Kuldasúpa

Ég ætlaði reyndar upphaflega að setja inn allt aðra uppskrift hér en svo þegar ég kom út eftir vinnu í dag var veðrið svo fjári hráslagalegt og kuldalegt og drungalegt og leiðinlegt að mér kom ekkert í hug annað en einhver nærandi og yljandi súpa. Og því þá ekki bara kjötsúpa?

Íslensk kjötsúpa stendur alltaf fyrir sínu en þetta er ekki sú klassíska, hér leikur grænmetið stærra hlutverk en kjötið og súpan er vel krydduð. Einmitt það sem mann – eða mig allavega – langar í á degi eins og þessum. Þessi uppskrift er sirka fyrir fjóra og birtist fyrst í haustblaði MAN – þetta er semsagt haust- og vetrarsúpa.

_MG_0856

Ég notaði lambalærissneiðar í súpuna, fékk þær á tilboði, en það má nota hvaða lambakjöt sem er, helst magurt, kannski svona 350-400 grömm. En ég fitusnyrti það allavega og skar í frekar litla munnbita.

_MG_0852

Svo hreinsaði ég einn lítinn blaðlauk og svona 150 g af gulrótum og skar hvorttveggja í frekar litla bita Saxaði líka tvo hvítlauksgeira smátt. Hitaði 1 msk af olíu í potti og lét blaðlaukinn krauma við meðalhita í nokkrar mínútur án þess að brúnast.

_MG_0853

Svo setti ég gulræturnar út í, ásamt hvítlauknum, 2 lárviðarlaufum og 3-4 timjangreinum (eða svona 1 tsk af þurrkuðu timjani) og lét krauma í 2-3 mínútur í viðbót.

_MG_0858

Svo setti ég kjötið í pottinn. Ég set beinin með til að fá kraft úr þeim en veiði þau svo upp úr í lokin ásamt kryddjurtunum.

_MG_0861

Síðan hellti ég 1,5 l af vatni út í og bætti við 1 msk af lambakrafti (má líka vera kjúklingakraftur), 1/2-1 fræhreinsuðu og söxuðu chilialdini, 75 g af bankabyggi, pipar og salti. Hitaði að suðu og lét malla við vægan hita í um 40 mínútur.

_MG_0945

Svo tók ég svona 200 g af blómkáli og 100 g af spergilkáli og skipti l í litla kvisti, setti út í súpuna og lét malla í um 5 mínútur í viðbót, eða þar til allt var orðið meyrt.

_MG_0948

Ég smakkaði svo súpuna og bragðbætti með pipar og salti eftir þörfum. Stráði dálítilli steinselju yfir til skrauts (má auðvitað sleppa) og bar svo súpuna fram með góðu brauði.

_MG_0967

Kjötsúpa með byggi og blómkáli

1 lítill blaðlaukur

2 hvítlauksgeirar

150 g gulrætur

1 msk olía

2 lárviðarlauf

3-4 timjangreinar

350-400 g lambakjöt, t.d. lærissneiðar

1,5 l vatn

1 msk kjúklinga- eða lambakraftur

½ -1 rautt chilialdin (eftir smekk)

75 g bankabygg

pipar

salt

200 g blómkál

100 g spergilkál (má sleppa)

e.t.v. steinselja

2 comments

  1. Áttu uppskrift af Gúllassúpu ég er með folaldakjöt Og er dyggur aðdáandi þinn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s