Ein hæna, tvær máltíðir

Ég eignaðist nokkrar brúnhænur á dögunum og það þýðir að á næstu vikum mun það gerast nokkrum sinnum að ég sit í rólegheitum inni í stofu og er að gera eitthvað allt annað á meðan hæna mallar í rólegheitum í potti í eldhúsinu með einhverju grænmeti og kryddjurtum og einhver notalegheitailmur dreifist um íbúðina … Þessar hænur eru nefnilega til að sjóða rólega og lengi, ekki til að steikja. Eða jú, það er hægt líka, meira um það seinna.

Margir hafa einhverja fordóma gagnvart hænum og telja þær jafnvel ólseigar óg óætar. Ég man vissulega eftir því snemma á mínum búskaparárum að hafa reynt að elda hænu sem líklega hefði aldrei orðið meyr þótt ég hefði soðið hana til eilífðarnóns. Kjúklingar voru rándýrir á þeim árum en hænurnar mjóg ódýrar og maður var að reyna að breyta þeim í kjúklinga, sem augljóslega gengur ekki upp. En brúnhænurnar eru nú ekki þannig, langt í frá. Auðvitað er ekki hægt að fara með þær eins og kjúklinga en það er hægt að gera ýmislegt gott úr þeim og þetta er með ódýrara kjöti sem finnst í búðum.

Hænurnar bíða enn í frysti (þeirra tími kemur) nema ein sem ég er búin að nýta í tvær mismunandi máltíðir og svo á ég enn eftir dálítið af góðu soði sem ég frysti og nota einhverntíma seinna. Þetta eru samt engar risaskepnur, ætli þær séu ekki flestar svona 1,2-1,5 kíló? Þær eru beinastærri og holdminni en kjúklingarnir.

Ég var semsagt með eina hænu sem hafði fengið að þiðna í nokkra daga í ísskápnum. Það mætti þess vegna setja hana frosna í pottinn og sjóða heldur lengur en þær verða samt betri ef þær eru látnar þiðna rólega. Ég setti hana í stóran pott (samt best að hann sé ekki mjög víður, þá þarf svo mikið vatn) og hellti yfir köldu vatni, svo miklu að það flaut næstum yfir – líklega voru þetta um 3 lítrar.

_MG_3599

Svo skar ég niður 1 meðalstóran blaðlauk, 150 g af gulrótum og 2 sellerístöngla. Saxaði 2 hvítlauksgeira smátt og skar ræmur af gula berkinum af 1 sítrónu. Setti þetta allt í pottinn, ásamt 2-3 lárviðarlaufum og nokkrum timjangreinum (eða 1/2-1 tsk af þurrkuðu timjani).

Ef ég hefði viljað alveg tæra súpu hefði ég látið suðuna koma upp á vatninu og hænunni áður en ég hefði sett grænmeti og kryddjurtirnar út í og fleytt svo froðu ofan af. En ég var nú ekki að hugsa um það í þetta skipti.

_MG_3601

Ég kryddaði svo með salti, vænni klípu af chiliflögum og miklum nýmöluðum pipar, hitaði að suðu og setti svo lok á pottinn, lækkai hitann og élt hænuna malla við vægan hita í um 2 klst. Það á ekkert að þurfa að hræra í pottinum eða fylgjast neitt með þessu, bara láta það malla.

_MG_3606

Ég tók svo hænuna upp úr og lét hana kólna dálítið en setti sigti yfir stóra skál og hellti soðinu í gegnum það. Setti svona 1 l af því aftur í pottinn.

_MG_3608

Grænmeti var allt í sigtinu og ég tíndi kryddjurtirnar og sítrónubörkinn frá en setti hitt aftur út í pottinn og hitaði að suðu.

_MG_3609

Ég skar aðra bringuna og annað lærið af hænunni en setti hitt til hliðar (og svo í kæli þegar það var orðið kalt). Tók haminn af bringunni og lærinu og skar eða reif svo kjötið í fremur litla bita og setti út í súpuna.

_MG_3616

Ég ákvað að bæta við baunum til að gera súpuna að fullkominni máltíð (hefði auðvitað líka getað notað allt kjötið af hænunni en mig langaði að hafa baunir) svo að ég hellti vökvanum af 1 dós af kjúklingabaunum, setti baunirnar út í súpuna og lét malla í nokkrar mínútur, þar til hænan og baunirnar voru heit í gegn. Ég átti smáskvettu af rjóma, svona 100 ml, og ákvað að setja hann út í en það er ekkert nauðsynlegt. Það mætti líka nota kókosmjólk.

_MG_3626

Svo smakkaði ég súpuna, bætti við svolitlu salti, hellti henni í skál og bætti við einni lúku af grófsaxaðri steinselju. Þetta er alveg ágætis máltíð fyrir þrjá með nóg af góðu brauði.

Ég geymdi hænuhelminginn og soðið í ísskápnum í tvo daga en þá var komið að því að elda úr þessu. Ég var ein í mat í þetta skipti, kom frekar seint heim úr vinnunni og hafði ekki mikinn tíma svo að ég ákvað að gera bara fljótlega og mjög einfalda karríkássu og hafa með henni soðið perlubygg (frá Vallanesi, mjög gott – en það má auðvitað líka hafa hrísgrjón eða eitthvað annað).

_MG_3636

Ég bakaði sósuna upp með hveiti en það má auðvitað líka hita bara soðið og jafna það með sósujafnara. En ég setti 1 1/2 msk af smjöri í pott og bræddi það og bætti svo við 1 1/2 msk af hveiti …

_MG_3637

… hrærði þetta vel saman og lét krauma í svona eina mínútu.

Og nota bene: Ég sé fólk stundum kalla þetta smjörbollu. Þetta er ekki smjörbolla, þetta er uppbökuð sósa. Smjörbolla er þegar hveiti og lint smjör er hrært saman í skál og blandan svo sett út í heitt soð eða annan vökva til að jafna hann.

_MG_3639

En allavega, ég hellti hænsnasoði smátt og smátt út í og hrærði stöðugt á meðan, þar til sósan var hæfilega þykk og alveg slétt. Ætli ég hafi ekki notað svona 300 ml af soði.

_MG_3643

Ég setti svo kúfaða teskeið af gulu taílensku karrímauki út í, hrærði vel og smakkaði. Það má svo bæta við meira karríi eftir smekk. Svo tók ég hænuna, tók kjötið sem eftir var af beinunum, skar það í bita og hrærði saman við. Lét kássuna malla í nokkrar mínútur. Smakkaði til að athuga hvort þyrfti að bæta við pipar eða salti (þess þurfti ekki). Mér fannst ekki þurfa annað krydd, soðið var svo bragðmikið.

_MG_3663

Byggið var einmitt hæfilega soðið og ég setti það á disk, jós hænsnakarríkássu á diskinn, stráði steinselju yfir og bar fram með sneiðum af fersku mangói. Sem er svosem ekkert nauðsynlegt en mér finnst það gott með.

Þetta var semsagt fyrir mig eina en hefði alveg dugað fyrir tvo, svo að það var nóg eftir handa mér í hádegismatinn daginn eftir. Og slatti af soði til að frysta.

*

Hænsnasúpa með grænmeti og baunum

1 brúnhæna

2,5-3 l vatn

1 meðalstór blaðlaukur

150 g gulrætur

2 sellerístönglar

2 hvítlauksgeirar

guli börkurinn af 1 sítrónu

2-3 láviðarlauf

nokkrar timjangreinar eða 1/2-1 tsk þurrkað timjan

klípa af chiliflögum

nýmalaður pipar

salt

1 dós kjúklingabaunir

100 ml rjómi (má sleppa)

lófafylli af steinselju

*

Hænsnakarríkássa

kjöt af 1/2 brúnhænu

1 1/2 msk smjör

1 1/2 msk hveiti

um 300 ml hænsnasoð

1 kúfuð teskeið gult karrímauk, eða eftir smekk

e.t.v. pipar og salt

steinselja, mangó og bygg eða hrísgrjón

One comment

  1. þú er snillingur í matargerð, eins og mér þykir gott að borða, þá er ég hálfpartinn feginn að að þú ert ekki konan mín, væri sjálfsaft 120 kg og ætti átt börn í álfheimum.Þ.B.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s