Matur frá stríðshrjáðu landi

Ég var búin að ákveða að setja hér inn uppskrift að sýrlenskum rétti, alveg ágætum. Ég hef alltaf haldið upp á mat frá Sýrlandi og grannlöndunum og eldað mikið af afskaplega góðum réttum þaðan.

En þegar ég byrjaði að skrifa fór ég fljótt að hugsa um skelfingarástandið í Sýrlandi. Þar sem milljónir manna skortir allt til að elda góðan mat – eða bara mat yfir höfuð – og börnin alast upp við ömurlegar aðstæður. Og ekkert útlit fyrir að á því verði breyting á næstunni. Það er svosem ekkert sem maður getur gert til að bæta úr því – ekki nema leggja svolítið af mörkum til að hjálparstofnanir geti unnið bráðnauðsynlegt hjálparstarf. Svo að ég gat ekki haldið áfram fyrr en ég var búin að fara á síðuna hjá UNICEF og leggja svolítið af mörkum. Til að friða samviskuna nóg til að geta skrifað um sýrlenskan mat? Já, kannski. En það er þó altént skárra en að gera ekki neitt.

En hér er semsagt uppskriftin. Í þeirri von að einhverntíma komi að því að sem flestir Sýrlendingar geti borðað matinn sinn heima hjá sér, óttalausir.

Þetta er svolítið einfölduð útgáfa af vinsælum rétti. Ef maður vill hafa hann sætari má bæta þurrkuðum ávöxtum, svo sem apríkósum eða rúsínum, út í.

_MG_7315

Ég byrjaði á að taka til nokkur kjúklingalæri – fimm reyndar, það eru yfirleitt fimm í hverjum bakka, sem mér finnst óhentugur fjöldi – og svo setti ég 1 msk af kummini, 1 tsk af túrmeriki, ¾ tsk af kanell, ¾ tsk af pipar og 1 tsk af salti í plastpoka og hristi til að blanda kryddinu vel saman.

Svo setti ég lærin í pokann og velti fram og aftur þar til þau voru þakin kryddi. Hitaði síðan 4 msk af olíu í stórum, þykkbotna potti …

_MG_7317

… og brúnaði lærin vel á báðum/öllum hliðum.

_MG_7318

Á meðan kjúklingurinn brúnaðist skar ég 1 lauk í bita og saxaði 4-5 hvítlauksgeira smátt. Setti þetta út í pottinn þegar ég var búin að snúa kjúklingabitunum. Snyrti svo 200 g af gulrótum  og skar þær í þunnar sneiðar og setti út í pottinn.

_MG_7320

Ég skar 2-3 vorlauka smátt (það má líka nota bút af blaðlauk) og saxaði 2-3 vel þroskaða tómata. Setti þetta út í þegar kjúklingurinn var fullbrúnaður, ásamt 2 cm bút af engifer sem ég hafði saxað mjög smátt, smáklípu af chiliflögum og kryddunu sem hafði orðið eftir í pokanum þegar ég kryddaði kjúklinginn.

_MG_7322

Svo mældi ég 400 ml af vatni og hellti í pottinn – það þarf ekki að fljóta yfir – og hitaði að suðu. Skar eina sítrónun í báta og settu út í, ásamt 1 tsk af hunangi (sem má sko alveg sleppa), setti lok á pottinn og lét malla í 15-20 mínútur. Þá tók ég lokið af pottinum og lét malla í um 15 mínútur í viðbót.

_MG_7334

Svo bar ég kjúklinginn og grænmetið fram með soðnum hrísgrjónum. Setti hrísgrjónin á fat, gerði laut í miðjuna og hellti sósunni og grænmetinu í hana og raðaði kjúklingnum ofan á.

_MG_7366

Það er líka gott (en ekki nauðsynlegt) að strá smávegis steinselju eða kóríanderlaufi yfir.

*

Sýrlenskur kjúklingur

5-8 kjúklingalæri

1 msk kummin

1 tsk túrmerik

¾ tsk kanell

¾ tsk pipar

1 tsk salt

4 msk olía

1 laukur

4-5 hvítlauksgeirar

200 g gulrætur

2-3 vorlaukar eða bútur af blaðlauk

2-3 tómatar, vel þroskaðir

2 cm bútur af engifer, rifinn eða saxaður mjög smátt

smáklípa af chiliflögum

400 ml vatn, eða eftir þörfum

1 sítróna

1 tsk hunang (má sleppa)

e.t.v. steinselja eða kóríander

hrísgrjón

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s