Um daginn sá ég á nokkrum Facebook- og bloggsíðum fiskrétt sem ég hef ekki séð lengi og virkaði nú á mig eins og gamall draugur en hefur örugglega verið meira eins og gamall vinur fyrir marga. Ég veit að þetta var mjðg vinsæll réttur og mörgum finnst hann mjög góður og það er auðvelt að koma honum ofan í krakka, skilst mér, og þetta er allt hið besta mál en hins vegar er svo margt í þessari uppskrift sem er bara ekki minn stíll. Hreint ekki.
En svo rámaði mig í að ég hafði á sínum tíma gert útfærslu af þessum rétti (sem heitir víst fiskur í okkar sósu en ég veit ekki hver við erum í því dæmi) sem var meira að mínum smekk. Í upprunalegu uppskriftinni var 1/2 l súrmjólk, 1 bolli majónes, karrí, túrmerik, aromat og seasonall, saxað epli, kurlaður ananas úr dós (og stundum safinn úr dósinni) og fullt af osti. Það er stimlpað ,,1980 og eitthvað“ á þennan rétt með stórum stöfum …
Ég er mun meira fyrir jógúrt en súrmjólk, mér finnst þetta hrikalega mikið majónes (yfir 900 hitaeiningar), ég hef ekki notað aromat og seasonall í áratugi og ég er yfirleitt ekki hrifin af ávöxtum í fiskréttum (með undantekningum þó), sérstaklega ekki niðursoðnum ananas (of sætur, ég tala nú ekki um ef safinn er með). Og eins og mjög margir vita er ég yfirleitt afar lítið fyrir ost með fiski, nema ögn af parmesan stöku sinnum. Einhver ítölsk taug í mér líklega.
En ég spilaði semsagt út frá þessu og gerði útgáfu – eða rétt, þetta er það ólíkt að það er kannski ekki hægt að tala um útgáfu – sem er meira að mínum smekk. En ekki endilega annarra. Ögn hollari, líka. Ef maður er í þannig pælingum. Þessi uppskrift er fyrir tvo, rúmlega helmingi minni en sú sem ég hef oftast séð að hinum réttinum. Og ég notaði grænmeti í staðinn fyrir ávextina, jógúrt í staðinn fyrir súrmjólkina, egg og svolitla olíu í staðinn fyrir majónesið og pipar og salt í staðin fyrir aromatseasonallið. Já,og smávegis pankorasp (já, ég er hrifin af því, en má vera venjulegt) og parmesan í staðinn fyrir böns af gratínosti eða einhverju slíku.
Ég hitaði ofninn í 200°C. Tók svo 300 g af blómkáli og skipti niður í kvisti. Flysjaði 2-3 gulrætur og skar í sneiðar. Sauð grænmetið svo í léttsöltuðu vatni þar til það var nærri meyrti.
Á meðan gerði ég sósuna: Setti 300 ml af hreinni jógúrt í skál og hrærði 1 eggi og 1 1/2 msk af olíu saman við.
Svo hrærði ég 3/4 af karrídufti, 1/2 tsk af túrmeriki, nýmöluðum pipar og salti saman við.
Ég átti svona 370 g af löngu, roð- og beinlausri, en það mætti líka nota einhvern annan hvítan fisk. Penslaði lítið, eldfast mót með olíu, kryddaði fiskinn með pipar og salti og setti í mótið.
Grænmetið var einmitt tilbúið og ég hellti vatninu af því og dreifði því í kringum fiskinn.
Svo hellti ég sósunni yfir fiskinn og grænmetið (gott að slétta aðeins yfirborðið, t.d. með því að taka bút af bökunar- eða álpappír, leggja ofan á og þrýsta létt með flötum lófa).
Að lokum blandaði ég saman 2 msk af pankoraspi og 2 msk af nýrifnum parmesanosti og stráði yfir.
Setti þetta svo í ofninn og bakaði í 18-20 mínútur, eða þar til yfirborðið var farið að taka lit og fiskurinn var eldaður í gegn.
Bar þetta svo fram með soðnum hrísgrjónum og grænu salati. Eins og sjá má er eiginlega ekkert af sósu þarna, fiskurinn og grænmetið taka hana alla upp í sig eða utan á sig. En ef maður vill fljótandi sósu með má náttúrlega bara setja meiri sósu yfir fiskinn í upphafi.
Þetta er semsagt dæmi um hvernig ég nota stundum uppskriftir tið að búa til nýja rétti sem falla meira að mínum smekk. (Og mikið er það annars gott að ekki skuli allir hafa sama matarsmekk, þá væri nú ekki gaman að lifa.)
*
Fiskur í jógúrtkarrísósu
350-400 g hvítur fiskur (ég notaði löngu)
salt og pipar
300 g blómkál
2-3 gulrætur, meðalstórar
300 ml hrein jógúrt
1 egg
1 ½ msk olía
1 tsk karríduft
½ tsk túrmerik
2 msk rasp (ég notaði pankorasp)
2 msk nýrifinn parmesanostur