(Þeir sem nenna ekki að lesa vangaveltur roskinnar konu geta bara hoppað beint niður í uppskriftina.)
Ég á afmæli á morgun og verð 58 ára. Ég las í blaði nýlega að fólk væri svona gegnumsneitt hamingjusamast þegar það væri 58 ára. Og ég trúi því bara vel. Á þeim aldri eru flestir búnir að koma upp börnum og lausir við áhyggjur af þeim (svona að mestu), hjónabandið annaðhvort í góðu lagi eða löngu sprungið og fólk búið að jafna sig á því, fjárhagurinn oftar en ekki í lagi, heilsan ekkert farin að bila að ráði … nei, ekkert af þessu er algilt en vonandi eru flestir orðnir sáttir við sjálfa sig á þessum aldri. Og það er nú hamingja út af fyrir sig.
En ég fór að hugsa til baka áðan: á hvaða stað var ég þegar ég varð 48 ára, 38 ára … Svo að ég ákvað að skoða líf mitt á tíu ára fresti og skoða hversu hamingjusöm ég var á hverjum punkti.
8 ára: Lítil stelpa í sveit. Ég man svosem ekkert sérstaklega eftir áttunda afmælisdeginum mínum eða árinu en ég veit að mig langaði í matreiðslubók í afmælisgjöf. Ég fékk hana nú ekki. Lífið var ekkert sérlega flókið en samskiptin við umhverfið voru heldur ekki mikil; mamma kenndi okkur heima og ég átti eftir að lenda í hörðum árekstri við raunveruleikann þegar við fluttum úr sveitinni og ég byrjaði í skóla.
18 ára: Ráðvillt, rugluð og ábyrgðarlaus unglingsstelpa sem gekk illa að læra á lífið. Var í Menntaskólanum á Akureyri og lét foreldra mína sjá algjörlega um dótturina sem ég hafði eignast nærri réttu ári áður.
28 ára: Tveggja barna móðir í hjónabandi sem ég vissi alveg að var glatað en entist samt í nokkur ár í viðbót. Einangruð og fannst ég vera að missa samband við alla (ég sagði einhverntíma við minn fyrrverandi að ég þyrfti þrjár aukalínur í símaskránni til að telja upp alla sem hann vildi ekki að hringdu í mig). Dottin út úr námi og var að vinna láglaunað skrifstofustarf hjá ríkisstofnun.
38 ára: Skilin, orðin amma og farin að starfa í bókabransanum, sem allt var hið besta mál, en ennþá uppfull af komplexum og þjökuð af fortíðardraugum. Átti íbúð að nafninu til en var í stöðugum vanskilum og átti stundum varla fyrir mat. Vann myrkranna á milli. Dundaði mér við að skrifa minnispunkta sem mér datt þá alls ekki í hug að yrðu að bók.
48 ára: Laus úr skuldabasli en var í vinnu sem ég var í sjálfu sér ekki óánægð með en fannst ég sitja föst í sama farinu og sá ekki möguleika á að komast úr því. nema breyta alveg um stefnu, sem ég hafði ekki kjark til að gera. Langaði mest af öllu að skrifa fleiri bækur og stóð það til boða en fékk ekki leyfi til þess hjá vinnuveitanda. Langaði líka að fást við eitthvað annað en mat, svona stundum.
58 ára: Ég á góða fjölskyldu, er í skemmtilegu starfi hjá góðu fyrirtæki með góðu fólki. Skrifa allar þær bækur sem ég hef tíma til, kemst vel af, er við þokkalega heilsu, vantar bara meiri tíma til að gera allt sem mig langar að gera … Lífið er bara alveg hreint ágætt.
Nóg um það. En eitt af því sem gerir lífið ágætt er hvað það er nú ofboðslega einfalt að útbúa góðan mat. Líka þegar maður er einn. Líka þegar maður kemur svangur heim úr vinnunni og nennir ekkert að elda. Nennir ekki einu sinni út í búð, fer bara að athuga hvað er til …
Ég fann vænan bita af reyktum laxi; hafði notað lax í uppskrift sem ég var að gera fyrir þátt í MAN um helgina og keypti töluvert meira en ég þurfti, það var svona 150 g biti eftir. Fyrst datt mér í hug að útbúa pastarétt en svo varð mér litið á ávaxtaskálina og þar var blóðappelsína og tvær safaríkar og góðar klementínur:
Svo að ég skipti um skoðun og ákvað að gera salat. Enn fljótlegra og einfaldara en pastaréttur og af því að þetta var dagur þar sem sá til sólar – þeir hafa nú ekki verið svo margir að undanförnu og þess vegna skil ég ekki hvað fólk er svona upprifið út af þessum blessuðum sólmyrkva – fannst mér litsterkt salat mun meira viðeigandi.
Ég byrjaði á að taka svona 2 msk af ristuðum furuhnetum – ég hafði einmitt ristað slatta fyrir annan rétt sem ég var að mynda og það var aðeins of mikið – en ef ég hefði ekki átt þær til er bara að henda þeim á þurra, nokkuð heita pönnu og rista í fáeinar mínútur, hrista eða hræra oft og kæla svo þegar þær eru aðeins farnar að taka lit.
Svo tók ég laxinn og skar hann í sneiðar á ská. Það má svo skera eða rífa hverja sneið í 2-3 bita en það er alls ekki nauðsynlegt.
Ég átti klettasalat og dreifði lúkufylli af því á disk og raðaði laxasneiðunum ofan á. Ekki reglulega og mér finnst flottara að þær liggi ekki sléttar ofan á salatinu, heldur séu (sumar) brotnar saman eða eitthvað slíkt.
Svo flysjaði ég klementínurnar og blóðappelsínuna. Skar endana af þeim öllum og geymdi en skar hitt í frekar þunnar sneiðar og dreifið yfir laxinn og klettasalatið – samt ekki þannig að ekkert sjáist í það. Dreifði svo furuhnetunum fyri og setti aðeins meira klettasalat ofan á.
Svo kreisti ég safann úr endunum af blóðappelsínunni og klementínunum í hristiglas, bætti við 1 msk af ólífuolíu, pipar og salti, hrisit þetta saman og hellti jafnt yfir salatið.
Flóknara er það nú bara ekki.
Gott brauð með, og meira þurfti nú ekkit il að gera tæplega 58 ára konu bara töluvert hamingjusama. Reyndar fóru litirnir einir langt með það, en ég varð þó fyrir smávonbrigðum með blóðappelsínuna, hún var alls ekki nógu rauð. Bara bragðgóð.
Þetta er semsagt fyrir einn (og ég átti afgang í nestið) en gæti líka verið fínasti forréttur fyrir tvo eða fleiri.
*
Reyklax- og blóðappelsínu-klementínusalat
150 g reyktur lax
2 msk furuhnetur
1 blóðappelsína
2 klementínur
væn lúkufylli af klettasalati
1 msk ólífuolía
pipar
salt
Nanna þú ert ekki bara snilldarkokkur heldur ertu líka snillingur, ég varð svekkt þegar kom að uppskriftinni þvi ég vildi meira og meira blogg. Þú ert einfaldlega yndisleg 🙂 Takk fyrir mig
Klassa uppskriftir ,takk fyrir mig