Ég hef oft heyrt fólk tala um það á síðustu árum að það sé bara ekki hægt að kaupa lambahrygg í matinn, hann sé svo dýr. Og jú, það er nokkuð til í því – tveggja kílóa hryggur kostar kannski fjögur þúsund krónur og stundum meira og það er minni matur á honum en læri. En þetta er afbragðskjöt sem gaman er að elda. En hentar sannarlega ekki fyrir einn eða tvo – að minnsta kosti ekki heilir hryggir.
Í Bónus er stundum hægt að fá hálfa hryggi – eða líklega er þetta frekar þriðjungur af hrygg reyndar, gjarna 650-700 grömm, og það er nú alveg passlegt fyrir tvo. Þeir kosta eitthvað 1800-1900 krónur kílóið, sem þýðir að stykkið er á eitthvað um 1200 krónur. Og það er nú alveg yfirstíganlegt í mat fyrir tvo. Eða bara fyrir einn meiraðsegja.
(Annars vildi ég óska þess að hægt væri að fá víðar hálfan hrygg, sagaðan eftir endilöngu og án hryggbeins en með rifjum – ef mig langar að elda svoleiðis þarf ég oftast að höggva hann sjálf með minni traustu kjötöxi.)
Þegar ég lærði matreiðslu í gagnfræðaskóla var lögð mikil áhersla á að skera stimplana af kjötinu. Ég vissi reyndar aldrei af hverju, hef enga trú á að það séu einhver eiturefni í stimpilblekinu, en líklega var þetta vegna fegurðarsjónarmiða. Allavega innprentaðist þetta svo sterklega í mig að það eru ekki mörg ár síðan ég hætti að nenna þessu. Svona almennt. En þessi hryggbiti var stimplaður svo rækilega, báðum megin hryggjarbeinsins, að ég gat bara ekki látið stimplana eiga sig og þarna er ég búin að skera annan af …
Þetta var fallegur hryggjarbiti, vel holdfylltur með lundinni neðan á. Ég kryddaði hann með pipar og salti og lét standa á meðan ég hitaði ofninn í 225°C.
Ég setti svolitla olíu í eldfast mót, skar 250 g af litlum kartöflum í tvennt og flysjaði 2-3 gulrætur og skar þær í þykkar sneiðar. Dreifði þessu í kring ásamt hálfri sítrónu, skorinni í sneiðar, kryddaði með pipar og salti og setti í ofninn og steikti í 20 mínútur.
Á meðan tók ég litlu matvinnsluvélina mína og setti í skálina 3 msk af graskersfræjum, 3 msk af kasjúhnetum, litla lófafylli af basilíkublöðum, rifinn börk af 1/2 sítrónu ásamt svolitlu af safa, 1/2 tsk af kummini, pipar og salt.
Svo lét ég vélina ganga þar til þetta var orðið að grófu mauki.
Ég tók kjötið út og lækkaði ofnhitann í 180°C.
Ég smurði svo svona 2 msk af dijonsinnepi á hrygginn og dreifði graskersfræjablöndunni jafnt yfir.
Ég þrýsti blöndunni létt niður í sinnepið – það gerir ekkert til þótt smávegis hrynji út af. Setti svo fatið aftur í ofninn og steikti í 15-20 mínútur, eftir því hvað maður vill hafa kjötið mikið steikt. Á meðan gerði ég einfalda sósu, notaði lambakraft, vatn, púrtvín og rjóma og lét sjóða vel niður þar til sósan fór að þykkna og bragðbætti hana svo með pipar (salt ætti að vera óþarft).
Svo tók ég hrygginn út, lét hann bíða í nokkrar mínútur en setti hann svo á fat ásamt kartöflunum og gulrótunum og bra fram með sósunni og salati. Stráði ögn af saxaðri basilíku á hrygginn til að gera hann litríkari en hann þurfti þess svosem ekki.
Ég var ein í sunnudagsmat svo að helmingurinn af kjötinu og grænmetinu var meira en nóg handa mér. Daginn eftir skar ég hrygginn svo í bita og steikti ásamt dálitlu beikoni með afgöngunum af grænmetinu og fræ/hnetublöndunni, hellti dálitlum rjóma yfir og lét sjóða aðeins, setti svo í eldfast mót, smurði kartöflustöppu yfir og bakaði í ofni við 225°C í svona 15 mínútur. Og afgangurinn af þessari smalaböku var svo hádegismaturinn minn í vinnunni í dag – svo að þessi hryggjarbiti varð að þremur máltíðum.
*
Lambahryggur undir graskersfræja- og hnetuþekju
fyrir 2
biti af lambahrygg, 650-700 g
pipar
salt
1 msk olía
250-350 g litlar kartöflur
2-3 gulrætur
1 sítróna
3 msk graskersfræ
3 msk kasjúhnetur
lítil lófafylli af basilíku
1/2 tsk kummin
2 msk dijonsinnep
20 mínútur við 225°C, svo 15-20 mínútur við 180°C.