Best að halda eitthvað áfram með uppskriftir frá Miðausturlöndum. Þetta er nú einu sinni sú matargerð sem ég held einna mest upp á. Bæði aðalrétti og ekki síður smárétti af ýmsu tagi, ídýfur og fleira. Og hér er ein af þeim. Uppskriftin birtist fyrst í febrúarblaði MAN.
Margir kannast við baba gannoush, eggaldinídýfu sem yfirleitt inniheldur tómata og lauk. Mutabbal er náskyld ídýfa en í því er ekkert annað grænmeti en eggaldin, en hins vegar tahini og jógúrt. Þó er mikill ruglingur á þessum heitum og þau eru stundum notuð um sama réttinn þannig að ýmsir mundu örugglega kalla þetta baba gannoush. Hvað sem því líður er ídýfan býsna góð.
Fyrst þarf að grilla eggaldinið – eða ég var reyndar með tvö lítil eggaldin. Ef það væri sumar hefði ég kannski kveikt á útigrillinu. Svo má líka nota grillið í ofninum. En mér finnst einfaldast að gera þetta bara við opinn eld, þ.e. við gasloga á eldavélinni. Svolítið subbulegt kannski, en tiltölulega fljótlegt og einfalt og svo þrífur maður bara eldavélina á eftir. Ég kveikti alltsvo á gasinu, setti eggaldinin ofan á grindina og lét þau liggja. Sneri þeim öðru hverju.
Þau voru tilbúin þegar hýðið var allt orðið svart og eggaldinin meyr þegar prjóni eða gaffli var stungið í þau. Ég tók ekki tímann en þetta gætu hafa verið 10-12 mínútur. Ég setti svo eggaldinin í sigti sem ég hafði yfir skál, breiddi álpappír (eða plastfilmu) yfir og lét kólna.
Svo flysjaði ég eggaldinið og setti aldinkjötið í matvinnsluvél ásamt safa úr 1 sítrónu, 3 msk af tahini og 2 söxuðum hvítlauksgeirum. Lét vélina ganga þar til allt var komið í mauk. Þá bætti ég við 200 ml af grískri jógúrt, 2 msk af ólífuolíu, pipar og salti og maukaði þetta allt saman. Smakkaði og bragðbætti eftir þörfum. Svo setti ég maukið í skál, gerði laut í miðjuna og helltu svona 2 msk af ólífuolíu í hana. Ég stráði svo nokkrum granateplafræjum yfir og skreytti með mintulaufum, af því að ég átti þau til.
Svo er bara að bera ídýfuna fram með góðu brauði.
*
Mutabbal
1 stórt eggaldin eða 2 lítil (um 500 g)
safi úr 1 sítrónu
3 msk tahini
2 hvítlauksgeirar
200 ml grísk jógúrt
4 msk ólífuolía
salt og pipar
e.t.v. granateplafræ og mintulauf til skrauts