Í vinnunni minni á Forlaginu fáum við ávaxtasendingu vikulega, sem er frábært. Auðvitað eru ávaxtirnir (og gulræturnar sem stundum koma með) misjafnir eins og gengur og gerist og misvinsælir; fyrir kemur að eitthvað af þessu lætur fljótt á sjá og gengur ekki út og þá hef ég stöku sinnum tekið það með mér heim, gert eitthvað úr því og komið svo með það aftur. Gulrótaköku eða gulrótasúpu, kannski, eða þá bananamúffur, svo dæmi séu tekin. Reyndar var það ofgnótt Forlagsbanana sem varð kveikjan að múffubókinni sem ég sendi frá mér fyrir þremur árum.
Bananar eru því bragðmeiri (og sætari) sem þeir eru svartari og ljótari og ég er mikið fyrir banana sem sumum öðrum finnst að ættu að fara í ruslið. Fyrir mörgum árum var mamma eitt sinn í heimsókn hjá mér og fór eitthvað að taka til í eldhúsinu, fannst ekki vanþörf á (sem var reyndar alveg rétt hjá henni) og henti meðal annars kolsvörtum banana sem lá umkomulaus í körfu. ,,En ég var að geyma hann til að baka úr honum!“ sagði ég súr. Mamma skildi ekkert í þessu … Svo framarlega sem bananarnir eru ekki byrjaðir að breytast yfir í fljótandi form eru þeir fínir í bakstur og deserta.
Í morgun þegar ég kom niður í kaffistofu sá ég kassa með allmörgum töluvert dökkum banönum sem settur hafði verið til hliðar. Það var komin ný ávaxtasending og bananarnir í henni voru vissulega mun gulari og fallegri. En ég vissi alveg hvora ég mundi fremur vilja borða. Og ákvað að bjarga nokkrum af ljótu banönum frá ruslatunnunni. Án sykurs, auðvitað.
Það var nefnilega keypt eldavél á Forlagið á dögunum. Eða svona lítill borðofn með tveimur hellum ofan á. Það var búið að nota græjuna til að hita súpu á öskudaginn en ekki til að elda neitt. Svo að mér fannst liggja beint við að athuga hvort hún virkaði ekki eins og hún á að gera. Skaust út í búð og keypti heilhveiti, lyftiduft, kotasælu, egg og vanilludropa. Vissi að það væri nóg til af smjöri (eða smjörva) í ísskápnum og svo var til salt. Og nóg af banönum, semsagt.
Það hafði verið keypt panna um leið og eldunargræjan og svo var til skál. En ekki hrærivél eða matvinnsluvél eða vigt eða mælikanna eða neitt slíkt. En ég treysti mér nú alveg til að slumpa í svona uppskriftum og stappaði bara bananana með gaffli og notaði hann líka til að hræra deigið. Svo að í hádeginu bakaði ég slatta af bananalummum sem gerðu töluverða lukku, svona beint af pönnunni. Þannig að ég ákvað að prófa bakarofninn líka og henti í bananaköku. Slumpaði á allt þar líka. Að vísu var ekkert kökuform til staðar en það er lítil ofnskúffa og hún dugði. Kakan náði held ég ekki að kólna til fulls áður en hún kláraðist.
Ég náttúrlega var ekkert að mynda þetta og fór ekki eftir uppskrift. En ég átti mynd og uppskrift að næstum samskonar bananalummum og það kemur hér á eftir. – Vegna fyrirspurnar sem ég fékk á Facebook, þá bakaði ég nokkrar lummur áðan og prófaði að nota blöndu af haframjöli (hafragrjónum möluðum fínt í matvinnsluvél) og möndlumjöli í staðinn fyrir heilhveitið. Það svínvirkaði. Var eiginlega bara betra en með heilhveitinu.
Ég hafði ekki tekið neinar myndir af bakstrinum sjálfum, bara af tilbúnum lummunum, en það skiptir nú litlu, held ég, þetta er svo einfalt. Svo að hér er bara myndin og uppskriftin. – Munurinn á þessum og þeim sem ég gerði í vinnunni í dag er aðallega að þessar voru fínni því bæði bananarnir og kotasælan voru maukuð í matvinnsluvél en í dag stappaði ég bara bananana frekar gróft með gaffli og hrærði kotasælunni saman við svo að það mátti alveg finna fyrir hvorutveggja í lummunum. Sem var fínt, það er bara smekksatriði hvort maður vill heldur. – Annars hef ég líka prófað að nota gríska jógúrt í staðinn fyrir kotasælu, það virkar alveg.
Banana-kotasælulummur
um 12 lummur
2 vel þroskaðir bananar
200 ml kotasæla
50 g smjör, brætt, og meira til steikingar (einnig má nota olíu)
2 egg
1 tsk vanilluessens
1 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
100 g heilhveiti, eða eftir þörfum
*
Ég maukaði bananana í matvinnsluvél (en eins og fyrr segir má líka stappa þá með gaffli) og blandaði kotasælunni saman við. Hrærði svo bræddu smjöri, eggi og vanillu saman við og síðan lyftidufti, salti og eins miklu heilhveiti og þarf til að soppan yrði hæfilega þykk. Best er að láta hana bíða smástund, þá mýkist heilhveitið og tekur betur upp vökvann úr deiginu svo að það gæti jafnvel þurft að þynna sopppuna aðeins áður en steikt er úr henni (bara með vatni). En í dag beið hún nú ekki neitt.
Ég bræddi svo aðeins meira smjör á pönnu og setti soppuna á hana með matskeið eða lítilli ausu – 6-7 lummur í einu. Steikti lummurnar við meðalhita í um 2 mínútur, eða þar til þær höfðu tekið fallegan lit að neðan. Þá sneri ég þeim gætilega og steikti þær í 1 mínútu eða svo á hinni hliðinni. Tók þær svo af og steikti annan skammt.
Vel þroskaðir bananar gera þessar lummur sætar og góðar og það er í rauninni ekki þörf á neinu með þeim. Mér finnst samt gott að strá muldum hnetum yfir og hafa e.t.v. sýrðan rjóma eða meiri kotasælu með. En hér eru þær með jarðarberjum, það má líka.
Það er óhætt að mæla með þessum lummum, þær eru dásamlegar!