Uppsópið úr hnetuskúffunni

Mér líður vel á svona dögum. Það er að segja ef ég þarf ekki að fara neitt út … Þá dreg ég fyrir gluggana, kveiki notaleg ljós (nei, ekki kerti, ég er voða lítið fyrir kerti), hita mér gott kaffi eða te eða kakó eða glühwein eða einhvern annan heitan og góðan drykk og hreiðra um mig í lazyboystólnum mínu, kannski undir teppi eða hlýju sjali, hlusta á vindgnauðið úti og horfi á eitthvað í sjónvarpinu eða les góða bók. Eða hangi bara á netinu … Já, ég er kelling, ég veit. Og skammast mín ekkert fyrir það. Það er gott að vera kelling.

En svo væri auðvitað notalegt líka að nota kvöldið til að baka, ég nenni því bara ekki núna. Ég bakaði góðan slatta af jólasmákökum í október, fyrir nóvemberblað MAN. Þær kökur eru löngu búnar svo að líklega baka ég nú eitthvað aðeins meira fyrir jólin – eða öllu heldur fyrir aðventuna því ég verð ekki á landinu um jólin og fer ekki að taka kökudunka með mér til Madeira – en það má alveg bíða aðeins.

Hér er samt uppskrift að einni sortinni sem ég bakaði í október. Þetta eru hnetu- og súkkulaðistangir, einfaldar mördeigskökur sem bráðna í munninum. Ég dýfði öðrum endanum í súkkulaði og stráði hnetu- og fræblöndu yfir. Þær voru allavega fljótar að klárast.

_MG_1804

Í ísskápnum mínum er sérstök skúffa sem gengur undir nafninu hnetuskúffan. Þar geymi ég hnetur og fræ af ýmsu tagi vegna þess að þetta geymist best í kæli. Þessi skúffa fylgdi reyndar ekki ísskápnum, hún er úr þeim sem ég átti næst á undan en þegar ég keypti Bosch-skápinn í fyrra sá ég að það eina sem vantaði í hann var hnetuskúffa og sú gamla úr hinum skápnum reyndist passa (hálf hillubreidd).

Nú vildi svo til að þegar ég var að róta í skúffunni í leit að einhverjum spes hnetum hafði ég gert það með einhverjum brussugangi eins og mér hættir stundum til og nokkrir opnir hnetu- og fræpokar höfðu lent á hliðinni og hluti af innihaldinu farið úr þeim á botninn á skúffunni. Ég tæmdi alla pokana úr henni og helti lausu hnetunum og fræjunum á disk. Ætlaði fyrst að sortera þetta í sundur en sá fram á að það yrði fullmikið vesen. Ég var einmitt að fara að baka þessar kökur og hafði upphaflega ætlað að nota blöndu af pistasíuhnetum og heslihnetum á þær en svo fékk ég brilljant hugmynd: Nota bara blönduna og spara mér sorteringuna.

Þetta voru makadamíuhnetur, pekanhnetur og graskersfræ í nokkurn veginn jöfnum hlutföllum, sýndist mér; rétt um 100 grömm samtals. En það má nota ýmsar tegundir af hnetum og fræjum – eða þá kókosmjöl.

_MG_1805

Ég byrjaði á að taka 125 g af linu smjöri og 100 g af sykri og hrærði vel saman. Saxaði svo hnetublönduna, tók nokkrar matskeiðar frá en blandaði hinu saman við smjörið og sykurinn.

_MG_1807

Svo blandaði ég saman 150 g hveiti og ½ tsk af lyftidufti og hrærði saman við. Deigið á að vera lint en þó ekki svo blautt að það klessist við hendurnar. Saxaðu hnetublönduna fremur smátt. Taktu nokkrar matskeiðar frá og geymdu en hnoðaðu afganginn saman við deigið.

_MG_1810

Ég hnoðaði svo deigið, mótaði það í sívalning, pakkaði því inn í plastfilmu og kældi í um það bil hálftíma. Á meðan hitaði ég ofninn í 180°C.

_MG_1813

Svo tók ég deiglengjuna og skar hana í u.þ.b. 25 álíka stóra bita.

_MG_1819

Mótaði svo bitana í litla sívalninga, raðaði þeim á pappírsklædda bökunarplötu með smábili á milli og flatti þá örlítið út með fingurgómunum.

_MG_1823

Ég bakaði svo kökurnar á efstu rim í ofninum í um 10 mínútur en fylgdist vel með þeim undir lokin, þær eiga ekki að brúnast (eða bara rétt aðeins að byrja að taka lit á brúnunum). Ég lét þær kólna í nokkrar mínútur á plötunni, þær eru brothættar fyrst og best að hreyfa sem minnst við þeim. Svo færði ég þær yfir á grind og lét þær kólna alveg.

_MG_1838

Svo bræddi ég 150 g af suðusúkkulaði í vatnsbaði og hellti því í bolla eða litla en djúpa skál. Dýfði hverri köku í súkkulaðið, tæplega til hálfs eða kannski bara að einum þriðja.

_MG_1844

Hélt kökunum aðeins yfir bollanum til að láta umframsúkkulaði renna af þeim áður en ég raðaði þeim á pappírsklædda bökunarplötu.

_MG_1858

Svo dreifði ég fráteknu hnetu- og fræblöndunni yfir súkkulaðið áður en það stífnaði og kældi svo kökurnar.

_MG_2369

Hnetu- og súkkulaðistangir

125 g smjör, lint

100 g sykur

150 g hveiti

½ tsk lyftiduft

100 g blandaðar hnetur og e.t.v. fræ

150 g suðusúkkulaði

180°C, um 10 mínútur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s