Hvenær var það aftur sem ,,heitir brauðréttir“ slógu í gegn hérlendis? Ég man ekkert eftir þeim fyrir 1975 eða svo en eftir sirka 1985 voru þeir ómissandi í saumaklúbbum árum saman og færðust svo yfir í aðrar veislur.
Nú orðið finnst mér að þegar talað er um heita brauðrétti sé fyrst og fremst átt við niðurrifið brauð eða skorpulausar brauðsneiðar í formi ásamt áleggi (oftast skinku, ostum og ýmsu grænmeti), bleyttar með einhverjum vökva og síðan bakaðar, síður aðra heita rétti þótt þeir innihaldi brauð. En það er kannski misskilningur hjá mér. Upphaflega var þetta allavega notað um alls konar heita rétti með brauði og þetta er elsta dæmið sem ég fann inni á tímarit.is:
Ég er ekki alveg viss um hvort maður mundi kalla þetta heitan brauðrétt núna, frekar bara heitt brauð, heita brauðlengju eða eitthvað svoleiðis. Þetta var 1974 en 20 árum seinna var komin til sögunnar kunnuglegri útgáfa:
Mér finnst stundum eins og næstum allir heitir brauðréttir sem ég fæ í boðum og sé uppskriftir af á netinu og í blöðum séu hver öðrum líkir – eða innihaldi allavega skinku, aspas og oftast papriku. Það eru auðvitað ýkjur og margir þessara rétta eru ljómandi góðir en sumir þeirra eru það satt að segja ekki og verstir eru þeir sem eru gerðir úr heilhveitibrauði og eru frekar blautir og mullulegir. Alversti heiti brauðréttur sem ég hef fengið var einmitt þannig, eins og blautur og bragðlaus heilhveitisvampur; það var reyndar á veitingastað í Reykjavík.
Allavega, brauðréttir eru fínir en mér finnst ágætt að breyta til og prófa aðrar útgáfur en þessar hefðbundnu, til dæmis þennan bandarískættaða sveppabrauðrétt sem ég gerð fyrir afmælisblað MAN í haust.
Flestir bandarískir brauðréttir eru af þeirri gerð sem kallast strata, af því að þeir eru oft í nokkrum lögum (en stundum er þó bara öllu blandað saman í forminu). Það er bleytt í brauðinu með eggja- og rjóma- eða mjólkurblöndu og þeir eru alltaf látnir standa í forminu góða stund, gjarna yfir nótt, því þetta eru vinsælir morgunverðar- og brönsréttir. Þeir eru líka bakaðir lengur en aðrir brauðréttir, ekki bara þar til þeir eru heitir í gegn og osturinn bráðinn.
Ég mæli með að nota gott hveitibrauð, úr bakaríi eða heimabakað, ekki samlokubrauð eða annað slíkt, og léttrista það fyrir notkun. (Og þrátt fyrir það sem ég sagði áðan um heilhveitibrauð er engin þörf á að nota hvítt brauð.)
Það er best að undirbúa réttinn og setja hann saman kvöldið áður en á að baka hann (t.d. fyrir bröns), eða um morguninn ef á að nota hann að kvöldi.
Ég man reyndar ekki fyrir víst hvaða brauð ég notaði en það var keypt í Nóatúni og gæti mögulega heitið Napólíbrauð eða eitthvað svoleiðis. En kannski hetiir það eitthvað allt annað. Aðalatriðið er að finna sér gott brauð, meðalstórt. Ég skar endana af því. Ef skorpan er þykk og hörð er best að skera hana af en annars þarf þess ekki; mér fannst engin þörf á því við þetta.
Ég skar brauðið í fremur þykkar sneiðar og léttristaði þær í brauðrist (má líka baka þær í ofni þar til þær eru aðeins farnar að taka lit) og skar þær svo í bita.
Ég tók svo 250 g af sveppum – mér finnst best að nota kastaníusveppi í svona en það mega alveg vera venjulegir ætisveppir – og saxaði 3-4 vorlauksgeira og 2 hvítlauksgeira. Bræddi svo 2 msk af smjöri á pönnu og setti vorlaukinn og hvítlaukinn á hana …
… og síðan sveppina og lét krauma við meðalhita í 6-8 mínútur. Kryddaði með 2-3 timjangreinum (eða 1/2 tsk af þurrkuðu timjani) pipar og salti.
Ég hellti svo 100 ml af hvítvíni á pönnuna, af því að ég átti það til, en annars má alveg nota vatn og kannski smákreistu af sítrónusafa. Hækkaði hitann aðeins og lét sjóða þar til vökvinn er gufaður upp. Fjarlægði svo timjangreinarnar (augljóslega óþarft ef ekki er notað ferskt timjan).
Ég smurði svo eldfast mót með smjöri. Skar 1 Höfðingja (eða sambærilegt magn af öðrum mjúkum osti) í bita og dreifðu þeim í formið ásamt brauðbitunum.
Síðan dreifði ég sveppablöndunni yfir og blandaði lauslega saman við brauðið og ostinn. Reif svo 50 g af parmesanosti og stráði helmingnum yfir brauðblönduna.
Svo braut ég 4 egg í skál, hrærði 200 ml af rjóma, 200 ml af mjólk og 1 msk af dijonsinnepi saman við, ásamt pipar og salti. Hellti blöndunni jafnt yfir brauðið.
Síðan breiddi ég bökunarpappír (nú, eða álpappír) vel yfir formið og þrýsti lauslega ofan á með lófunum til að bleyta allt brauðið. Setti þetta svo í kæli yfir nótt (eða í lágmark 2 klst.).
Daginn eftir tók ég svo formið út og hitaði ofninn í 175°C. Bakaði brauðréttinn, undir álpappír, í 35-40 mínútur. Fjarlægði þá álpappírinn, stráði afganginum af parmesanostinum yfir og bakaði í 15-20 mínútur í viðbót, eða þar til yfirborðið var fallega gullinbrúnt.
Langbest er að láta brauðréttinn standa í a.m.k. 15 mínútur eftir að hann kemur úr ofninum og bera hann svo fram volgan.
Sveppa-strata
1 gott hveitibrauð
250 g sveppir, gjarna kastaníusveppir
3-4 vorlaukar
2 hvítlauksgeirar
2 msk smjör, og meira til að smyrja formið
2-3 timjangreinar eða ½ tsk þurrkað timjan
pipar
salt
100 ml hvítvín eða vatn
1 Höfðingi (eða annar svipaður ostur)
4 egg
200 ml rjómi
200 ml mjólk
1 msk dijonsinnep
50 g parmesanostur, nýrifinn