Mér þykja rauðrófur ansi hreint góðar. Var reyndar ekki sérlega hrifin af þeim hér áður fyrr, ég held að ég hafi ekki almennilega lært að meta þær fyrr en ég fékk rauðrófur á Ottolenghi í Notting Hill 2002 eða 2003, eftir það fór ég að líta þær allt öðrum augum. Því miður eru ekki allir í fjölskyldunni sammála mér …
En allavega, hér kemur uppskrift að einfaldri en góðri og sérlega fallegri rauðrófuídýfu sem er ættuð frá Mið-Austurlöndum. Uppskriftin birtist fyrst í febrúarblaði MAN, þar sem ég var með stóran þátt um miðausturlenskan mat sem ég á sjálfsagt eftir að birta ýmsar uppskriftir úr á næstunni.
Best er að baka rauðrófuna eða -rófurnar, skera þær í bita ef þær eru stórar, vefja í álpappír og baka við 200°C þar til þær eru meyrar og prjónn sem stungið er í þær rennur í gegn – það gæti tekið 40-50 mínútur. En það má líka sjóða þær.
Ég var með 400 g af rauðrófu sem ég bakaði, lét kólna og flysjaði síðan. Setti rófuna svo í matvinnsluvél ásamt 1 söxuðum hvítlauksgeira, 1 msk af sítrónusafa, 1/2 tsk af kummini, pipar og salti og maukaði hana vel.
Svo hrærði ég 250 ml af grískri jógúrt saman við. Smakkaði og bætti við pipar og salti eftir þörfum.
Setti ídýfuna í skál og skreytti með einhverjum salatblöðum sem ég átti til – en það er óþarfi.
Svo bar ég fram arabískt brauð með. Það mætti líka hræra 1-2 msk af tahini saman við ídýfuna, hún versnar ekkert við það.
*
Rauðrófu-jógúrtídýfa
400 g rauðrófa
1 hvítlauksgeiri
1 msk sítrónusafi
1/2 tsk kummin (cumin)
pipar
salt
250 ml grísk jógúrt