Haustleg humarsúpa

Það er kannski kominn tími til að snúa aftur til nútímans eftir að hafa verið að skoða 80 ára gamlar uppskriftir undanfarna viku. Og þá verður að segjast að þessi súpa sem hér kemur uppskrift að er aðeins dýrari en það sem ég var að elda eftir gamla matseðlinum. Hún kostar samt enga formúu. En góð er hún og frekar einföld. Hlýleg og haustleg, finnst mér. En á reyndar við á öllum árstímum.

Matarmikil og góð fiskisúpa fellur alltaf vel í kramið, ekki síst ef hún inniheldur humar og annan skelfisk. Þessi hér er einföld og góð. Það sem helst þarf að hafa í huga þegar svona súpa er gerð er að búa til góðan grunn og smakka sig áfram og setja svo ekki fiskmetið út í fyrr en á síðustu stundu svo að það ofsjóði ekki – fiskur í bitum og skelfiskur þarf ekki nema örfárra mínútna suðu. Þess vegna á svona súpa helst ekki að bíða og ef þess er þörf er best að elda hana og bragðbæta en setja fiskmetið ekki út í. Svo má hita hana ef þarf þegar á að bera hana fram og setja fiskinn þá út í.

Súpan tekur sig best út, finnst mér, ef humarinn og kræklingurinn er hafður í skelinni en þá þarf að muna eftir skál fyrir skeljarnar og það getur verið gott að hafa lítinn gaffal með, auk skeiðanna, til að auðvelda gestunum að borða súpuna. Uppskriftin er hugsuð sem forréttur fyrir átta eða aðalréttur fyrir fjóra en það má auka eða minnka bæði fiskmagn og vökva.  Uppskriftin birtist fyrst í afmælisblaði MAN í haust og var þar milliréttur í fjögurra rétta afmælisveislu.
Þetta er fisk- og skelfisksúpa og það má nota ýmsar tegundir, t.d. þorsk, steinbít, löngu, ýsu, lúðu eða lax, humar, rækjur, krækling og fleira. Ég man ekki alveg hvaða fisk ég var með, líklega löngu, þorsk og kannski svolítið af laxi, líklega svona 700 g í allt (roð- og beinlaust). Svo var ég með humar í skel, 200-250 g, og 400 g af frosnum kræklingi. Byrjaði á að skera fiskinn í bita – munnbita, sirka – kljúfa humarhalana eftir endilöngu og hreinsa þá. (Nei, ég byrjaði náttúrlega á að taka kræklinginn úr frysti og láta hann þiðna, en ef maður er með ferskan krækling þarf að gufusjóða hann í örfáar mínútur.)
_MG_9286

Svo hitaði ég 2 msk af olíu í víðum potti, saxaði 6-8 vorlauka og 250 g af gulrótum frekar smátt og lét þetta krauma við meðalhita í nokkrar mínútur án þess að brúnast.

_MG_9288

Bætti svo 2 lárviðarlaufum og 1 tsk af þurrkuðu timjani í pottinn …

_MG_9292

… og síðan 2 msk af fljótandi humarkrafti (Oscar), 2 msk af fiskikrafti og 2 l af vatni. Hitaðu að suðu og láttu malla í um 20 mínútur.

_MG_9297

Þá hellti ég 400 ml af rjóma út í, ásamt 1 msk af paprikudufti og 1 1/2 tsk af túrmeriki út í og lét malla í nokkrar mínútur.

_MG_9300

Ég smakkaði súpuna og bragðbætti með ögn meiri humar- og fiskkrafti, ásamt pipar og salti eftir smekk. Setti svo fiskinn og skelfiskinn út í, hitaði að suðu og lét malla í 2-3 mínútur.

_MG_9338

Svo er bara að bera súpuna fram með góðu brauði.

_MG_9360

Þetta var nú ekkert slæm súpa.

_MG_9381

Fisk- og skelfisksúpa

600-800 g fiskur, blandaður

200-250 g humar í skel

400 g kræklingur, ferskur eða frosinn

2 msk olía

6-8 vorlaukar, saxaðir

250 g gulrætur, saxaðar

2 lárviðarlauf

1 tsk þurrkað timjan

2 l vatn

2 msk fljótandi humarkraftur

2 msk fiskikraftur

400 ml rjómi

1 msk paprikuduft

1½ tsk túrmerik

pipar og salt

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s