Einmitt núna finnst mér vera veður fyrir einhvern góða notalegheitamat, eitthvað sem hlýjar manni að utan og innan og kveikir notalegar kenndir og er ekkert endilega allt of hollt en frekar einfalt. Þegar ég var í Bónus í dag var ég reyndar alvarlega að velta því fyrir mér að hafa svið í kvöldmatinn en það var þó af annarri ástæðu …
… það hefði þá verið til að halda upp á útkomu nýjustu bókarinnar minnar, Does anyone actually eat this? sem var dreift í fyrradag, lítil bók sem ég skrifaði á ensku um ýmsa séríslenska rétti eins og svið, hákarl, hrútspunga, ábrystir, hangikjöt og flerira – engar uppskriftir, bara frásagnir og myndir. (Tilvalin gjöf handa vinum og kunningjum í útlöndum, sko …). En ég hætti við það og eldaði kjúklingarétt í staðinn. Uppskriftin hér er samt ekki að honum heldur.
Makkarónur og ostur – mac’n’cheese – er afar algengur bandarískur réttur en er raunar upprunninn í Bretlandi; elsta þekkta uppskriftin er frá 1769. En á 19. öld náði hann miklum vinsældum í Bandaríkjunum. Til eru ótal útgáfur af réttinum. Oft er búin til ostasósa (béchamelsósa með osti) og hellt yfir makkarónurnar, stundum eru notuð egg og rjómi,stundum er beikoni, blómkáli, tómötum eða öðru grænmeti blandað saman við, hann er oft kryddaður, t.d. með sinnepi eða chilipipar, og stundum er brauðmylsnu eða parmesanosti stráð yfir áður en hann er bakaður.
Þessi uppskrift, sem birtist í MAN í haust, er byggð á uppskrift sem ég fékk eitt sinn hjá bandaríska rithöfundnum John Thorne, sem raunar var þeirrar skoðunar að öllum matreiðslubókum sem væru með mac’n’cheese-uppskrift sem innihéldi hvíta sósu ætti að henda út um gluggann. Uppskrift hans var hins vegar með niðursoðinni mjólk, sem mér fannst ekki góð hugmynd heldur svo að ég notabara rjóma í staðinn. Hann sagði líka að osturinn ætti að vera aðalhráefnið og þar er ég aftur á móti alveg sammála – þessi útgáfa inniheldur aðeins meira af osti en makkarónum.
Ég bætti hér við beikoni en því má auðvitað sleppa – þá þarf hins vegar að krydda réttinn heldur meira.
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og hita hann í 220°C. Hitaði svo saltvatn í potti og sauð 250 g af makkarónum í 6-7 mínútur, eða þar til þær voru rétt tæplega meyrar. Á meðan steikti ég beikon – ætli það hafi ekki verið svona 150 g – á pönnu þar til það var stökkt, setti það á eldhúspappír, lagði meiri eldhúspappír ofan á og pressaði til að losna við eitthvað af beikonfitunni. Skar svo beikonið í bita.
Ég tók svo 50 g af smjöri, notaði 1 msk til að smyrja form en setti hitt í skál. Þegar makkarónurnar voru soðnar (eða rétt tæplega) hellti ég þeimí sigti og lét renna af þeim en hvolfdi þeim svo út í skálina og hrærði þar til smjörið var bráðið.
Ég reif svo niður 150 g af cheddar og 150 g af sterkum gouda. Það má nota aðrar tegundir af osti en best að hann sé frekar bragðmikill.
Ég tók svo 2 egg, 200 ml af mjólk, 200 ml af rjóma og hrærði saman, bætti við nokkrum dropum af tabascosósu, hellti þessu yfir makkarónurnr og blandaði saman við ásamt beikonbitunum. Kryddaði með pipar en sleppti salti af því að ég var með það mikið beikon að það var óþarft.
Svo hrærði ég cheddarostinum og goudaostinum saman við ásamt dálitlum rifnum parmesanosti (má sleppa) …
… hellti öllu saman í smurða formið og bakaði í um 25 mínútur …
… eða þar til yfirborðið er fallega dökkgullinbrúnt.
Með þessu þarf ekkert nema kannski grænt salat.
Makkarónur og ostur með beikoni
250 g makkarónur
salt
100-200 g beikon (má sleppa)
50 g smjör (og meira til að smyrja formið)
2 egg
200 ml mjólk
200 ml rjómi
smáskvetta af tabascosósu
pipar
150 g cheddar, rifinn
150 g sterkur gouda, rifinn
e.t.v. 3-4 msk nýrifinn parmesanostur
Börnin mín eru alveg innilega ósammála John Thorne og harðneita að við gerum fleiri mac’n’cheese tilraunir (okkar er með béchamelsósu með heeeellingi af osti og svo túnfiskur saman við). Kvörtuðu undan eggjabragðinu og vantaði mýktina. Ég er ekki frá því að ég sé sammála. Gott samt 😀