Ég held að það sé kominn tími á köku. Ekki þó einhverja dísæta marensbombu, ég hef aldrei verið mikið fyrir þær og finnst eiginlega merkilegt hvað þær eru vinsælar. Öðru máli gegnir um súkkulaðikökur (ef þær eru ekki of sætar) og svo var ég einmitt að lesa í dag að súkkulaði hefði svo góð áhrif á minnið, einkum hjá konum á aldrinum 50-65 ára. Ég er akkúrat á miðju því bili svo að mig fór strax að langa til að bæta minnið með súkkulaðiköku. Ég sleppti þvi nú samt en rifjaði í staðinn upp köku sem ég bakaði fyrir afmælisblað MAN í haust. Og reyndar líka fyrir afmælið hennar Gurríar Haralds í sumar.
Þessi er fyrir lakkrísvini og kannski ætti að merkja hana með viðvörun fyrir þá sem þurfa að passa upp á blóðþrýstinginn, ég borðaði allavega ekki mikið af henni þótt mér þætti hún ansi góð. Ég er hrifin af lakkrísbragði af kökum (ef það er góður lakkrís sko) en ekki af lakkríssælgæti í kökum og smákökum. En það er til ráð við því …
Ég átti sem sagt lakkrísduft frá Johan Bülow og notaði það í kökuna sjálfa. Reyndar má líka sleppa því og hafa þetta bara súkkulaðiköku með lakkrískremi. Í kremið og skreytinguna notaði ég svo lakkríssíróp frá Johan Bülow.
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 180°C. Svo bræddi ég 100 g af súkkulaði í vatnsbaði. Notaði venjulegt en það mætti líka vera 70% súkkulaði.
Ég hrærði svo saman 200 g af púðursykri og 175 g af linu smjöri þar til þetta var ljóst og létt og þeytti svo þremur eggjum saman við, einu í senn.
Síðan hellti ég súkkulaðinu út í og hrærði því saman við.
Svo vigtaði ég 150 g af hveiti, blandaði 1½ tsk af lyftidufti og 1 msk af lakkrísdufti saman við og hrærði þessu svo saman við deigið. Best er þó að hræra ekki meira en rétt þarf til að allt blandist saman.
Ég setti svo deigið í smurt og pappírsklætt smelluform og bakaði kökuna neðst í ofni í um 25 mínútur. Lét hana kólna alveg á grind.
Á meðan kakan var að kólna bjó ég til lakkrískremið.
Ég hrærði 200 g af linu smjöri og 250 g af flórsykri mjög vel saman og hrærði svo 1 eggjarauðu og 1 msk af lakkríssírópi saman við.
Kremið ætti að vera nokkuð stíft.
Ég smurði svo kreminu ofan á kökuna þegar hún var orðin alveg köld og dreypti dálitlu lakkríssírópi yfir hana úr teskeið.
Þetta var nú ekki slæmt. Og bætti minnið örugglega alveg helling.
*
Lakkrís-súkkulaðikaka
100 g suðusúkkulaði
200 g púðursykur
175 g smjör, lint
3 egg
150 g hveiti
1½ tsk lyftiduft
1 msk lakkrísduft (má sleppa)
Lakkríssmjörkrem
200 g smjör, lint
250 g flórsykur
1 eggjarauða
1 msk lakkríssíróp + aðeins meira til að setja yfir
Hrærðu smjör og flórsykur mjög vel saman. Hrærðu svo eggjarauðunni og lakkríssírópinu saman við. Smyrðu kreminu á kökuna og dreyptu taumum af lakkríssírópi yfir með teskeið. Láttu kremið kólna þar til það er stíft.
Þetta var alveg fáránlega góð kaka! Hvar færðu lakkríssíróp og -duft?
tessi lytur alveg rosalega vel ut ! faest svona lakkrisdift og sirop i melabudinni eda epal ?
Já, ég gleymdi að nefna það. Bæði duftið og sírópið eru frá Johan Bülow og fæst í sumum búðum sem selja þær vörur. Ég keypti hvorttveggja í Vínberinu en svo fæst þetta í Epal, sem flytur lakkrísinn inn. Ekkert sérlega ódýrt náttúrlega en drjúgt og alveg peninganna virði, finnst mér (ef maður er gefinn fyrir lakkrísbragð).
[…] sjálfar (eða þá lakkrísduft) og sleppa því að strá einhverju utan á þær. Ég hef minnst á þessar vörur áður, sírópið og duftið fæst í sumum sælkerabúðum eins og hrikalega góði lakkrísinn frá […]
[…] hann og lakkrísinn hans, sem mér finnst dálítið góður, satt að segja, og birt uppskrift að lakkrísköku og […]
[…] sem ég hef áður verið með, til dæmis lakkríssmákökur og lakkrístrufflur og lakkríssúkkulaðiköku. En lakkríshugmyndirnar sem ég er með í kollinum snúast um eitthvað […]