Matur til að hressa hrakta konu

Þegar veðrið er svona er ég mikið fyrir litríkan mat. Ég er reyndar líka mikið fyrir litríkan mat þegar er sumar og sólin skín – eða ókei, ég er bara mikið fyrir litríkan mat yfirhöfuð. En alveg sérstaklega núna. Oft var þörf en nú er nauðsyn á einhverjum lit inn í grámann og bleytuna og slabbið. (Slabb er mjög viðeigandi orð fyrir svona ástand.)

Og alveg sérstaklega í gær, ég var ekki í sérlega góðu skapi þegar ég kom heim. Sagði frá því á Facebook en þar sem ekki allir sem lesa þetta eru Facebookvinir ætla ég aðeins að rifja það upp hér: Ég var stödd í Bónus á Granda, sársvöng, og greip með mér samloku til að borða í vinnunni í hádeginu. En þegar ég beit í hana fann ég strax að hún var ekki í lagi, reyndist útrunnin fyrir þremur dögum. Ég er nú vön að skoða dagsetningar á viðkvæmri vöru en láðist það í þetta skipti. Svo að ég hélt áfram að vera svöng. Fór svo heim seinnipartinn, labbaði niður á Mýrargötu til að taka leið 14 og var komin á stoppistöðina fimm mínútum áður en hann átti að koma. Blotnaði í fæturna á leiðinni. En þá féll niður ferð af einhverri ástæðu og ég beið í 20 mínútur, blaut, köld og svöng. Og svo þegar ég komst loksins upp á Hlemm og var á leið heim á Grettisgötuna og beið á ljósum á Snorrabrautinni kom bíll og ók á engri sérstakri hægferð út í stóran poll og gerði sér far um að keyra nálægt gangstéttinni. Það er eitthvert sérstakt sport hjá bílstjórum að skvetta á mig þegar er rigning eða pollar á götunum.

Svo að ég var frekar óhress þegar ég komst heim. Og svöng auðvitað. En ég kann ráð sem virkar bæði á svengdina og skapið, sem er að fara bara beint í að elda eitthvað gott. Það getur maður þegar maður býr einn. Ég er annars frekar vanaföst manneskja og árum saman hafði ég kvöldmatinn á mínútunni sjö (eða svona nokkurn veginn) þótt ég væri bara að elda fyrir sjálfa mig. Það var svolítil opinberun þegar rann upp fyrir mér að ég þyrfti þess nú bara ekki neitt. Svo að núna borða ég kvöldmatinn stundum klukkan fimm eða sex. Finnst það ágætt, það verður mun meira úr kvöldinu þannig. Fyrir utan að ég þarf ekkert að vera svöng eins lengi …

Og þarna vildi svo til að ég átti fáeinar lambakótelettur sem voru búnar að vera að þiðna í ísskápnum. Fjórar litlar, rétt innan við 200 grömm samtals. Passlegt fyrir mig. Það tekur nú ekki langan tíma að elda þær og ég ákvað að hafa bara fljótlegt meðlæti, semsagt salat. Svo að þegar ég var búin að fara í hrein og þurr föt fór ég strax að elda.

Þetta er semsagt uppskrift fyrir einn en ekkert mál að margfalda hana eftir þörfum. Sósuna sem ég gerði og uppskrift er hér að líka þarf hins vegar ekkert að margfalda, þetta er mun stærri skammtur en þarf fyrir einn. Afgangurinn geymist svo í nokkra daga í kæli og má nota í ýmislegt.

_MG_2703

Ég setti litla grillpönnu (má líka nota venjulega) á gashelluna, kveikti undir henni og setti dálitla olíu á hana. Á meðan hún var að hitna vel tók ég kóteletturnar, þerraði þær með eldhúspappír og kryddaði þær á báðum hliðum með pipar, salti og kryddjurtablöndu. Þetta er reyndar íslensk villijurtablanda en það mætti nota eitthvað annað, til dæmis ítalska eða gríska kryddjurtablöndu eða herbes de provence. Eða bara einhverjar þurrkaðar kryddjurtir sem maður blandar saman sjálfur.

_MG_2704

Svo setti ég kóteletturnar á pönnuna og steikti við nokkuð góðan hita í tvær og hálfa til þrjár mínútur á hvorri hlið.

_MG_2707

Á meðan gerði ég salatið. Ég tók mangó og skar aðra ,,kinnina“ af því, skar svo krossmynstur í það og skar svo bitana úr hýðinu. Setti þá á lítið fat (eða í skál) ásamt lófafylli af rifnum salatblöðum.

_MG_2712

Svo tók ég lítið, vel þroskað avókadó, skar það í tvennt og flysjaði annan helminginn og skar í bita (meira um hinn helminginn á eftir) og tók svo eina klementínu (það fengust alveg sérlega safaríkar og góðar klementínur í Bónus í vikunni), flysjaði hana og skar í bita. Blandaði svo avókadói og klementínu saman við salatið og kreisti svolítinn sítrónusafa yfir. Svo tók ég svona 50 g bita af fetaosti og muldi yfir.

_MG_2709

Kóteletturnar voru akkúrat tilbúnar svo ég tók þær af pönnunni og lét bíða meðan ég gerði sósuna (sem er mjög fljótleg).

_MG_2711

Ég tók basilíkuknippi, skar sverustu stönglana af því og setti það svo í matvinnsluvélina og maukaði. Bætti svo við svolitlum sítrónusafa, pipar, salti og avókadóhelmingnum sem eftir var og maukaði saman. Hellti svo 4-5 msk af ólífuolíu saman við smátt og smátt, þar til mér fannst sósan hæfilega þykk.

_MG_2762

Einhvernveginn svona.

_MG_2716

Svo raðaði ég bara kótelettunum ofan á salatið og bar sósuna fram með (það mætti líka dreypa svolitlu af henni yfir kóteletturnar á fatinu). Og eldamennskan öll tók rétt rúmar tíu mínútur. Og ég tók gleði mína á ný.

_MG_2753

Mér fannst ekki þurfa neitt fleira í þessu tilviki, nema gott brauð með, en það mætti alveg hafa t.d. soðin hrísgrjón eða bygg, kúskús eða eitthvað slíkt. Eða jafnvel bara kartöflustöppu.

Lambakótelettur með ávaxtasalati og grænni sósu

3-4 kótelettur á mann

pipar

salt

þurrkuð kryddjurtablanda

olía til steikingar

lófafylli af salatblöðum

mangó

1/2 lítið avókadó

1 klementína (eða 1/4 appelsína)

50 g fetaostur (kubbur)

sítrónusafi

*

Græn sósa

1 knippi basilíka

1/2 lítið avókadó

svolítill sítrónusafi

pipar

salt

4-5 msk ólífuolía, eða eftir smekk

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s