Til að bæta heilastarfsemina, ekki veitir af …

Ég er búin að vera á kafi í alls konar verkefnum síðasta mánuðinn og hef satt að segja ekkert gert rosalega mikið af því að elda – ekki fyrir sjálfa mig allavega – en það stendur nú vonandi til bóta. Hélt reyndar fyrir helgina að ég væri nú eiginlega búin að hreinsa öll verkefni út af borðinu í bili en þá fékk ég tölvupóst þar sem ég var minnt á að stuttur kafli sem ég hafði lofað að skrifa í bandaríska bók væri kominn á deadline núna – og ég sem hafði verið búin að gleyma öllu saman. Jæja, ég var nú til allrar hamingju komin vel af stað þegar ég lagði þetta til hliðar í haust og gleymdi svo öllu, svo að mér tókst nú að klára kaflann um helgina og senda hann, svo að það reddaðist. (Að vísu fékk ég svo póst frá ritstjóranum áðan þar sem hann sagði að ég hefði tekið verkefnið öðrum tökum en hann bjóst við en það væri nú samt í lagi. Ég vona að hann hafi sagt það satt en ekki bara af því að það sé of seint að umskrifa …)

Ég er ekki skipulagðasta manneskja í heimi. Bara alls ekki.

Eða kannski borðaði ég bara ekki nógu mikið af fiski þegar ég var yngri. Mér skilst að fiskát bæti heilastarfsemina og dragi úr líkum á Alzheimer eða eitthvað.

Ég er allavega að reyna að bæta úr því á efri árum. Og hér kemur einmitt fiskuppskrift sem upphaflega birtist í janúarblaði MAN. Í þessu fiskgratíni er fiskurinn og grænmetið þakið ljósri sósu sem þó er ekki uppstúf, heldur gerð úr maukuðu blómkáli og hentar því vel fyrir þá sem vilja forðast hveiti og glúten.

_MG_4464

Ég var semsagt með (fyrir 4) svona 600 g af litlum ýsuflökum – en það má nota hvaða hvítan fisk sem er, t.d. þorsk eða steinbít – 400-500 g af blómkáli, 150 g af spergilkáli, 300 ml af mjólk, pipar, salt, fáein basilíkublöð (má sleppa), 25 g af parmesanosti og smjör til að smyrja formið með.

Ég skar fiskinn í bita og kryddaði með pipar og salti. Smurði eldfast mót með dálitlu smjöri, raðaði fiskbitunum í það og kryddaði með pipar og salti. Lét standa smástund og stillti ofninn á 210°C.

Ég skipti spergilkálinu í kvisti og skar sverasta hluta stönglanna í þunnar sneiðar. Sauð þetta í léttsöltuðu vatni í um 5 mínútur og lét svo renna af því í sigti.

_MG_4467

Ég snyrti á meðan blómkálið og skar stilkinn úr því. Skipti því svo í kvisti. Hitaði mjólkina í potti, setti blómkálið út í og lét það malla í 6−8 mínútur, eða þar til það var orðið meyrt. Þegar blómkálið var soðið tók ég það upp með gataspaða og tók um það bil þriðjunginn frá en setti hitt í matvinnsluvél eða blandara og maukaði það. Hellti heitri mjólkinni smátt og smátt saman við, þar til maukið er orðið á þykkt við uppstúf. Þá kryddaði ég það með pipar og salti eftir smekk og maukaði nokkur basilíkublöð saman við af því að ég átti þau. Það mætti líka nota aðrar kryddjurtir eða sleppa þeim alveg.

_MG_4466

Ég deifði svo spergilkálinuog heilu blómkálskvistunum yfir fiskinn í fatinu.

_MG_4470

Síðan dreifði ég blómkálsmaukinu jafnt yfir allt saman …

_MG_4472

… og reif síðan parmesanost yfir. Bakaði í ofninum í 20−25 mínútur, eða þar til yfirborðið var aðeins farið að taka lit.

_MG_4581

Ég endaði svo á að rífa dálítinn sítrónubörk fínt yfir réttinn …

_MG_4600

… en það má líka bera fram sítrónubáta með. Og svo bara grænt salat.

*

Gratíneraður fiskur með spergilkáli og blómkáli

400−500 g blómkál

300 ml mjólk

150 g spergilkál

pipar

salt

e.t.v. nokkur basilíkublöð

500−600 g fiskflök, t.d. þorskur eða ýsa

smjör til að smyrja formið

25 g parmesanostur

1 sítróna

210°C, 20-25 mínútur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s