Tvisvar á dag í fimmtíu ár …

Jæja, nú er ég búin að fylgja 79 ára gömlum matseðli í eina viku, elda tvíréttað upp á hvern dag og taka saman kostnað og hafði satt að segja býsna gaman af. En eins og ég hef tekið fram nokkrum sinnum var ég ekki að elda sama matinn og Helga Sig. var með í huga þegar hún setti saman matseðilinn sinn, stundum gerði ég að vísu nokkurn veginn sama og hún hefði gert, stundum skoðaði ég uppskriftir sem birtust annaðhvort með matseðlinum eða í bókum Helgu frá fjórða áratugnum og studdist við þær eða vann út frá þeim og stundum tók ég bara nafnið á réttinum og vann út frá því – kartöflukakan hennar Helgu var t.d. grænmetisréttur og raunar lítið annað en kartöflur en ég skoðaði uppskriftir með heitinu ,,kartöflukaka“ frá svipuðum tíma og sumar þeirra innihéldu egg og kjötmeti svo að ég bætti við beikoni og eggjum.

Aðalréttirnir voru tveir kjötréttir (annar þeirra innmatur), þrír fiskréttir (einn þeirra síld), einn grænmetisréttur og einn – tja, kartöflukakan var grænmetis/kjötréttur. Það voru kartöflur með eða í hverjum einasta rétti, nema blómkálinu, og dálítið af öðru grænmeti (meira um það seinna), en ég hafði líka grænt salat með á hverjum degi – það hefði ekki gengið upp haustið 1935. Ég eldaði ýmist fyrir einn, tvo eða þrjá en hafði skammtinn alltaf það ríflegan að ég hefði nóg til að borða í hádeginu daginn eftir. Fiskurinn á mánudeginum kláraðist að vísu alveg en afgangurinn af lambabógnum sem var um helgina var það mikill að hann dugði mér tvívegis í nestið svo það gekk upp. Svo gat ég í flestum tilvikum nýtt afganginn af eftirréttinum í morgunmat – mjólkurgrautana borðaði ég bara eins og þeir komu fyrir en leifar af eplasúpu og bláberjagraut notaði ég til að bragðbæta jógúrt og skyr.

Kostnaðurinn við þetta mataræði var mjög nálægt 750 krónum á dag fyrir einn, eða 5250 fyrir vikuna. Inni í því er allur matarkostnaður, nema ein stór dós af hreinu skyri og önnur af hreinni jógúrt, kaffi og mjólk út í það og hráefni í eitt heimabakað brauð. Ég var ekkert að leggja mig sérlega fram við að spara eða kaupa það allra ódýrasta en ég er frekar hagsýn húsmóðir í matarkaupum og af því að ég er oftast ein reyni ég að kaupa inn og ákveða matinn með það í huga að geta nýtt t.d. grænmeti sem best; ef ég ætla t.d. að nota 150 g af blómkáli er mjög ólíklegt að ég finni svo lítinn haus svo að það verður þá annar réttur sem inniheldur blómkál innan tíðar.

Ódýr matur þýðir ekki að maður þurfi að borða lifur (sem mér finnst reyndar mjög góð) og kjötfars (sem mér finnst ekki gott, nema heimatilbúið) upp á hvern dag. Ég steikti lambabóg og eldaði blálöngu, keypti innflutt bláber í bláberjagrautinn og í því sem ég eldaði þessa vikuna voru margar tegundir af grænmeti og ferskar kryddjurtir; ég hafði grænt salat með matnum á hverjum degi eins og ég sagði áðan. Svo að þetta var allt saman alveg ágætt og það held ég að þeim sem borðuðu með mér suma dagana hafi þótt líka.

En hitt er svo annað mál að þetta var í rauninni ekki alveg dæmigerður kreppuáramatseðill, allavega ekki fyrir fátæklinga. Það kemur reyndar ekki fram hvað hráefnið í matinn kostaði en mig grunar að það hafi verið nokkuð yfir framfærsluviðmiði, sem þá var 80 aurar á mann á dag. Eitt sem vakti athygli mína er hvað var mikið af grænmeti hjá Helgu, miklu meira en ég átti von á. En þar kemur tvennt til: Þetta er haustmatseðil þannig að það var eitthvað til af íslensku grænmeti – og Helga Sig. var mikil áhugamanneskja um aukna grænmetisneyslu og gaf fáeinum árum seinna út bókina Grænmeti og ber allt árið.

En á mjög mörgum heimilum var ekkert grænmeti borðað nema kartöflur og laukur. Helga var líka gagnrýnd fyrir það hvað hún var með mikið grænmeti á þessum vikumatseðlum sínum. Vorið 1936 fór Morgunblaðið þess á leit við Húsmæðrafélag Reykjavíkur að það tæki að sér að sjá um síðuna Kvenþjóðin og heimili og þar með mataruppskriftir. Konurnar ákváðu að efna til samkeppni um gerð vikumatseðla sem uppfylltu 80 aura viðmiðið og sögðu meðal annars í kynningunni á keppninni:

Screen Shot 2014-10-22 at 7.11.38 PM

Konurnar birtu viðmiðunarmatseðil og innkaupalista fyrir sex manns með nákvæmlega tilfærðum kostnaði fyrir hvern lið. Þátttaka var ekki mikil í samkeppninni en þó birtust þrír vikumatseðlar með innkaupalistum og mér finnst gaman að skoða þessa fjóra lista. Þeir eru ekkert svo mjög ólíkir, enda var vöruúrval takmarkað. Enginn þessara lista hefur að geyma neitt annað grænmeti en kartöflur og lauk  – hér er ekki blómkál, hvítkál, sellerí, gulrætur eða annað sem var á matseðli Helgu. Ekki einu sinni grænar baunir (en jú, það eru gular baunir í einni uppskrift). Engin epli, ber eða rabarbari – einu fersku ávextirnir eru sítrónur (1-2) og appelsínur (2 á einum listanna, heilar 10 á öðrum en þar eru þær notaðar til að búa til marmilaði).

Viku matarkostnaður fyrir 6 manns (4 fullorðnir, 2 börn) var samkvæmt þessum listum á bilinu 31-33 krónur. Á öllum listunum er mjólkin langstærsti útgjaldaliðurinn, allt upp í fjórðungur af matarpeningunum, eða 7-8 krónur á viku. Smjörlíki og annað feitmeti kostar 2,50-4,24 kr., kjöt og kjötmeti (lambakjöt, blóðmör, lifur) 3-4 krónur, fiskur og fismeti 2-2,50 krónur, brauðmeti (rúgbrauð, kringlur og skonrok) 80 aurar – 2 kr., en á þeim lista þar sem minnst er af aðkeyptu brauði er gert ráð fyrir að bakað sé flatbrauð úr 2 kg af rúgmjöli yfir vikuna. Kartöflur fyrir vikuna kosta 2,50-3 krónur (það eru 10-11 kg), sykur 73 aura – 1,30 og kaffi og kaffibætir 1,25 krónur. Önnur útgjöld eru aðallega ýmsar kornvörur og grjón. Jú, og svo eru 4-6 egg á hverjum lista, nema á einum eru 2 hænuegg og 1 andaregg. Eggin kostuðu 12 aura stykkið (andareggið 18 aura). Á þremur listanna er 1/2 kg ostur og 1/2 kg mysuostur (samtals 1,75 kr.), á einum bara mysuostur.

Og hvernig var svo vinningsmatseðillinn? Hér eru tillögur að hádegisverði, sem var aðalmáltíðin; morgunverður og kvöldverður fyrir alla dagana koma svo á eftir.

Sunnudagur

Tær kjötsúpa með köldum hrísgrjónum; ,,grillerað“ kjöt með kartöflum. Kjötið er fyrst soðið og svo tekið upp úr en súpan gerð úr soðinu, það eru bæði súpujurtir og rúsínur í henni (það finnst mér ekki hljóma vel). ,,Grilleraða“ kjötið er ekki grillað, heldur velt upp úr eggi og raspi þegar búið er að sjóða það og það síðan steikt á pönnu. – Já, og það þarf að taka frá 1/2 kg af soðna kjötinu til að nota á þriðjudag.

Mánudagur

Smjörgrautur með saftblöndu, kanel og sykri; saltfiskur með kartöflum og bræddu smjörlíki. Ég er búin að segja barnabörnunum mínum í mörg ár að ég ætli að elda smjörgraut handa þeim en af því hefur ekki orðið enn … Þessi ætti reyndar að heita smjörlíkisgrautur. Og þar sem eldaður er stór skammtur (líka notaður daginn eftir) eru notuð samtals 400 g af smjörlíki í þessari máltíð.

Þriðjudagur

Ítalskur kjötréttur; hræringur. Hér er afgangurinn af sunnudagskjötinu brúnað á pönnu og blandað saman við uppbakaða sósu úr kjötsoði og 2 msk af tómatpuré og svo eru soðin alveg heil 50 g af makkarónum og sett út í (tómatar og pasta, þetta er sko ítalskt). Hræringurinn er ekki hefðbundinn hafragrauts-skyrhræringu, nei, þetta er smjörgrauts-skyrhræringur. Áhugavert. ,,Reynið smjörgrautarskyrhræringinn áður en þjer dæmið“, segir höfundur uppskriftanna.

Miðvikudagur

Bygggrjónagrautur með mjólk, kanel og sykri; soðinn fiskur með kartöflum og bræddu smjörlíki. Það þarf að vera afgangur af grautnum.

Fimmtudagur

Baunir; bygggrjónalummur. Ekkert kjöt með baunasúpunni en hins vegar eru kartöflur stappaðar saman við hana. Og svo eru gerðar grautarlummur úr afganginum af bygggrautnum.

Föstudagur

Áfasúpa; steiktur fiskur. Áfasúan er þykkt með hrísmjöli og það eru rúsínur í henni.

Laugardagur

Brauðsúpa með rjómafroðu; síld með lauk og kartöflujafningi. Það kemur reyndar ekkert fram hvað gert er við síldina, hvort hún er steikt eða soðin eða hvað. (Annars er síld á öllum matseðlunum, það var ekki bara Helga Sig sem var að reyna að kenna Íslendingum síldarát, en það tókst nú aldrei.)

Morgunverður alla daga: Handa börnum smurt brauð og mjólk, handa fullorðnum smurt brauð og kaffi.

Miðdegiskaffi alla daga: Kaffi, mjólk, smurt rúgbrauð eða flatbrauð, marmilaði, kringlur.

Kvöldverður: Sunnudagur kartöflufriggadellur, brauð, smjör, rúllupylsa, mysuostur, marmilaði, kaffi, mjólk. Alla virka daga hafragrautur með mjólk, brauð, smjör, rúllupylsa, mysuostur.

Æi, ég veit ekki. Mér finnst nú seðillinn hennar Helgu sem ég var með í síðustu viku meira spennandi …

Og hér er svo að gamni viðmiðunar-innkaupalistinn frá Húsmæðrafélaginu. Þarna er hægt að sjá hvað matvæli kostuðu vorið 1936.

Screen Shot 2014-10-22 at 8.15.20 PM

Það gæti verið gaman að bera þetta saman við verðlag dagsins í dag. Ýmislegt er þó ekki alls kostar sambærilegt. Þarna er t.d. fiskurinn örugglega með haus, roði og beinum, hugsanlega óslægður, svo að ætur hluti er mun minni – núna er sá fiskur sem við kaupum oftast 100% nýtanlegur. Kjötið er kindakjöt, læri af fullorðnu, en ég er ekki viss um að það hafi verið neitt ódýrara en lambakjöt í þá daga. Og svo fæst víst ekki kaffibætir lengur …

_MG_0533

En það var allavega nóg af kartöflum. Og þær notar maður nú enn, þó ekki eins mikið og áður – þeim fækkar sem setja upp kartöflur tvisvar á dag (í fimmtíu ár). Og nóg af smjörlíki. En ég held að það séu að minnsta kosti fimmtán ár – eða líkega tuttugu – síðan ég keypti síðast smjörlíkisstykki.

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s