Skrítnu bitarnir

Ég á þónokkrar matreiðslubækur sem fjalla um það sem stundum er kallað á ensku ,,the odd bits“, skrítnu bitana; ein þeirra heitir það meira að segja. Önnur heitir The Fifth Quarter, fimmti fjórðungurinn af skepnunni. Þetta eru bækur um þá hluta dýranna sem ekki eru venjulega taldir partur af skrokknum eða kjötinu (eða fæstir þeirra allavega); bitana og stykkin sem ekki kunna allir að meta, margir vilja ekki sjá eða geta ekki hugsað sér að borða en öðrum þykir sælgæti. Og sumir þeirra eru stórlega vanmetnir.

En ég kann að meta þá. Flesta að minnsta kosti.

Og ég var voða kát þegar ég rakst á bita í Kolaportinu á dögunum sem ég hef fengið á fínum veitingastað í útlandinu en aldrei eldað sjálf áður, einfaldlega vegna þess að ég hef ekki séð þetta til sölu fyrr.

_MG_4097

Kinnar eru afbragðsmatur. Fremur magrar en þó vel fitusprengdar og því afar mjúkar, meyrar og safaríkar, séu þær rétt eldaðar. Þær þurfa langa, raka eldun við hægan hita. Það er hægt að brúna þær og gufusteikja síðan í potti eða öðru lokuðu íláti í ofni með grænmeti og dálitlum vökva, eða láta þær malla á eldavélarhellu í þykkbotna potti með þéttu loki, kannski í rauðvíni eða tómatsósu. Mér er sagt að það sé hægt að hægelda þær á lokuðu grilli en ég hef ekki prófað það. Ennþá.

_MG_4098

Það var rétt um kíló í pakkanum sem ég keypti en þar sem við vorum bara tvö í mat notaði ég sirka helminginn, það voru sex kinnar.

_MG_4101

Ég blandaði pipar og salti saman við 1-2 msk af hveiti og velti kinnunum vel upp úr blöndunni. Svo hitaði ég 1 msk af olíu í steypujárnspottinum mínum (en það má nota hvaða þykkbotna pott eða pönnu sem er, svo framarlega sem lokið er sæmilega þétt) og brúnaði kinnarnar vel á báðum hliðum.

Á meðan skar ég niður 1 blaðlauk og 4-5 gulrætur og saxaði 2 hvítlauksgeira smátt. Henti þessu út í og lét krauma með í smástund.

_MG_4111

Svo bætti ég 1 tsk af herbes de provence (eða það má nota einhverja aðra góða kryddjurtablöndu) út í ásamt 2 lárviðarlaufum og 2-3 rósmaríngreinum sem lágu undir skemmdum. Ef ekki er notað rósmarín má bara setja meira af krydjurtablöndunni. Og bætti við dálitlum pipar og salti. Hellti svo 300 ml af rauðvíni út í, hitaði að suðu, setti lokið á pottinn og lækkaði hitann eins og hægt var.

_MG_4117

Ég lét kinnarnar malla í 2 1/2 klst. Ef lokið fellur þétt að pottinum og hitinn er svo lágur að þetta rétt mallar ætti ekki að þurfa að hreyfa við þessu en það er kannski vissara að líta í pottinn einu sinni eða tvisvar þegar fer að líða á suðutímann og bæta við svolitlu vatni ef uppgufunin er of mikil. En sósan ætti að laga sig sjálf og það á ekki að þurfa neitt til að þykkja hana, og hún ætti að verða býsna bragðmikil og góð.

_MG_4125

Ég sauð svo spaghettí og setti á fat. Setti kinnarnar í miðjuna og hellti sósunni og grænmetinu yfir og saxaði svo dálitla steinselju og stráði henni yfir. Þetta leit nú bara ansi girnilega út.

_MG_4130

Og svo er bara að rífa parmesanost yfir. Kinnarnar voru svo meyrar að það var hægt að skera þær (eða rífa í sundur) með gaffli og þurfti ekki að tyggja þær … Og jú, bragðið var alveg hreint ágætt.

Skrítinn biti? Kannski … en góður.

*

Grísakinnar í rauðvíns-pastasósu

(fyrir 2)

500 g grísakinnar

1-2 msk hveiti

pipar

salt

1 msk ólífuolía

1 blaðlaukur

2-3 gulrætur

2 hvítlauksgeirar

1 tsk herbes de provence eða önnur kryddjurtablanda, eða eftir smekk

1-2 rósmaríngreinar (má sleppa)

2 lárviðarlauf

300 ml rauðvín

spaghettí

steinselja

parmesanostur

4 comments

  1. Ég verð að prófa þetta! Hef smakkað þetta á veitingahúsi en ekki gert sjálf, enda, eins og Nanna segir, ekki endilega á hverju strái. Dríf mig í portið við fyrsta tækifæri.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s