And now for something completely different …

Ég hef á seinni árum reynt að draga verulega úr sykurnotkun í matargerð. Stundum með því að sleppa sykrinum algjörlega, stundum með því að minnka hann verulega, og stundum með því að minnka hann – jæja, einhvern slatta. Ég drekk ekki gosdrykki og aðra sykraða drykki og nota mjög lítið af tilbúnum matvælum, sem oft eru óhóflega sykruð; kaupi til dæmis aldrei sykraðar mjólkurvörur. (Og þótt Mjólkursamsalan noti að mínu mati allt of mikinn sykur í vörur sínar, þá á fólk jú alltaf val um að kaupa hreint skyr, jógúrt og svoleiðis – það er ekki eingöngu hægt að kenna MS um.) Mér finnst betra að nota hreina jógúrt og blanda hana með ávöxtum, hnetum og öðru góðgæti sem ég vel sjálf. Auðvitað er sykur í ávöxtunum en ég vil hann frekar en annan sykur þótt hann sé kannski ekkert hollari.

Og ég nota aldrei gervisykur eða sætuefni, finnst þau í mörgum tilvikum bara blekking sem viðheldur bara sykurlönguninni og það er bragð t.d. af stevíu sem ég kann ekki við (og flest þessi sykur-og-allslausu síróp og svoleiðis eru beinlínis vond á bragðið). Ég keypti aldrei agavesíróp þegar það var í tísku – jú, einu sinni til að prófa – og svo kom náttúrlega í ljós að það er alveg jafnóhollt og sykurinn. Ég nota stöku sinnum hunang, hlynsíróp eða hrásykur en bara út af bragðinu, veit vel að það er ekkert hollara. Og mér finnst allt í lagi að nota hvítan sykur, púðursykur og síróp þegar þess er þörf – bara frekar sjaldan og eins lítið og maður kemst af með.

Ég er hins vegar með fólk í fjölskyldunni sem borðar alls engan sykur nema þann sem er í ávöxtum og heldur enga gervisætu eða sætuefni. Og þegar það kemur í heimsókn og ég býð upp á eftirrétt þarf ég að finna eitthvað fyrir alla. Stundum bara ferska ávexti – ekkert að þeim – en svo er líka hægt að gera eftirrétti án þess að bæta við þá sykri. Hér er einn slíkur; uppskriftin birtist fyrst í ágústblaði MAN.

Litirnir, hráefnið og bragðið í þessum eftirrétti leiðir allt hugann til landanna við sunnan- og austanvert Miðjarðarhafið. Eins og ég sagði er hér enginn viðbættur sykur eða sætuefni en að sjálfsögðu eru ávextirnir sætir. Mér finnst þetta alveg ágætt eins og það er en fyrir þá sem vilja hafa réttinn ögn sætari er tilvalið að bera fram hunang með.

Þetta er stutt og einföld uppskrift. Sem er nú líklega ágætt svona á eftir kokkteilsósulanglokunni. Uppskriftin gæti verið fyrir 6-8 en það má helminga hana eða gera í hvaða hlutföllum sem er.

_MG_7101

Þetta eru semsagt bakaðir ávextir með pistasíum og kanel. Það má nota hvaða steinaldin sem er (ferskjur, nektarínur, apríkósur, plómur) en ég átti nokkar fallegar apríkósur og slatta af nektarínum. Svo var ég með 100 g af mjúkum gráfíkjum, 3 msk af pistasíum, 40 g af smjöri og 1/2 tsk af kanel. Það mætti líka nota aðra þurrkaða ávexti en mér finnst gráfíkjurnar eiga sérlega vel við hér.

(Smáútúrdúr: Ég hef stundum á síðustu árum, eftir að fíkjur fóru að fást hér (og kosta hvítuna úr augunum og eru oftlega bæði gamlar og vondar) séð þær kallaðar ,,ferskar gráfíkjur“, sem er auðvitað ekki rétt því gráfíkja er einfaldlega heiti á þurrkaðri fíkju. En um daginn var ég í búð og rak þá augun í að í einni hlllunni voru merkingarnar ,,þurrkaðar rúsínur“ og ,,þurrkaðar sveskjur“. Líklega heldur einhver að þær vaxi á sveskjutrjám og rúsínurunnum. Eða eitthvað. En reyndar upplýsti ég mann á mínum aldri um það fyrir ekki svo löngu að rúsínur væru þurrkuð vínber. Hann varð mjög undrandi, hafði aldrei áttað sig á því fyrr.)

_MG_7102

Ég kveikti á ofninum og stillti hann á 200°C. Skar svo nektarínurnar og apríkósurnar (eða þá ávexti sem notaðir eru) í tvennt og fjarlægði steinana. Skar svo gráfíkjurnar í 3–4 bita hverja (og það má ekki gleyma að fjarlægja stilkinn) og grófsaxaði pistasíurnar. Svo smurði ég bökumót (eða annað eldfast mót) með dálitlu af smjörinu og setti  ávextina og hneturnar í mótið.

_MG_7108

Ég stráði svo kanelnum jafnt yfir og dreifði afganginum af smjörinu yfir í smáklípum.

_MG_7133

Ég setti þetta svo í ofninn og bakaði í 15–20 mínútur, eða þar til ávextirnir voru heitir í gegn og aðeins byrjaðir að taka lit.

_MG_7167

Svo bar ég ávextina fram volga með sýrðum rjóma, mascarponeosti eða ís og hunangi fyrir þá sem vildu.

*
Bakaðir ávextir með pistasíum og kanel

6–8 nektarínur

5–6 ferskar apríkósur (eða plómur)

100 g gráfíkur

3 msk pistasíur

40 g smjör

½ tsk kanell

sýrður rjómi (36%), mascarponeostur eða ís

e.t.v. þunnt hunang fyrir þá sem vilja

2 comments

  1. Vildi bara þakka fyrir sykurlausu uppskriftirnar á síðunni, kann vel að meta þær.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s