Það er nú ekki alltaf einfalt mál að verða sér úti um lambahakk hérlendis og ég skil eiginlega ekki af hverju; ekki er það skortur á lambakjöti sem er vandamálið, svo mikið er víst. Og í suma hakkrétti er lambahakk bara langbest og eiginlega það eina rétta. Í það sem hér fer á eftir finnst mér langbest að nota lambahakk en þar sem það fékkst ekki í þeim búðum sem eru næst mér og ég nennti ekki lengra ákvað ég að hakka bara kjötið sjálf.
Kofta eru bollur – oftast kjötbollur – og kofta kebab eru bollur eða hakkpylsur sem settar eru á tein og grillaðar. Þær eru mjög góðar á útigrillinu á sumrin en það er líka mjög gott að steikja þær á grillpönnu. Það er svosem alveg hægt að nota nautahakk en best er að það sé ekki sérlega magurt, helst 16-20%, þá verða bollurnar safaríkari og bragðbetri.
Þar sem ég þurfti ekki að nota hakkið fyrr en daginn eftir keypti ég frosinn skagfirskan lambabóg í Bónus – hann kostaði nú ekkert sérlega mikið – lét hann þiðna, úrbeinaði hann og hakkaði kjötið. Þetta var auðvitað töluvert meira kjöt en ég þurfti, ég notaði 800 grömm, en ég gerði svo annan rétt daginn eftir úr afganginum af hakkinu.
Ég renndi semsagt kjötinu gegnum hakkavélina ásamt einum lauk og tveimur söxuðum hvítlauksgeirum.
Svo blandaði ég saman við hakkið svona hálfri lófafylli af saxaðri steinselju (mætti nota mintulauf), 1 msk af kummini, 1 tsk af kóríanderdufti, 1 tsk af þurrkuðu timjani, ¼ tsk af kanel, ¼ tsk af chiliflögum (eða eftir smekk), 2-3 cm bita af engifer, sem ég reif niður, 1½ tsk af salti og ¾ tsk af pipar.
Ég hnoðaði farsið lauslega með höndunum og skipti því svo i í 12 álíka stórar bollur og mótaðu hverja þeirra í lengju með blautum höndum.
Svo stakk ég grillteini í hverja lengju (ef notaðir eru tréteinar er best að leggja þá í bleyti í hálftíma fyrir notkun) og hitaði grillpönnu (eða ég nota reyndar rifflaða grillplötu svo ég var ekki í vandræðum með að koma öllum pinnunum á hana í einu) og grillaði við meðalhita á þremur hliðum, í 2-3 mínútur á hverri. Gott er að brjóta bita framan af einu kebabinu til að athuga hvort hakkið er eldað í gegn.
Ég grillaði svo heimabakað pítubrauð (það má líka htia það í ofni), skar rauðlauk í þunnar sneiðar og sítrónur í báta. Svo bar ég kebabteinana fram á /eða með brauðunum), ásamt rauðlauk og sítrónum.
Með þessu er gott að hafa einhverja ídýfu eða kalda sósu, svo sem hummus, jógúrsósu með kryddjurtum e’a tanini eða eitthvað slíkt, og e.t.v. salat eða soðin hrísgrjón.
Svo má líka sleppa brauðinu og bera grillpinnana fram á tabbouleh eða öðru miðausturlensku salati.
*
Kofta kebab
Fyrir 4
800 g lambahakk (eða nautahakk), ekki mjög magurt
1 laukur
2 hvítlauksgeirar
½ lófafylli af saxaðri fjallasteinselju eða mintu
1 msk kummin (cumin)
1 tsk kóríanderfræ (duft)
1 tsk timjan, þurrkað
¼ tsk kanell
¼ tsk chiliflögur, eða eftir smekk
2-3 cm biti af engifer, fínrifinn
1 ½ tsk salt
¾ tsk pipar
Með:
1-2 rauðlaukar
1-2 sítrónur
pítubrauð eða annað brauð
e.t.v. steinselja