Það var verið að dreifa nýjustu bókinni minni í búðir svo að kannski ætti ég að nota tækifærið og plögga hana með því að setja uppskrift úr henni hér en ég nenni ekki að leita að myndunum núna svo að ég læt bara nægja að setja inn mynd af nýju bókinni og hinum tveimur sem eru – ja, ég veit ekki hvort ég á að segja í sömu seríu, þetta er ekki beint sería en þær eru allar með sama útliti og settar upp á svipaðan hátt.
Það er snillingurinn hún Alex, Alexandra Buhl, hönnuður hjá Forlaginu, sem hannaði útlitið á þessum bókum og ég er óskaplega ánægð með hennar verk. Þótt bækurnar séu allar í sama broti og sama stíl eru þær ekki staðlaðar, heldur hver með sínu lagi. Þessi nýja, Ömmumatur Nönnu, er til dæmis með dálitlu retró-lúkki, Alex leitaði aftur á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar (sem er einmitt sá tími þegar ég var að alast upp og kynntist flestum þessum uppskriftum) að litum og skreytingum og mér finnst það koma einstaklega vel út.
Sjálf reyndi ég að velja diska, dúka og borðbúnað fyrir myndatökurnar í takt við þann tíma sem rekja má þær til – þarna eru ekki bara uppskriftir frá fyrri hluta síðustu aldar og miðbiki hennar, heldur líka frá síðustu áratugunum (ætli megi ekki segja að það sé að einhverju leyti ömmumatur barnabarnanna minna) og þá notaði ég ýmislegt heldur nútímalegra en gömlu blómadiskana á hinum myndunum … Fékk allavega tækifæri til að nota hluta af diskasafninu mínu. Sumu tengjast líka minningar. Grjónagrauturinn er myndaður á diski sem var til heima þegar ég var lítil og mér þykir miklu vænna um hann vegna þess hve munstrið er slitið. Glasið á myndinni með hangikjötinu er úr setti sem foreldrar mínir fengu í brúðkaupsgjöf og var eiginlega bara notað á jólunum. En þótt diskurinn á einni myndinni sé merktur Tjarnarbúð tengjast honum engar minningar (þótt ég færi einu sinni eða tvisvar á ball þar fyrir óralöngu); ég keypti hann einhverntíma á flóamarkaði.
Það er engin tómatsúpa í nýju bókinni, bara tómatlöguð humarsúpa, en það er ekki hún sem hér kemur uppskrift að og hún er heldur ekki borin fram á einum af gömlu diskunum mínum, fannst þeir ekki passa, og ég man ekki einu sinni hvar ég fékk súpuskálina. Hún á sér enga sögu. En þetta er ljúffeng rjómalöguð tómatsúpa sem yljar vel. Mér finnst henta sérlega vel að hafa nýsteikt ostabrauð með henni og þá er gott að skera brauðið í geira og dýfa í súpuna. En það má líka sleppa ostinum og hafa bara léttristað brauð með súpunni. Uppskriftin birtist fyrst í janúarblaði MAN.
Ég byrjaði á að saxa 2 lauka smátt og 1-2 hvítlauksgeira mjög smátt. Hitaði svo 2 msk af ólífuolíu í potti og lét laukinn krauma við meðalhita í 6−8 mínútur, eða þar til hann var mjúkur og aðeins farinn að taka lit. Það setti ég hvítlaukinn út í og lét krauma í 1−2 mínútur í viðbót.
Þá bætti ég 1 dós (400 g) af söxuðum tómötum, 500 ml af tómatmauki (passata, má líka nota maukaða tómata úr dós), nokkrum timjangreinum (eða 1 msk af þurrkuðu timjani) og 1-2 lárviðarlaufum í pottinn og síðan 1 l af sjóðand vatni, 1 msk af grænmetiskrafti, dálitlum pipar og salti og 2 tsk af hlynsírópi eða hunangi (en það var áður en ég hætti í sykrinum, mundi sleppa því núna og setja kannski 1 fínrifna gulrót út í í staðinn). Lét þetta malla rólega í 15−20 mínútur.
Á meðan súpan mallaði í rólegheitum útbjó ég ostabrauðið. Byrjaði á að rífa niður 100 g af osti – ég var með cheddar en það mætti líka nota t.d. sterkan gouda – gróft niður á rifjárni.
Svo tók ég nokkrar sneiðar af góðu brauði, helst ekki mjög stórar (en það má líka skera þær í sundur) og ekki mjög þykkt skornar (8-16 sneiðar eftir því hvað þær eru stórar. Ég smurði aðra hliðina á sneiðunum með smjöri …
… stráði vænum skammti af rifnu osti á ósmurðu hliðina á helmingnum af sneiðunum og lagði hinar sneiðarnar ofan á með ósmurðu hliðina niður (sem sagt, þannig að samlokurnar séu smurðar á þeim hliðum sem snúa út).
Svo hitaði ég pönnu og steikti samlokurnar á báðum hliðum við meðalhita, þar til þær voru brúnar og stökkar og osturinn bráðinn. Skar þær svo í tvennt eða fernt á ská og berðu fram með súpunni.
Þegar súpan var soðin veiddi ég kryddjurtirnar upp úr og hellti henni svo gætilega í matvinnsluvél og maukaði hana vel. Einnig má mauka hana með töfrasprota en þá verður hún varla eins slétt og jöfn.
Ástæðan til þess að súpan er svona ljós er að ég setti rjóma óvart út í hana áður en ég maukaði hana; það gerir svosem ekkert til en hitt er betra. Ég setti svo súpuna aftur í pottinn, hitaði að suðu, hrærði 250 ml af rjóma saman við og láttu malla í nokkrar mínútur. Smakkaði svo og bragðbætti með pipar og salti eftir þörfum.
Ostasamlokurnar voru einmitt tilbúnar og ég skar þær í tvennt á ská (eða fernt ef þær eru stórar) og bar fram volgar með súpunni.
*
Maukuð tómatsúpa með ostabrauði
Tómatsúpa
2 laukar
1−2 hvítlauksgeirar
2 msk ólífuolía
1 dós saxaðir tómatar (400 g)
500 g tómatmauk (passata) eða önnur tómatadós
nokkrar timjangreinar eða 1 tsk þurrkað timjan
2 lárviðarlauf
1 l sjóðandi vatn
1 msk grænmetiskraftur
pipar
salt
2 tsk hlynsíróp eða hunang
250 ml rjómi
Ostabrauð
nokkrar sneiðar af góðu brauði
lint smjör
100 g rifinn ostur, t.d. cheddar eða sterkur gouda