Það er búið að vera svo hlýtt í dag hér á suðvesturhorninu að ég held það sé alveg í lagi að setja inn svolítið sumarlega uppskrift. Þessi uppskrift varð einmitt til í sumar, þegar ég átti dálítið mikið af mintu og þurfti að gera eitthvað með hana. Það er ekki hægt að nota hana alla í mojitos, sko. Eða ég er allavega ekki nógu drykkfelld til þess. En það má gera ýmislegt annað við hana.
Ef maður vill halda sig við drykkina er til dæmis upplagt að gera úr mintunni sætt te eins og er mjög vinsælt í Marokkó og víðar og drekka það heitt eða kalt. Svo má bragðbæta þeytinga og heilsudrykki með mintu, skreyta eftirrétti með henni og þess háttar en það er líka tilvalið að nota hana í ýmsa rétti.
Það er hægt að gera mintupestó og nota hana þá eingöngu eða með basilíku, gera úr henni sætt hlaup eða sultu, eins og Englendingar nota gjarna með lambakjöti, nota hana í maríneringar og kaldar grillsósur, gera mintuís og fleira slíkt. Það má líka nota saxaða mintu í eggjakökur eða litlar lummur ásamt söxuðum kúrbít og fetaosti og minta og ferskar grænar baunir eiga sérlega vel saman en hún fer líka vel með gulrótum og fleira soðnu grænmeti.
Og svo getur minta verið mjög góð í frískleg sumarsalöt. Þetta salat eða salsa má segja að sé sambland suðaustur-asískra og suður-amerískra áhrifa og er mjög gott með fiski og kjúklingi en einnig með ýmsum kjötréttum eða bara eintómt. Jú, það er dálítið sumarlegt en lífgar líka svo um munar upp á vetrarmatinn, bæði hvað varðar lit, frískleika og bragð. Uppskriftin birtist fyrst í ágústblaði MAN.
Ég byrjaði á að taka til það sem ég ætlaði að nota: 1 mangó, vel þroskað, svona 10 cm bita af gúrku, ½ rauðlauk,1 chilialdin (þetta var gult, maður sér það nú ekki oft hér og það má alveg eins vera rautt, eða grænt ef út í það fer), 2–3 cm bita af engifer, 1 límónu, 1½ msk ólífuolía, pipar og salt. Og svo auðvitað hálft knippi af mintu. Það er reyndar mjög óljós mælieining – knippi getur svosem verið eins stórt eða lítið og maður vill – en það má miða við svona hálfan bakka eins og maður kaupir yfirleitt í stórmörkuðum. Knippið á efstu myndinni er stærra, ég mundi líklega ekki nota alveg helminginn af því.
Allavega, ég byrjaði á að flysja mangóið og skera það í teninga, um 1 cm á kant.
Svo skar ég gúrkuna í teninga, aðeins minni en mangóteningana, og saxaði rauðlaukinn. Fræhreinsaði chilialdinið og saxaði það mjög smátt ásamt engifernum.
Síðan grófsaxaði ég mintuna en tók nokkar greinar frá til skreytingar. Blandaði henni svo saman við mangóið, gúrkuna, rauðlaukinn, enginferinn og chili-ið í skál. öllu saman í skál. Kreisti svo safann úr límónunni og dreyptu yfir ásamt olíunni., blandaðri pipar og salti.
Ég lét sölsuna standa smástund áður en ég bar hana fram, skreytta með mintu.
*
Mangó- og mintusalsa með chili
1 mangó, vel þroskað
10 cm biti af gúrku
½ rauðlaukur
1 milt chilialdin
2–3 cm biti af engifer
½ knippi minta
1 límóna
1½ msk ólífuolía
pipar
salt