Veisla fyrir einn – eða fleiri

Það eru nú ákveðnir kostir við að búa ein og elda oftast bara ofan í sjálfa sig þótt ókostirnir séu vissulega margir líka. Einn þeirra er sá  að maður getur stundum látið eftir sér eitt og annað sem síður væri möguleiki ef verið væri að elda ofan í heila fjölskyldu – það er að segja, ef á annað borð er hægt að kaupa nógu lítinn skammt af því. Eitt af þessu eru til dæmis andabringur. Þær eru sannkallaður veislumatur en þurfa þó alls ekki að vera rándýrar – ef ég er er ein í mat og langar að gera reglulega vel við mig kaupi ég af og til andabringu og elda hana, hún kostar minna en pítsa.

Reyndar sýnist mér að núna sé algengast að þær séu seldar tvær og tvær saman en oft hefur verið hægt að kaupa bara eina bringu. En reyndar geta þær verið nokkuð drjúga ef þær eru notaðar í salöt og þess háttar og þá geta tvær bringur vel dugað í mat handa fjórum. Jafnvel fleirum ef aðrir réttir eru hafðir með, ég hef til dæmis boðið upp á nokkur salöt saman og þá hefur þetta verið mjög vinsælt. Gæti verið alveg gráupplagt á jólahlaðborð, til dæmis.

Hér er uppskrift að salati sem er fínt fyrir tvo en gæti semsagt alveg verið fyrir eitthvað fleiri (það er að segja, ef þeir eru ekki jafnmiklar kjötætur og sumir í minni fjölskyldu, ég sat einmitt áðan og horfði á dóttursoninn borða heilt andarlæri og einn kartöflubát með – og ekkert annað. Hann gæti ábyggilega borðað tvær andabringur einsamall ef hann mætti sleppa öllu þessu fjandans grænmeti og kornmeti …

Ég notaði perlukúskús (ísraelskt kúskús), sem er í rauninni pasta fremur en kúskús. Ef það fæst ekki má líka nota eitthvert smágert pasta eða soðið bygg, helst þó perlubygg.

_MG_8817

En það þarf náttúrlega að byrja á að láta andabringurnar/bringuna þiðna. Ég var með eina bringu, meðalstóra. Og svo er best að skera tígulmynstur í fituna með svona 1 cm millibili. Bara í gegnum fituna og að kjötinu, ekki inn í kjötið. Þetta er til að fitan bráðni betur og steikingin verði jafnari. Og svo kveikti ég á ofninum og stillti hann á 200°C.

_MG_8820

Ég kryddaði svo bringuna með pipar og salti. Lagði hana á pönnu –  með fituhliðina niður og steikti bringunavið meðalhita í um 6 mínútur.

_MG_8822

Ég set bringur yfirleitt á kalda pönnu og kveiki svo undir henni en það má auðvitað byrja að hita hana áður. En hún á að vera þurr, fitan er fljót að byrja að renna og fyrr en varir syndir bringan í andafeiti. Ég helli venjulega mestallri fitunni af pönnunni og í skál áður en ég sný bringunni. Og ég geymi hana alltaf og nota til steikingar, hún er frábær á ofnsteiktar kartöflur og rótargrænmeti.

_MG_8835

Þegar ég var búin að steikja bringuna í 6 mínútur hellti ég semsagt feitinni af og sneri svo bringunni og steikti á hinni hliðinni í um 2 mínútur. Svo setti ég hana í eldfast mót (gott að hita það áður í ofninum) en ef pannan þolir að fara í ofn má auðvitað bara nota hana. Stakk mótinu í ofninn til að klára bringuna – það tekur oftast 8-12 mínútur, eftir því hvað bringan er þykk og hvað hún á að vera mikið steikt. Tók þær svo út og lét standa í 5 mínútur (má vera eitthvað lengur) áður en ég skar þær.

_MG_8838

Á meðan bringan var í ofninum útbjó ég afganginn af salatinu. Byrjaði á að taka 150 g af perlukúskús og sjóða það í  léttsöltuðu vatni samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum, eða í 10-12 mínútur.

_MG_8849

Þá hellti ég kúskúsinu í sigti, lét renna af því og rjúka aðeins úr því og dreifði því svo á miðjuna á stóru fati.

_MG_8854

Ég átti til 100 g af sykurbaunum (snjóbaunum), sem ég setti út í sjóðandi saltvatn, sauð í tvær mínútur og hellti þeim svo í sigti og lét kalt vatn buna á þær til að stöðva suðuna. Setti þær svo ofan á kúskúsið.

_MG_8856

Svo dreifði ég 100 g af blönduðum salatblöðum í kringum kúskúsið. Skar svo 75 g af fetaostskubbi sem ég átti, muldi hann í stóra bita og dreifði þeim yfir salatið.

_MG_8862

Ég skar svo bringuna á ská í þunnar sneiðar og raðaði þeim ofan á. Ef einhver kjötsafi er í eldfasta mótinu er gott að hella honum yfir kjötið. Svo tók ég 10-12 pekanhnetur, grófmuldi þær og dreifði yfir.

_MG_8874

Andabringusalat með perlukúskús

1 andabringa

pipar

salt

150 g perlukúskús

100 g sykurbaunir

100 g blönduð salatblöð

75 g fetaostur (kubbur)

10-12 pekanhnetur

2 comments

  1. Mikið er gaman að lesa það sem þú ert að gera. Hef lært mikið af þér þó ég sé frekar þroskuð húsmóðir. Hef verið það í 47ár geri aðrir bertur!??. Guðrún J.

    • Takk fyrir það. Ég er sjálf alltaf að læra eitthvað (og stundum að komast að því að eitthvað sem ég hélt að ég kynni upp á mína tíu er hægt að gera öðruvísi og stundum betur).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s