Súkkulaði og hnetusmjör

Ýmsir eru sjálfsagt byrjaðir á jólasmákökubakstrinum eða langt komnir með hann. Ég bakaði reyndar mjög snemma í ár því að ég er með sjö smákökusortir í nóvemberblaði MAN, sem er í sölu núna, en þær kökur eru löngu uppétnar svo að líklega baka ég nú aðeins meira fyrir jólin – að minnsta kosti þessar tvær sortir sem ég baka eiginlega alltaf.

Svo var líka að koma út jólablað bandaríska matartímaritsins Saveur þar sem sagt er frá heimsókninni sem ég fékk frá þeim um jólin í fyrra – ég hef reyndar ekki séð það sjálf enn en mér skilst að þar sé allavega ein smákökuuppskrift frá mér. Svo að það má finna kökuuppskriftir úr fórum mínum á ýmsum stöðum þessa dagana og hér bætist ein við.

Smákökur eru ekki bara jólakræsingar, auðvitað er hægt að baka þær á hvaða árstíma sem er. Þessar hér bakaði ég snemma í haust og þær voru reyndar fljótar að klárast líka. Ég rakst á hnetusmjörsdropa (Reese’s Peanut Butter Chips)  í Nóatúni og keypti þá með það í huga að baka smákökur. Notaði að mestu leyti súkkulaðibitakökuuppskrift sem ég átti en gerði á henni smábreytingar. En í staðinn fyrir þá má líka nota súkkulaðidropa eða -bita, Smarties eða annað.

_MG_8766

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og hita hann í 180°C. Svo tók ég hrærivélina og setti 150 g af púðursykri, 50 g af sykri og 200 g af smjöri í hrærivélarskálina – eiginlega hefði smjörið átt að vera lint en þar sem ég tók það beint úr kæli skar ég það í frekar litla bita svo að það hrærðist betur.

_MG_8774

Ég hrærði þetta mjög vel saman. Blandan var þó heldur stífari en hún hefði verið ef ég hefði notað lint smjör. Ég hrærði svo 1 tsk af vanilluessens saman við …

_MG_8777

… og síðan 1 heilu eggi og 1 eggjarauðu.

_MG_8779

Svo blandaði ég saman 300 g af hveiti, ¾ tsk af matarsóda, ¼ tsk af salti og 40 g af kakódufti (eða eins og sést á myndinni blandaði ég kakóduftinu ekki saman við, það fór bara ofan á í mælikönnunni minni, sem er líka vigt) og hrærði saman við.

_MG_8807

Að lokum blandaði ég hnetusmjörshnöppunum saman við. Deigið á að vera fremur blautt en þó þannig að hægt sé að rúlla úr því kúlur með lófunum. Bættu við svolitlu hveiti ef það er of blautt, eggjahvítu (það á jú að vera ein afgangs) ef það er of þurrt.

_MG_8816

Ég mótaði kúlur, sirka á stærð við væna valhnetu (heila í skurn) úr deiginu. Flatti þær dálítið út á milli lófanna eða með fingrunum og raðaði þeim á pappírsklæddar bökunarplötur – setti 12-16 kökum á hverja, þær fljóta lítið út. Þetta urðu 25-30 kökur.

_MG_8882

Ég bakaði svo kökurnar á næstefstu rim í um 12 mínútur, tók þær svo út og lét þær kólna á grind. Það má líka hafa þær aðeins minni og þynnri og baka þær í 8-10 mínútur.

_MG_0340

Súkkulaðismákökur með hnetusmjörsdropum

150 g púðursykur

50 g sykur

200 g smjör

1 egg

1 eggjarauða

1 tsk vanilludropar

300 g hveiti

40 g kakóduft

¾ tsk matarsódi

¼ tsk salt

1 poki (283 g) hnetusmjörshnappar (Reese’s Peanut Butter Chips)

180°C, um 12 mínútur

Það má líka hafa kökurnar aðeins minni og baka þær í 8-10 mínútur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s