Eggjabaka með grænmeti

Það eru svoddan hlýindi þessa dagana að sumir eru víst enn að borða grænmeti og kryddjurtir úr garðinum hjá sér. Ekki ég, enda á ég engan garð. Eða ég rækta allavega ekkert í honum. En þetta hefur vissulega áhrif á matargerðina, það vantar ekki, og hér kemur uppskrift að rétti sem er meira haust- en vetrarréttur, enda gerði ég uppskriftina fyrir haustblað MAN. Þar var flest í mjög haustlegum litum (en það var samt meira tilviljun en eitthvað útpælt).

Þetta er grænmetisréttur, en að vísu með eggjum, svo að vegan er hann ekki, og gott ef hann er ekki bara LKL-vænn líka, ef þið eruð eitthvað í svoleiðis. Nema sennilega er komið eitthvert nýtt trend, ég fylgist ekki alveg með, nema hvað ég er alltaf að færa mig meira og meira yfir í grænmetið. Rétturinn er þó fyrst og fremst góður og frekar einfaldur og ef er afgangur hentar vel að taka hann með í nesti í vinnu eða skóla.

Ég notaði bæði grænkál og spínat af því að ég átti það til (ég er mikið fyrir að nota það sem ég á, og minni í leiðinni á málþingið Ekkert til spillis í Norræna húsinu á morgun. En það er hægt að nota bara annaðhvort. Svo má líka nota ýmislegt annað grænmeti.

_MG_0849

Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Svo tók ég meðalstóran butternut (kúrbít eða grasker eða hvað sem maður vill kalla það), flysjaði hann, skar hann í tvennt og skóf fræin úr honum með skeið.

_MG_0851

Svo skar ég hann í litla bita, um 2-2,5 cm á kant. Velti þeim upp úr 1 msk af ólífuolíu, dreifði úr þeim á pappírsklæddri bökunarplötu og bakaði í miðjum ofni í um 25 mínútur. Tók svo plötuna út.

_MG_0869

Svo hreinsaði ég 1 stóran blaðlauk (hvíta og ljósgræna hlutann, dökkgrænu blöðin má svo nota í soð eða súpu) og saxaði hann frekar smátt, saxaði 2-3 hvítlauksgeira smátt og skar stönglana úr 100 g af grænkálsblöðum  og saxaði svo blöðin frekar gróft. Hitaði 2 msk af ólífuolíu á pönnu, lét blaðlauk og hvítlauk krauma í nokkrar mínútur án þess að brúnast. Svo setti ég grænkálið á pönnuna og lét krauma í 2-3 mínútur,

_MG_0872

Þá bætti ég 100 g af spínati á pönnuna og lét krauma í um 2 mínútur í viðbót.

_MG_0881

Síðan tók ég pönnuna af hitanum og blandaði buttnernutkúrbítnum saman við.

_MG_0884

Klæddi grunnt form (það sem ég notaði var sirka 25×40 cm en það má vera aðeins stærra eða minna) að innan með bökunarpappír og dreifði öllu saman jafnt í formið. Best er að bökunarpappírinn nái vel upp fyrir barmana, þá er auðvelt að lyfta bökunni úr forminu.

_MG_0888

Svo tók ég 100 g af fetaosti (ég notaði fetaostskubb, finnst það langbest, en það má líka nota teninga úr krukku) og muldi yfir.

_MG_0891

Ég braut svo 4 egg í skál, þeytti saman við þau 100 ml af matreiðslurjóma, kryddaði vel með pipar og salti og hellti yfir grænmetið og fetaostinn. Setti þetta svo í miðjan ofn og bakaði í um 25 mínútur við 180°C.

_MG_0925

Þegar bakan var tilbúin lyfti ég henni upp úr forminu, setti á bretti (það má hafa hana á pappírnum eða renna spaða undir til að losa hana frá og renna henni svo yfir á brettið) og dreifði basilíkublöðum yfir. Það mætti líka nota aðrar kryddjurtir, t.d. steinselju, eða þá klettasalat. Svo er gott að hafa salat með bökunni.

_MG_0933

Butternut-eggjabaka með grænkáli, spínati og fetaosti

fyrir 4

1 butternutkúrbítur

3 msk ólífuolía

1 stór blaðlaukur

2-3 hvítlauksgeirar

100 g grænkál

100 g spínat

100 g fetaostur

4 egg

100 ml matreiðslurjómi

pipar

salt

e.t.v. basilíkublöð eða klettasalat

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s