Gult og grænt

Ég hef ekkert sett hér inn um tíma, búin að vera veik og svo var ég á kafi í ýmsum verkefnum sem tóku allan minn tíma – en nú eru þau búin (næstum) og ég er orðin frísk – hósta að vísu enn eins og pestarrolla en það lagast nú vonandi á endanum. Svo að hér kemur uppskrift – hún á held ég ágætlega við veðrið sem spáð er næstu dagana.

Ég hef nú áður sett hér uppskrift að gulrótasúpu, gott ef ekki gerðri úr ofnbökuðum gulrótum, en þessi er öðruvísi, hún inniheldur rófur, heldur meira af þeim en gulrótunum, og svo er haft með henni grænkálspestó. Sem er svo hægt að nota með ansi mörgu öðru líka, til dæmis í salatsósu eða ofan á brauð. Uppskriftin birtist fyrst í janúarblaði MAN.

Náttúruleg sæta gulrótanna og rófnanna skilar sér einkar vel þegar þær eru bakaðar í ofni en ekki soðnar en það má auðvitað alveg sjóða þær líka, það er minni fyrirhöfn en bragðið verður ekki jafnmikið; þvi er betra að krydda þær aðeins meira ef þær eru soðnar. Grænkálspestóið er fljótgert og auðvelt og það má líka nota möndlur í staðinn fyrir valhneturnar.

_MG_4135

Ég byrjaði á að hita ofninn í 210°C. Tók svo 500 g af gulrótum og 750 g af gulrófum og skar þær í bita, 2−3 cm á kant.

_MG_4139

Ég setti 2 msk af ólífuolíu,1 msk af herbes de provence (eða annarri kryddjurtablöndu eftir smekk), pipar og salt í skálina með grænmetinu og velti því vel upp úr blöndunni. Dreifði svo úr grænmetinu á pappírsklædda bökunarplötu.

_MG_4165

Svo bakaði ég grænmetið í 20−25 mínútur, eða þar til það var meyrt og aðeins farið að taka lit á brúnum. Það má hræra í því einu sinni eða tvisvar en ætti samt ekki að þurfa.

_MG_4167

Á meðan grænmetið var í ofninum gerði ég pestóið. Tók svona 75 g af grænkálsblöðum, skar stöngulinn úr þeim og saxaði þau. Setti þau í matvinnsluvél eða blandara ásamt 40 g af valhnetum, 1 hvítlauksgeira, 25 g af nýrifnum parmesanosti og dálitlum pipar og salti.

_MG_4169

Ég maukaði þetta vel og hellti svo svo 100 ml af ólífuolíu smátt og smátt saman við. Setti svo grænkálspestóið í skál og skolaði matvinnsluvélarskálina.

_MG_4171

Þegar grænmetið var orðið vel meyrt tók ég það úr ofninum og setti það ásamt olíunni af því grænmetið og olíuna í matvinnsluvélina …

_MG_4175

maukaðu það vel og hellti svo í pott. Það má reyndar líka setja það beint í pottinn og stappa vel með kartöflustappara. Ég bætti 750 ml af sjóðheitu vatni og 1 msk af grænmetiskrafti út í og lét súpuna malla í nokkrar mínútur. Smakkaði og bragðbætti með pipar og salti eftir þörfum.

_MG_4183

Svo er bara að hella súpunni í skál …

_MG_4186

… og berðu grænkálspestó fram með.

*

Gulróta- og rófusúpa

500 g gulrætur

750 g gulrófur

2 msk ólífuolía

1 tsk herbes de provence eða önnur kryddjurtablanda

pipar

salt

750 ml sjóðandi vatn

1 msk grænmetiskraftur

*

Grænkáls- valhnetupestó

75 g grænkál

40 g valhnetur

1 hvítlauksgeiri

25 g parmesanostur

pipar

salt

100 ml ólífuolía

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s