Eggjabrauð á páskum

Ég sagði á dögunum að páskabrauðsuppskriftin kæmi fljótlega og hér er hún. Í Grikklandi er svona brauð, tsoureki, gjarna bakað að morgni páskadags og svo nartað í það allan daginn.

Brauðið er gert úr sætu gerdeigi sem inniheldur bæði egg og smjör og það er mótað í lengjur sem síðan eru fléttaðar saman. Svipuð fléttubrauð eru þekkt víða um Balkanskaga, Mið-Austurlönd og Mið-Asíu en tsoureki er líklega þekktast þeirra.

Hefðbundið er að bragðbæta brauðið með kryddi sem kallast mahlepi eða mahlab og getur verið erfitt að nálgast. Bragðefnið sem oft er ráðlegt að nota í staðinn er einnig torfengið en ég fékk uppskriftina frá matreiðslubókahöfundinum Aglaiu Kremezi og hún mælti með rifnum appelsínuberki; það kom vel út.

Á páskunum er brauðið oftast skreytt með lituðu eggi eða eggjum sem eru bökuð með því. Oftast eru eggin rauð en geta verið með öðrum lit eða litum.

_MG_1271

Til að lita eggin eru þau sett í pott með vatni sem rétt flýtur yfir, bætt við vænni skvettu af matarlit …

_MG_1277

… og síðan harðsoðin …

_MG_1280

… og látin kólna í soðinu. Lituðu eggin eru yfirleitt ekki borðuð en það er þó alveg óhætt. Oft er söxðuðum möndlum, stundum blönduðum kanelsykri, stráð yfir brauðið áður en það fer í ofninn.

_MG_1285

Ég byrjaði á að velgja 200 ml af mjólk, hella henni í hrærivélarskál og strá 1 msk af  geri yfir. Lét þetta standa í nokkar mínútur. Á meðan blandaði ég 500 g af hveiti, 150 g  af sykri (ónei, þetta er ekki sykurlaust) og ¾ tsk af salti saman í annarri skál og reif gula börkinn af 2 appelsínum fínt yfir.

_MG_1292

Ég bræddi svo 100 g af smjöri og lét það kólna aðeins. Braut 2 stór egg í litla skál og þeytti volgu smjörinu saman við þau. Svo setti ég hveitiblönduna og eggjablönduna í hrærivélarskálina með mjólkinni og gerinu og hrærðu saman.

_MG_1299

Bætti við hveiti eftir þörfum, þar til deigið var fremur þétt og vel hnoðunarhæft en þó enn rakt.

_MG_1336

Ég hnoðaði deigið vel, mótaði það í kúlu, setti hana í skál, stráði svolitlu hveiti yfir, lagði plastfilmu yfir skálina og lét deigið lyfta sér í 1½ -2 klst., eða þar til það hafði tvöfaldast.

_MG_1340

Ég sló svo deigið niður og skipti því í þrjá jafna hluta. Rúllaði hvern um sig út í lengju og reyndi að hafa þær allar álíka langar og sverar. Ég setti þær á pappírsklædda bökunarplötu og svo lagði ég annan endann á þeim öllum saman og þrýsti þeim saman með fingrunum.

_MG_1341

Ég byrjaði svo að flétta lengjurnar þrjár saman og stakk harðsoðnu eggjunum inn í fléttuna, á milli lengjanna.

_MG_1348

Ég notaði þrjú en það má nota fleiri, eða þá bara eitt. Ég lét svo brauðið lyfta sér í um 45 mínútur.

_MG_1356

Ég hitaði á meðan ofninn í 190°C. Léttþeytti saman eina eggjarauðu og eina matskeið af mjólk og penslaði brauðið vel.

_MG_1432

Ég setti brauðið á neðstu rim í ofninum og bakaði það í um hálftíma, eða þar til það var fallega gullinbrúnt.

_MG_1439

Ef maður sýður fleiri egg en notuð eru í brauðið má líka láta þau hálfkólna í litaða vatninu, taka þau svo upp úr og slá þeim létt við eitthvað til að brjóta skurnina en taka hana ekki af, heldur setja eggin aftur út í og láta þau kólna alveg í litaða vatninu. Þá verða þau einhvern veginn svona þegar skurnin er plokkuð af:

_MG_1352

*

Grískt páskabrauð – Tsoureki

200 ml mjólk + 1 msk til penslunar

1 msk þurrger

500 g hveiti, eða eftir þörfum

150 g sykur

¾ tsk salt

rifinn börkur af 2 appelsínum

100 g smjör

2 stór egg

1-3 lituð egg

1 eggjarauða til að pensla með

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s