Maður ætti kannski að halda upp á skuldatilfærsluna. Þeir sem hana fá. Á morgun. En best að rasa ekki um ráð fram og eyða strax þessum fimmtíu þúsundum sem Mogginn segir að afborganirnar lækki um á mánuði (það er ekki fyrr en 2036 sko), kaupa sér lúxusjeppa eða fara með fjölskylduna á Grillmarkaðinn. Ekki strax sko. En það er hægt að baka snúða. Ekki gullskreytta í þetta skipti samt.
Nei, í þetta skipti mæli ég með pylsusnúðum og skinkusnúðum. Eitthvað fyrir alla fjölskylduna. Pylsur fyrir börnin og hráskinka fyrir þá fullorðnu. Eða öfugt.
Ég gerði einmitt svona snúða fyrir afmælisblað MAN og þá voru þeir hugsaðir fyrir barnaafmæli (það var sko afmælisþema). En þeir eru fínir hvenær sem er.
Ég byrjaði á að búa til geirdeig, setti ½ l af ylvolgu vatni og 1 msk af þurrgeri í skál og lét standa í nokkrar mínútur, þar til gerið var rétt farið að freyða. Settu þá 2 msk af ólífuolíu og 1½ tsk af salti út í og síðan svona 700 g af hveiti. Hrærði og hnoðaðu deigið vel og bætti við hveiti eftir þörfum, þar til deigið var orðið vel hnoðunarhæft og klessitst ekki við hendurnar en var þó enn lint og teygjanlegt. Hnoðaði það smástund og mótaði það svo í kúlu, setti hana í skál, breiddi viskastykki eða plastfilmu yfir og lét það lyfta sér í klukkutíma.
Svo sló ég svo deigið niður, skipti því í tvennt og flatti hvorn hluta um sig út í rétthyrning, um 25×35 cm.
Ég var semsagt að gera tvenns konar snúða og byrjaði á pylsusnúðunum. Hrærði saman í skál 100 ml af tómatsósu og 1 msk af sætu sinnepi.
Smurði svo sósunni á deigið, en ekki alveg út á brúnir langhliðanna. Raðaði svo 5 pylsum á deigið, nálægt annarri langhliðinni, og skar 100 g af osti í bita og stráði yfir afganginn af deiginu.
Svo rúllaði ég deiginu upp þannig að pylsurnar voru í miðjunni og skar rúlluna í 1½-2 cm þykkar sneiðar. Raðaði sneiðunum á pappírsklædda bökunarplötu og hafði dálítið bil á milli.
Þá voru það skinkusnúðarnir: Ég tók hinn deigrétthyrninginn og dreifði á hana 80-100 g af hráskinku (1 bréfi). Skar 100 g af kirsiberjatómötum í tvennt og dreifði yfir, ásamt lófafylli af basilíkublöðum (vildi svo til að ég átti aðallega fjólubláa basilíku, en það má auðvitað vera venjuleg.
Svo skar ég 100 g af bragðmiklum osti í bita og dreifði yfir. Rúllaði deiginu upp frá annarri langhliðinni og skar rúlluna í 1½-2 cm þykkar sneiðar. Raðaði sneiðunum á pappírsklædda bökunarplötu og hafði dálítið bil á milli.
Ég lét svo snúðana lyfta sér á meðan ég hitaði ofninn í 200°C. Penslaði þá svo alla með eggjarauðu og reif niður 40-50 g af parmesanosti og stráði yfir þá.
Bakaði svo snúðana í miðjum ofni í 15-18 mínútur, eða þar til þeir höfðu lyft sér vel og tekið góðan lit.
Og svo eru þeir auðvitað langbestir nýbakaðir.
Deigið:
½ l ylvolgt vatn
1 msk þurrger
1 tsk sykur (má sleppa)
2 msk ólífuolía
1½ tsk salt
um 750 g hveiti
*
Pylsufylling:
100 ml tómatsósa
1 msk sætt sinnep
5 pylsur
100 g ostur, skorinn í bita
*
Skinkufylling:
80-100 g hráskinka
100 g kirsiberjatómatar
lófafylli af basilíkublöðum
100 g bragðmikill ostur, skorinn í bita
*
Á snúðana:
1 eggjarauða
40-50 g nýrifinn parmesanostur
Láttu snúðana lyfta sér á meðan ofninn er hitaður í 200°C. Penslaðu hliðarnar á snúðunum með eggjarauðu og stráðu svolitlum parmesanosti á miðjuna. Bakaðu snúðana í miðjum ofni í 15-18 mínútur, eða þar til þeir hafa lyft sér vel og tekið góðan lit.