Jæja, þá er það síðasti dagur þessarar tilraunar, sem ég er satt að segja búin að skemmta mér vel við og hefur stundum vakið upp dálitla nostalgíu, bæði hjá mér og ýmsum öðrum. Að borða tvíréttað á hverjum degi, gamaldags grautar og súpur – já, og ýmislegt fleira sem hefur verið dálítið skemmtilegt. En ég ætla að geyma mér að skrifa smásamantekt á þessu þar til ég er búin að fá tölvuna mína úr viðgerð og þarf ekki lengur að notast við gömlu borðtölvuna, sem er afar afar afar hæg.
En þriðjudagsmatseðillinn hljóðaði svona hjá Helgu Sig árið 1935:
Blómkál í tómatsósu
Hrísgrjónagrautur
Grjónagrauturinn er náttúrlega einn af örfáum gamaldags eftirréttum sem lifir góðu lífi enn í dag og ég hafði hann líka algjörlega hefðbundinn. En blómkál í tómatsósu – það gefur ýmsa túlkunarmöguleika. Það var eini hreini grænmetisrétturinn sem ég eldaði þessa viku. Helga var reyndar með tvo, kartöflukakan á föstudeginum var bara kartöflur og lítið annað, en ég gerði kartöflueggjaköku og bætti við beikoni.
Helga birtir uppskrift með og þar forsýður hún blómkálið og gerir svo tómatsósu, segir að best sé að nota soð af ferskum tómötum en það megi nota tómatmauk. Því hellir hún svo yfir tómatana og bakar.
Ég gerði þetta nú eiginlega líka, bara svolítið öðruvísi og meira bragðbætt. Og sleppti því að forsjóða blómkálið.
Ég kveikti á ofninum og stillti hann á 180°C og byrjaði svo á tómatsósunni. Hitaði 1 msk af olíu og svolitla smjörklípu á pönnu. Saxaði hálfan rauðlauk (má vera venjulegur en ég átti hálfan rauðlauk sem ég þurfti að nýta) og tvo hvítlauksgeira og lét krauma í nokkrar mínútur. Svo setti ég þurrkaða basilíku, þurrkað timjan, kummin (svona 1/4 tsk af hverju, eða eftir smekk) á pönnuna ásamt pipar og salti og lét krauma í 1-2 mínútur í viðbót.
Svo hellti ég einni dós af söxuðum tómötum á pönnuna.
Bætti svo við 12 ólífum og 1 tsk af kapers og lét þetta malla í nokkrar mínútur.
Á meðan sósan mallaði tók ég lítinn blómkálshaus (475 g) og snyrti hann, tók öll grænu blöðin og neðsta hlutann af stilknum, og skar svo tvær þykkar sneiðar úr miðjunni en skipti afganginum í kvisti og skar þá stærstu í sundur í miðju. Hitaði 1 msk af olíu á annarri pönnu, kryddaði blómkálið með pipar og salti og raðaði því á pönnuna.
Ég brúnaði blómkálið á báðum/öllum hliðum við góðan hita.
Svo raðaði ég blómkálinu ofan á sósuna í hinni pönnunni (ef þetta er panna sem ekki þolir að fara í ofn má bara hella sósunni í eldfast form og setja blómkálið svo ofan á) og stakk henni svo í ofninn í 12-15 mínútur, eða þar til blómkálið var orðið meyrt.
Ég bar þetta svo fram á pönnunni og setti nokkur basilíkublöð ofan á – á ennþá basilíku í potti frá því fyrir helgi og hún á eftir að duga mér til að skreyta og bragðbæta nokkra rétti í viðbót. Það þarf ekkert að vera svo dýrt að nota ferskar kryddjurtir.
Ég lét nægja að hafa dálítið af klettasalati með (átti það líka í potti og hafði notað eitthvað af því áður). Ef ég hefði bara verið með einn rétt hefði ég mögulega haft soðin hrísgrjón eða eitthvað ámóta með. En það var jú grjónagrautur á eftir …
Ég setti 350 ml af vatni og 100 ml af grautargrjónum í pott, hitaði rólega að suðu og lét malla í svona 12 mínútur undir loki við vægan hita. Hrærði nokkrum sinnum. Síðan hellti ég 350 ml af mjólk í pottinn, setti lok yfir og lét malla við allravægasta mögulega hita í svona hálftíma. Hrærði af og til. Setti svo lófafylli af rúsínum út í ásamt svolitlu salti (hefði bætt við aðeins meiri mjólk ef þess hefði þurft) og lét malla í 8-19 mínútur í viðbót, eða þar til grauturinn var þykkur og grjónin höfðu sogað upp næstum allan vökvann. Það þarf ekkert að standa yfir pottinum og hræra stöðugt en betra samt að gleyma sér ekki yfir sjónvarpinu. En ef aðeins fer að festast og verða ljósbrúnt í botninn er það engin katastrófa, þá þarf bara að passa að hræra ekki alveg niður í botn …
Og svo er það bara kanelsykur og mjólk. Mjólkin í grautinn kostar sirka 80 krónur, grjónin 50, rúsínur og kanell kannski 35 – það eru 165 krónur (og þetta var nú skammtur fyrir tvo til þrjá).
Blómkálið kostaði 200 krónur, tómatarnir 120, olían, laukurinn og kryddið kannski 25 krónur, ólífur og kapers 40 krónur, basilíkan kannski 50 og klettasalatið 100 krónur. Það gerir 535 krónur, samtals 700 krónur. Og nóg eftir í hádegismatinn á morgun.
Mér finnst þetta svo magnað, ég nefnilega reyndi einu sinni að elda eftir henni Helgu, ætlaði að taka þetta alla leið eins og í myndinni um hana Julia Child…tja…gafst (einnig?) fljótlega upp en bloggsíðan sem ég var með þá er ennþá virk 🙂 lol
http://helgaogkolla.wordpress.com/
Takk fyrir skemmtilegar hugmyndir Nanna, sagograuturinn skilaði goðum árangri hjá henni Tobb 😀
Kveðjur, ein lesandi
Uppskriftirnar hennar Helgu eru óneitanlega barn síns tíma; aðstæðurnar voru allt aðrar, hráefnisúrvalið lítið (margt fékkst alls ekki, annað var of dýrt), tíminn kannski meiri og matseldin byggðist meira á þekkingu, reynslu og hefðum en áhrifum utan frá. Ég nota uppskriftir Helgu oft en fer sjaldan eftir þeim, nota þær hins vegar gjarna sem grunn til að styðjast við og byggja utan um.