflur eða sellerírót.
En ég byrjaði semsagt á að flysja og snyrta sæta kartöflu (200 g), gulrófu (200 g) og rauðrófu (100 g, þyngdin miðast við flysjað grænmeti). Síðan reif ég það það á fremur grófu rifjárni og reyndi að hafa grænmetislengjurnar sem lengstar. Mér finnst best að nota rifjárnið í matvinnsluvélinni til þess en ef það er ekki gert er best að hafa hanska þegar rauðrófan er rifin eða halda a.m.k. um hana með álpappírsbút.
Ég setti svo allt í skál. Tók hálft knippi af basilíku, saxaði það gróft og blandaði henni saman við. Það má alveg sleppa basilíkunni og nota smávegis af einhverjum þurrkuðum kryddjurtum í staðinn.
Ég braut svo 2 egg í aðra skál og hrærði saman við þau 60 g af heilhveiti, 1 tsk af möluðum kóríanderfræjum, 1 tsk af kummini og dálitlum pipar og salti. Hellti þessu svo yfir rifna grænmetið og blandaði vel.
Ég setti svo nokkrar matskeiðar af olíu á pönnu og hitaði. Tók síðan dálítið af grænmetisblöndunni, rúllaði því í kúlu á stærð við golfkúlu (eða ég spila reyndar ekki golf og er ekkert allt of viss um hvað golfkúla er stór svo að það er bara ágiskun), flatti hana út á milli lófanna og setti á pönnuna. Það ættu að komast 7-8 lummur á meðalstóra pönnu.
Ég steikti lummurnar við fremur vægan hita í 3-4 mínútur. Sneri þeim þá gætilega með spaða og steikti í 2-3 mínútur á hinni hliðinni, eða þar til þær voru orðnar fallega gullinbrúnar og grænmetið meyrt.
Svo tók ég þær af pönnunni og setti á eldhúspappír (eða e.t.v. í 100°C heitan ofn ef á að halda þeim heitum). Síðan steikti ég fleiri lummur úr afganginum af deiginu. Það má borða lummurnar heitar eða volgar með salati og e.t.v. sýrðum rjóma eða kotasælu …
… en einnig má láta þær kólna og setja álegg á þær – t.d. sýrðan rjóma og reyktan lax, eða bara kotasælu og kryddjurtir.
*
Rótargrænmetis-rösti
200 g sæt kartafla
200 g gulrófa
100 g rauðrófa
hálft knippi basilíka
2 egg
60 g heilhveiti
1 tsk kóríanderfræ, möluð
1 tsk kummin
pipar
salt
olía til steikingar