Kartöflukarlinn

Kartöflur, blaðlaukur og rjómi. Einföld samsetning sem smellpassar saman og er algjörlega klassísk. Súpa úr þessu hráefni er líka til víða og kallast ýmsum nöfnum. Sú einfaldasta og kannski upprunalegasta er hin franska potage parmentier, súpa kennd við Antoine-Augustin Parmentier, sem átti mestan þátt í því að innleiða kartöflur í franskri matargerð. Hann stóð líka fyrir því að farið var að rækta sykurrófur í stórum stíl í Frakklandi og vinna úr þeim ódýran sykur, sem var kannski ekki eins góð hugmynd hjá honum. En honum fyrigefst það nú út á kartöflurnar og svo kom hann líka á kúabólusetningu í Frakklandi.

Kartöflur voru reyndar þekktar í Frakklandi löngu fyrir tíma Parmentiers en voru þá eingöngu notaðar sem svínafóður og um miðja 18. öld bannaði franska þingið ræktun þeirra af því að þær voru taldar uppspretta ýmissa sjúkdóma, þar á meðal holdsveiki. Friðrik mikli Prússakeisari hafði aftur á móti mikla trú á þeim og þvingaði bændur til að rækta þær. Parmentier kynntist kartöfluáti þegar hann var stríðsfangi í Prússlandi um 1760 og tókst að koma því til leiðar 1772 að franska þingið úrskuraði kartöflur hæfar til manneldis. Næstu áratugi barðist Parmentier fyrir aukinni kartöfluneyslu með ýmsum ráðum en það var ekki fyrr en á síðustu árum 18. aldar sem Frakkar tóku þær almennilega upp á arma sína. Til að heiðra Parmentier voru ýmsir kartöfluréttir nefndir eftir honum en af þeim er kartöflu- og blaðlaukssúpan þekktust.

Klassísk potage parmentier inniheldur bara kartöflur, blaðlauk, vatn, salt, rjóma og e.t.v. smjör og kryddjurtir (meira til skrauts en sem bragðgjafa), oftast steinselju, kerfil eða graslauk. Þessi sem hér kemur og var upphaflega gerð fyrir haustblað MAN er reyndar ekki miklu flóknari – þó reyndar bragðbætt með kryddjurtum – en ég hef svosem séð ýmis tilbrigði, jafnvel með beikoni. Nú er ég þeirrar skoðunar að beikon geri flesta hluti betri en það er bara algjör óþarfi í þessari súpu, hún er best þegar hún er einföldust, finnst mér.

Súpan er nærandi og ljúffeng og um leið ódýr – reyndar kannski ekki ef maður þarf að kaupa kryddjurtir sérstaklega fyrir hana en öðru máli gegnir ef þær eru til í ísskápnum eða í potti í gluggakistunni og svo má líka alveg sleppa þeim, súpan er góð fyrir þvi. Magn og tegund er smekksatriði en ég notaði blöð af 3-4 timjangreinum og svona 10-12 basilíkublöð.

Í heitari löndum er súpan oft borin fram köld og kallast þá Vichysoisse. Það hljómar mjög franskt en sú gerð súpunnar mun þó vera upprunnin í New York, sagan segir á Ritz-Carlton árið 1917.

_MG_0766

Ég tók um 500 g af bökunarkartöflum, flysjaði þær og skar í litla teninga. Tók líka 1/2 stóran blaðlauk (eða einn heilan ef hann er lítill), hreinsaði hann og skar í litla bita. Ég notaði bara hvíta og ljósgræna hlutann, ekki grænu blaðendana.

_MG_0767

Ég bræddi 2 msk af smjöri (má nota 2 msk af olíu) í potti og lét blaðlaukinn krauma í nokkrar mínútur, þar til hann fór að mýkjast. Setti svo kartöflurnar út í ásamt söxuðum kryddjurtum eftir smekk (ég átti timjan og basilíku, en það má semsagt sleppa því), pipar og salti og hræriu aðeins.

_MG_0777

Hellti svo 1/2 l af sjóðandi vatni í pottinn, bætti við 2 tsk af grænmetiskrafti og lét malla undir loki í um 15 mínútur.

_MG_0786

Þá voru bæði kartöflurnar og blaðlaukurinn orðin vel meyr. Ég hellti súpunni í matvinnsluvélina (ef skálin er ekki stór er best að gera það í 2-3 skömmtum) og maukaði hana vel. Skolaði svo pottinn og hellti súpunni aftur í hann.

_MG_0791

Ég hitaði súpuna að suðu, hrærði 200 ml af matreiðslurjóma saman við (það má auðvitað nota bara rjóma, þá fæst þykkari og mýkri súpa) og lét malla í 2-3 mínútur. Smakkaði og bætti við ögn af pipar og salti.

_MG_1089

Ég jós svo súpunni á diska og dreypti svolitlum matreiðslurjóma yfir (ekki nauðsynlegt en skreytir súpuna). Bar hana svo fram með góðu brauði.

*

Kartöflu-og blaðlaukssúpa með kryddjurtum

fyrir 4

um 500 g bökunarkartöflur

1/2 stór eða 1 lítill blaðlaukur

2 msk smjör eða olía

kryddjurtir eftir smekk, t.d. timjan og basilíka

pipar

salt

1/2 l vatn, sjóðheitt

2 tsk grænmetiskraftur

200 ml matreiðslurjómi (og e.t.v. aðeins meira til að dreypa yfir)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s