Og ennþá svartari …

Eins og ég sagði frá um daginn féllu til þónokkrir bananar í vinnunni sem voru komnir á síðasta snúning, eða fram af brúninni að mati sumra vinnufélaga; ég bakaði úr nokkrum þeirra á staðnum en svo var slatti eftir sem ég tók með heim af því að það var föstudagur og ég var nokkuð viss um að einhver myndi henda þeim um helgina eða á mánudeginum ef ég bjargaði þeim ekki. Og það vildi ég nú ekki því þetta voru afbragðsbananar með alvöru bananabragði.

Ég notaði einhverja þeirra í tilraunir en á dögunum, rúmri viku eftir að ég fór með bananana heim, ákvað ég að nota þessa fimm sem enn voru eftir og baka bananabrauð. Sykurlaust auðvitað. Nú voru þetta orðnir enn meiri afbragðsbananar með enn meira alvörubanananabragði. Þeir voru sirka svona:

_MG_1751

Alsvartir, hýðið aðeins farið að skorpna, bananarnir farnir að linast vel en ekki alveg orðnir fljótandi – en samt komnir á það stig að það lá við að það þyrfti ekki að setja þá í matvinnsluvél eða stappa þá, væri nóg að opna endann og kreista þá úr hýðinu …

En það er engin mynd af því og heldur ekki af deiginu því ég var að gera brauðið seint um kvöld og tók engar myndir. Nema bara af brauðinu sjálfu daginn eftir og hér er hún:

_MG_1837

Ég semsagt stillti ofninn á 165°C og svo tók þessa fimm mjööööög vel þroskuðu banana – þeir voru sirka meðalstórir allir – afhýddi þá og maukaði í matvinnsluvélinni með 2 eggjum og 150 ml af matarolíu. Það var rósmaríngrein eitthvað að þvælast fyrir mér á eldhúsbekknum, hafði gengið af þegar ég eldaði kvöldmatinn og ég gleymt að setja hana aftur í ísskápinn, svo að mér datt í hug að strjúka af henni nálarnar og henda þeim út í líka. En það var nú bara skyndihugdetta og þótt hún kæmi alveg ágætlega út er þetta nú ekki nauðsynlegt. Það var heldur ekki mikið rósmarínbragð af brauðinu, ég hugsa að enginn hafi fundið það sem ekki vissi af rósmaríninu. Ekki nægilega til að þekkja það, allavega.

Svo setti ég 50 g af hafragrjónum út í, ásamt 350 g af heilhveiti, 2 1/2 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af matarsóda og 1/4 tsk af salti, og lét vélina ganga stutt, bara til að blanda þessu vel saman og mala hafragrjónin aðeins.

Ég tók svo 50 g af pekanhnetum (mætti alveg nota valhnetur) og grófsaxaði þær. Blandaði þeim saman við með sleikju ásamt 50 g af graskersfræjum. Ég setti svo bökunarpappírslengju á botninn á fremur stóru jólakökuformi (formið er húðað en ég geri þetta samt alltaf, þá er engin hætta á að kakan festist eins og vissulega getur gerst þótt formið sé húðað fer eftir deiginu), hellti deiginu í það og jafnaði yfirborðið.

Svo setti ég formið á neðstu rim í ofninum og bakaði brauðið í 1 klst., eða þar til prjónn sem ég stakk í það kom hreinn út. Þetta gæti tekið aðeins styttri eða lengri tíma og vissara að athuga brauðið eftir svona 50 mínútur. Ég lét það hálfkólna í forminu og setti það svo á grind og lét hana kólna alveg.

_MG_1842

Það er alveg hægt að borða brauðið eintómt en mér fannst það samt best með smjöri.

*

Bananabrauð

5 mjög vel þroskaðir bananar

2 egg

150 ml olía

nálar af 1 rósmaríngrein (má sleppa)

350 g heilhveiti

50 g hafragrjón

2 ½ tsk lyftiduft

½ tsk matarsódi

¼ tsk salt

50 g pekanhnetur

50 g graskersfræ

165°C, 1 klst.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s