Óbætt súpa

Veðurspáin (og veðrið úti núna) segir mér að það verði veður fyrir heitar og þykkar og matarmiklar súpur um helgina. Svona af því tagi sem ylja manni alveg oní tær. Rjúkandi heitar, stútfullar af grænmeti og góðgæti, dálítið sterkar svo þær rífa aðeins í.

Hér er uppskrift að einni slíkri. Þetta er grænmetis- og baunasúpa en ef einhverjum finnst ómögulegt að hafa ekki kjöt má auðvitað setja t.d. kryddpylsu, kjúkling eða eitthvað annað út í. Grænmetið dugir mér alveg.

Og þá dettur mér allt í einu í hug að á dögunum var ég spurð hvaða fæðubótarefni ég tæki. Ekki hvort, heldur hvaða. Og mér vafðist nú bara löng tunga um höfuð, eins og maðurinn sagði, því að ég man bara ekki eftir að hafa tekið nokkurt einasta fæðubótarefni eða neitt slíkt síðan ég tók einhverjar fjölvítamínpillur í nokkra mánuði (eða kannski voru það bara nokkrar vikur) fyrir svona tuttugu og fimm árum. En samkvæmt aukablaði Fréttablaðsins frá því fyrr í vikunni (greip það af handahófi hér við hliðina á mér) ætti ég líklega að vera að taka B12-Boost og rauðrófukristal og blaðgrænu og Femarelle af því að ég er á breytingaskeiði (eða reyndar komin yfir það) og Melissa Dream til að sofa betur. Þetta eru alltsaman einhver rosalega náttúruleg efni sem er eiginlega ekki hægt að komast af án. Já, og svo þyrfti ég örugglega að bæta við kúrkúmíni og magnesíum og engiferbitum og fitubrennslutöflum og … æ, ég nenni ekki að fletta í fleiri blöðum til að sjá hverju ég er að missa af.

Eiginlega skil ég bara alls ekki hvers vegna mér líður alveg hreint ljómandi vel miðað við aldur og fyrri störf, það getur varla staðist miðað við hvað öll þessi fæðubótarefni og ofurpillur sem ég er ekki að taka mundu gera mér mikið gott. Kannski ætti ég bara að fara í fæðuóþolspróf, það kostar bara 20 þúsund (eða það var reyndar í fyrra, gæti hafa hækkað) og ég mundi örugglega komast að því að ég væri með óþol fyrir allskonar og gæti hætt að borða það og fengið fæðubótarpillur í staðinn og yrði örugglega þrjátíu árum yngri. (Sem mig langar nú reyndar ekki til, var að lesa það á dögunum að fólk væri að jafnaði hamingjusamast 58 ára. Ég verð 58 ára í næsta mánuði.)

En í alvöru, þá velti ég því oft fyrir mér af hverju fólk sem telur sig þurfa að taka fimm eða sex fæðubótarefni daglega borðar ekki einfaldlega bara fjölbreyttari og hollari mat. Fær sér rauðrófur í staðinn fyrir rauðrófupillur og kryddar matinn með túrmeriki í staðinn fyrir að raða í sig kúrkúmínpillum, til dæmis.

En jæja, það um það. Sjálf vil ég borða grænmetissúpu fulla af vítamínum og trefjum og góðgæti, fremur en að fá þetta allt í pilluformi. Og hér er ein slík, matarmikil ítalskættuð grænmetissúpa sem oft er höfð svo þykk að hún er fremur kássa en súpa. Hægt er að nota ýmislegt annað grænmeti en hér er talið, eftir smekk og eftir því hvað til er hverju sinni. Einnig má nota aðrar tegundir af baunum. Uppskriftin birtist fyrst í janúarblaði MAN.

_MG_4619

Ég byrjaði á að taka 1 vænan blaðlauk, snyrti hann og hreinsaði og saxaðui svo hvíta og ljósgræna hluta blaðanna fremur smátt. Flysjaði svo 150 g af gulrótum og skar þær í þunnar sneiðar. Skar 2 sellerístöngla í sneiðar og saxaðu 2 hvítlauksgeira smátt. Síðan tók ég svona 75 g af grænkálsblöðum, skar stönglana úr þeim og saxaðu þau.

Ég hitaði svo 3 msk af ólífuolíu í potti og setti blaðlauk, gulrætur, sellerí og hvítlauk út í.

_MG_4621

Bætti við 1 tsk af þurrkuðu timjani (eða nokkrum timjangreinum) og 2 lárviðarlaufum (en það má nú sleppa þeim ef maður á ekki svoleiðis), hrærði og lét krauma við fremur vægan hita í um 10 mínútur.

_MG_4628

Þá bætti ég einni dós af niðursoðnum tómötum út í (ég notaði kirsiberjatómata en ef notaðir eru heilir, stórir tómatar er gott að kremja þá aðeins með sleif).

_MG_4630

Svo bætti ég í pottinn 1 l af vatni, 1 msk af grænmetiskrafti, smáklípu af chiliflögum, pipar og salti, hitaði að suðu og lét malla í um hálftíma.

_MG_4634

Þá setti ég niðurskorna grænkálið og 1 dós af niðursoðnum baunum út í – ég var með smjörbaunir en það má nota aðrar baunir – og lét malla í um 20 mínútur í viðbót. Smakkaði og bragðbæti með pipar og salti.

_MG_4673

Það gæti þurft að bæta við vatni þegar líður á suðutímann en súpan á að vera fremur þykk. – Ég hafði geymt nokkur blöð af selleríinu og stráði þeim yfir súpuna.

_MG_4699

Og svo bar ég fram bita af parmesanosti með, skar flísar af honum með ostaskera og stráði yfir.

Það er fínt að hafa svolítið af góðu brauði með þessu en ég sá enga ástæðu fyrir einhverjum fæðubótarpillum. Það þurfti ekkert að bæta þetta neitt.

*

Ítölsk grænmetissúpa með hvítum baunum

1 vænn blaðlaukur

150 g gulrætur

2 sellerístönglar

2 hvítlauksgeirar

75 g grænkálsblöð

3 msk ólífuolía

1 dós niðursoðnir tómatar, gjarna kirsiberjatómatar

1 l vatn

1 msk grænmetiskraftur

nokkrar timjangreinar eða 1 tsk þurrkað timjan

2 lárviðarlauf

smáklípa af chiliflögum

pipar

salt

1 dós niðursoðnar hvítar baunir, t.d. smjörbaunir

parmesanostur

2 comments

  1. Kærar fyrir þessa dásamlegu súpu, var að elda hana í þriðja skipti í kvöld og hún því formlega orðinn fastur liður á heimilismatseðlinum. Átti til örlítinn rauðvínsdreitil sem fór út í pottinn og hún versnaði ekki við það 🙂

Skildu eftir svar við Katrín Hætta við svar