Jólarækjur

Fyrsti sunnudagur í aðventu, óveður úti, rafmagnsleysi sumstaðar og ég veit ekki hvaða. Hér á Grettisgötunni er að vísu allt í rólegheitum, enda engin trampólin í nágrenninu og mér sýnist meira að segja ruslatunnurnar standa enn á sínum stað. Og ég átti ekkert erindi út eftir að fór að hvessa að ráði en fyrr í dag fór ég reyndar í afmælisheimsókn til dótturdótturinnar. Hversu gamall er maður eiginlega orðinn þegar barnabarnið verður 21 árs og er komið með starfsheitið rekstrarstjóri?

Ég hefði kannski átt að taka daginn í að baka til jólanna. Það hefði verið svo húsmóðurlegt, er það ekki? En ég þurfti reyndar að gera annað í eldhúsinu, er að vinna efni fyrir janúarblað MAN og á þessum árstíma er það svo naumur tími sem ég hef fyrir myndatökur af því að ég notast eingöngu við dagsbirtu – það þýðir að ég get bara myndað um helgar og tímaramminn er svona þrír klukkutímar. Svo að þessa helgina var ekki tími aflögu fyrir bakstur (ja, allavega ekki ef ég ætla að taka myndir af því sem ég baka, en ég get reyndar alveg eldað og bakað án þess að mynda það i bak og fyrir, merkilegt nokk – mér þykir bara skemmtilegt að gera það).

En það koma kökuuppskriftir á næstunni, alveg óhætt að lofa því.

Ég er stundum – eða var sérstaklega þegar ég vann á Gestgjafanum – að tuða um að það væri nú munur ef maður gæti haft þetta eins og á stóru útlendu matarblöðunum og unnið sumt efni með hálfs til eins árs fyrirvara. Núna er til dæmis í jólablaði bandaríska matarblaðsins Saveur efni sem var tekið hérlendis (m.a. heima hjá mér) um jólin í fyrra. En þetta er auðvitað ekki raunhæft hér nema að mjög litlu leyti og þess vegna er maður gjarna að setja sig í jólaskap í október og snemma í nóvember og aðhaldsstellingar í desemberbyrjun og grilla í kuldanæðingi í apríl og reyna að láta líta út sem allt sé baðað i sumri og sól …

En þessi uppskrift hér er reyndar frá í fyrra, var þá í jólablaði MAN og var hugsuð sem jólaforréttur en getur auðvitað átt við hvenær sem er. Mætti þess vegna stækka hana og hafa sem aðalrétt (eða nota óbreytta fyrir tvo, annars er uppskriftin hugsuð fyrir fjóra). Þetta er fljótlegur réttur sem er gerður á síðustu stundu en má undirbúa fyrirfram – skelfletta rækjurnar ef þarf, skera niður grænmetið og hafa allt tilbúið, þá er þetta engin fyrirhöfn.

Image 11

Ég lét 350−400 g af risarækjum (hráum í skel, en það mætti reyndar alveg eins nota frekar smáan humar) þiðna og tók svo til rauða og græna papriku (ég notaði litlar, aflangar paprikur en það má nota venjulegar – þá er hálf af hvorum lit nóg), eina límónu, 2−3 cm bita af engifer, 3-4 vorlauka (sem fela sig á myndinni undir knippi af basilíku), 2 hvítlauksgeira, 2 msk af ólífuolíu, paprikuduft, pipar og salt. Já, og 100 ml af hvítvini, sem er ekki falið heldur gleymdi ég að hafa það með á myndinni.

Image 9

Á efri myndinni var ég víst búin að skelfletta rækjurnar. Það er auðvitað hægt að kaupa þær skelflettar en ég vil helst gera það sjálf, það er lítið mál.

Image 7

Ég saxaði vorlaukinn fremur smátt og hvítlaukinn mjög smátt, fræhreinsaði paprikurnar og skar þær í sneiðar og saxaði engiferrótina smátt. Setti grænu blöðin af vorlauknum, hvítlauk, engifer, 1 msk af olíu, pipar og salt í skál, blandaði rækjunum saman við og lét standa smástund.

Image 13

Svo hitaði ég afganginn af olíunni (1 msk) á pönnu og lét hvíta og ljósgræna hlutann af vorlauknum krauma i henni í 2-3 mínútur við meðalhita.

Image 17

Síðan hækkaði ég hitann, setti allt sem var í skálinni á pönnuna ásamt paprikunum og 1/2-1 tsk af paprikudufti. Steikti þetta   við háan hita í 2−3 mínútur og hrærði oft á meðan.

Image 5

Ég kreisti safann úr límónunni og þegar rækjurnar voru búnar að breyta lit bætti ég honum á pönnuna ásamt hvítvíninu.

Image 16

Svo setti ég basilíkuna á pönnuna og lét sjóða í eina mínútu eða svo.

Image 6

Tók svo pönnuna af hitanum og setti rækjurnar og paprikurnar á diska (eða á fat) og bar fram.

IMG_6431

Snöggsteiktar rækjur með engifer og papriku

Forréttur fyrir 4

350−400 g risarækjur, hráar

2 msk ólífuolía

2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt

2−3 cm biti af engifer, saxaður smátt

3−4 vorlaukar, saxaðir smátt

pipar og salt

2 litlar, sætar paprikur (rauð og græn)

paprikuduft

safi úr 1 límónu

15−20 basilíkulauf, söxuð gróft

100 ml hvítvín (eða vatn)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s