Um helgar eða þegar ég er í fríi á ég það til að baka mér lummur eða vöfflur í morgunmat. Eða morgun/hádegismat, stundum. Það kemur líka fyrir að ég baka pönnukökur en af einhverri ástæðu hefur það þó verið sjaldnar; veit eiginlega ekki af hverju því þær eru sannarlega ekki síðri. Kannski er það bara svolítið fast í manni að pönnukökur þýði selskapur, að maður eigi ekki að baka pönnukökur fyrir einn … En það má alveg búa til lítinn skammt af pönnukökusoppui og geyma helminginn til næsta dags í ísskápnum. Eða steikja úr öllu saman og frysta svo meirihlutann af pönnukökunum – muna bara að setja bökunarpappír eða eitthvað annað á milli svo hægt sé að losa pönnukökurnar í sundur frosnar.
Mér þykir best að nota heilhveiti í morgunverðarpönnukökur, þær verða einhvernveginn minna bakkelsi við það, meiri matur (en síst verri á bragðið) og auðvitað hollari fyrir vikið. Og ég nota engan hvítan sykur fremur en í aðrar pönnukökur en stundum pínulítið hlynsíróp eða hunang (já, ég veit að það er ekkert hollara en það er betra á bragðið) en því má þó alveg sleppa. Ég setti svolítinn kanil í þessar hér en það mætti alveg nota önnur bragðefni, til dæmis vanillu eða rifinn sítrónubörk, og ef á að borða þær með ósætri fyllingu eins og hrísgrjónum og grænmeti mætti jafnvel setja smátt saxaðar kryddjurtir út í soppuna.
Ástæðan til þess að ég bakaði mér pönnukökur í gærmorgun var samt aðallega sú að ég þurfti að vígja pönnukökupönnu sem ég var að eignast. Eða endurvígja hana, reyndar, því hún er sannarlega ekki ný; ég rakst á hana í Góða hirðinum á dögunum og varð strax skotin í henni. Ég á alveg ljómandi góða pönnukökupönnu sem er búin að þjóna sínu hlutverki vel í 35 ár (síðast þvegin 1991, ekki af mér) og er svo forfrömuð að hafa farið með mér til Finnlands því þegar ég þurfti að baka pönnukökur á sviði í Turku í haust datt mér sko ekki í hug að gera það á einhverri ókunnugri pönnukökupönnu, það hefði getað farið illa. Og hún verður áfram aðalpönnukökupannan mín. En hún er ekki mikið fyrir augað, sérstaklega ekki eftir að plasthlífin utan um skaftið á henni bráðnaði dálítið þegar ég var fyrir fjöldamörgum árum að gera tilraunir með soufflépönnukökur og setti pönnuna inn í vel heitan ofn …
Pannan úr Góða hirðinum finnst mér aftur á móti reglulega falleg og upplagt að nota hana á mynd. En auðvitað hefði ég ekki farið að nota til þess ef hún væri svo óhæf til pönnukökubaksturs, það væri svind. Svo að eftir að ég keypti hana hef ég hitað hana nokkrum sinnum með smjöri eða olíu og strokið svo af henni með eldhúspappír og nú var að því komið að vígja hana. (Og hún er ekki með plastskafti sem getur bráðnað; að vísu þýðir það að skaftið hitnar mikið og maður þarf að nota pottaleppa en það þarf ég reyndar stundum að gera líka við gömlu pönnuna eftir að plastið bráðnaði utan af málmskaftinu að hluta.)
Ég byrjaði á að hræra 2 egg og 125 ml af mjólk vel saman með písk. Svo bætti ég við 2 tsk af hlynsírópi en því má semsagt alveg sleppa. Blandaði svo saman 125 ml af heilhveiti – það eru svona 65 grömm – 1/2 tsk af lyftidufti, 1/4 tsk af salti og 1/2 tsk af kanil (eða minna, fer eftir hvað maður er mikið fyrir kanilbragð) og setti út í.
Hrærði þetta vel saman með písk þar til soppan var alveg kekkjalaus og þá lét ég hana standa á eldhúsbekknum í svona korter. Mér finnst þetta eiginlega nauðsynlegt þegar ég nota heilhveiti, síður þegar hvítt hveiti er notað.
Svo hitaði ég pönnukökupönnuna, bræddi svona 25 g af smjöri og hrærði saman við soppuna. Ef hún er of þykk má bæta svolitlu köldu vatni út í (ef maður er ekki viss er best að steikja eina prufupönnuköku fyrst).
Ég setti svo litla ausu af soppu á pönnuna og hallaði henni fram og aftur til að dreifa úr deiginu. Ég hef þessar pönnukökur dálítið þykkari en venjulegar pönnukökur úr hvítu hveiti, finnst það henta betur, og hef hitann frekar háan. Ég steikti svo pönnukökuna þar til yfirborðið var matt og þakið litlum loftbólugötum.
Þá losaði ég um barmana með pönnukökuspaða, sneri pönnukökunni við og steikti hana í svona fimmtán – tuttugu sekúndur á hinni hliðinni. Hvolfdi henni svo af pönnunni og steikti úr afganginum af soppunni (sem dugði í 8 pönnukökur). Ég setti litla nögl af smjöri á pönnuna á milli en hefði líklega ekki gert það ef ég hefði verið með gömlu pönnuna, treysti þessari bara ekki alveg enn …
Og jú, þetta reyndist vera alveg ágætis pönnukökupanna. – Þegar ég var búin að steikja allar pönnukökurnar staflaði ég þeim (eða þeim sem ég ætlaði að borða) á heita pönnuna og bar þær fram þannig af því að ég vildi hafa þær volgar og hitinn frá pönnunni dugir til að halda þeim þannig drjúga stund. En það má auðvitað setja þær bara á disk.
Ég hafði tekið smávegis af frosnum ávöxtum úr frystiskápnum áður en ég byrjaði á bakstrinum og látið þiðna og bar það fram með, ásamt pekanhnetum og kókosflögum, en það má auðvitað hafa hvaða fyllingu sem er, sæta eða ósæta. Svo má auðvitað hafa síróp eða hunang út á líka, en ég gerði það nú ekki – eða gríska jógúrt eða eitthvað slíkt.
Mér fannst það óþarfi.
*
Heilhveitipönnukökur með kanil
2 egg
125 ml mjólk
125 ml heilhveiti (um 65 g)
½ tsk lyftiduft
¼ tsk salt
½ 1 tsk kanill
2 tsk hlynsíróp eða hunang (má sleppa)
25 g smjör, og e.t.v. meira til steikingar
kalt vatn ef þarf