Ég las það einhvers staðar um daginn að fólk væri hamingjusamast (svona að meðaltali) þegar það er 58 ára. Ég verð 58 ára í næsta mánuði og ég trúi þessu bara alveg. Ég er alveg ágætlega hamingjusöm þótt ég sé enn bara 57. Ánægðari með lífið og – já, og sjálfa mig – en ég var þegar ég var yngri. Kannski fer svo strax að halla undan fæti og ég hef engan sérstakan áhuga á að verða gömul miðað við fréttir af ástandinu á hjúkrunarheimilum (eða reyndar langar mig ekkert sérstaklega til að verða mjög gömul hvort eð er) – en er á meðan er og um að gera að njóta lífsins.
58 ár eru nú ekkert hár aldur, svosem, maður er ekkert að komast á grafarbakkann, held ég. Kannski hljóma ég þannig þegar ég er að monta mig af ömmubarninu mínu, rekstarstjóranum – en það skal að vísu tekið fram að ég varð mjög ung amma og hún varð mjög ung rekstrarstjóri.
Mataræði hefur auðvitað einhver áhrif á hve langlífur maður verður en þegar ég ákvað að gera breytingar á mataræðinu fyrr í vetur var það nú ekki til að lengja ævina, það er ekki eitthvað sem ég stefni markvisst að – en vissulega var það til að auka líkurnar á góðu lífi og heilsu á efri árum. Hvernig sem það verður nú allt saman. Það var ekki bara sykurinn, ég hef gert aðrar breytingar líka en sumar hafa eiginlega gerst af sjálfu sér á seinni árum, ekkert sérstaklega með heilsumarkmið í huga, heldur út af breyttum smekk.
Til dæmis verð ég meira og meira fyrir fisk með árunum eins og ég hef áður sagt frá og hann er æ oftar á borðum hjá mér. Og hér kemur uppskrift, sem reyndar birtist fyrst í MAN – lax með hneturaspi og blómkáls-kartöflustöppu. Þeir sem eru glútenlausir geta þá tekið út brauðraspið og notað kannski bara hnetur og þeir sem eru á LKL geta notað eitthvað annað í staðinn fyrir kartöflurnar, kannski bara meira blómkál. Annars er glútenlaust svo 2014 og LKL svo 2013, er það ekki? Nú er það sykurleysið sem gildir …
Allavega, þessi lax er fljóteldaður og sérlega góður. Ég hafði semsagt með honum stöppu úr blöndu af kartöflum og blómkáli en það mætti líka hafa ýmiss konar soðið eða steikt grænmeti, soðin hrísgrjón og fleira.
Ég byrjaði á að stilla ofninn á 200°C. Flysjaði svo 500 g af bökunarkartöflum, skar þær i bita, setti í pott með vatni sem flaut vel yfir og sauð þær í um 10 mínútur. Skipti 400 g af blómkáli í litla kvisti, setti það út í kartöflupottinn og sauð í svona 8 mínútur í viðbót, eða þar til hvorttveggja var vel meyrt.
Ég setti svo 25 g af valhnetum (eða pekanhnetum), 1/2 knippi af steinselju, rifinn börk af 1 sítrónu og svolítinn pipar og salt í matvinnsluvél (eða blandara) og lét ganga þar til komin var gróf mylsna.
Þá blandaði ég svona 4−6 msk af pankoraspi saman við, ég held mikið upp á það en það má líka nota gróft brauðrasp.
Ég var með laxaflak, svona 600-700 g. Ég skar það í 4−5 cm sneiðar þvert yfir, penslaði þær með svolítilli olíu og kryddaðu með pipar og salti. Raðaði þeim svo á pappírsklædda bökunarplötu, dreifði raspblöndunni jafnt á laxasneiðarnar og þrýsti létt niður til að raspið loddi betur við.
Ég tók bút af bökunarpappír og breiddi lauslega yfir svo að raspið brynni síður. Setti plötuna í ofninn og bakaði laxinn í 4 mínútur en þá fjarlægði ég pappírinn og bakaði í 3−4 mínútur í viðbót, eða þar til laxinn var rétt eldaður í gegn og raspið farið að taka lit.
Á meðan gerði ég stöppuna: Hellti vatninu af kartöflunum og blómkálinu þegar það var tilbúið. Setti svo 50 g af smjöri út í og stappaði þetta saman.
Kryddaði stöppuna með pipar og salti eftir smekk og svo blandaði ég lófafylli af grófsöxuðu klettasalati saman við. Það mætti líka nota nokkur basilíkublöð eða sleppa þessu alveg.
Og svo bar ég laxinn fram með stöppunni.
Lax með hneturaspi og blómkáls-kartöflustöppu
*
Lax með hneturaspi
600−700 g laxaflak, beinlaust
1 msk olía
pipar
salt
25 g pekan- eða valhnetur
1/2 knippi steinselja
rifinn börkur af 1 sítrónu
4−6 msk af grófu brauðraspi (ég notaði pankorasp)
*
Blómkáls-kartöflustappa
500 g bökunarkartöflur
400 g blómkál
50 g smjör
pipar
salt
lófafylli af klettasalati eða nokkur basilíkublöð (má sleppa)