Mánudagsfiskur og fljótandi eyjar

Mánudagur. Ég veit sveimér ekki hvers vegna mánudagur ætti eitthvað frekar að vera fiskidagur en aðrir dagar. Reyndar er mér ómögulegt að muna hvort mamma var eitthvað frekar með fisk í matinn á mánudögum en aðra daga – það var oft fiskur eftir að við fluttum úr sveitinni á Krókinn – en í mötuneyti MA var ófrávíkjanleg regla að það var soðin ýsa í matinn í hádeginu á mánudögum. Og ég heyri oft talað um mánudagsfisk svo að líklega hefur þetta verið algengt.

Allavega er mánudagsmatseðillinn hennar Helgu Sig. frá 1935 svona:

Soðinn fiskur með steinseljusósu og kartöflum

Eggjamjólk

Svo að það var soðinn fiskur í matinn í dag. Og einhvernveginn fannst mér að það yrði að vera ýsa. Ég verð meira og meira fyrir fisk með árunum og mín vegna mættu flestir dagar vera fiskidagar. En ég elda ekki oft ýsu og ég sýð ekki oft fisk. Svo að þetta var góð tilbreyting. Og þar sem von var á syninum og tengdadótturinni – nýbökuðum Norðurlandameistara í skylmingum með höggsverði í tíunda sinn – og hún er í doktorsnámi í Cambridge og finnst þar af leiðandi afskaplega gott að fá íslenskan fisk – þá vissi ég að góð ýsa mundi falla í kramið.

Steinseljusósan var aftur á móti opin fyrir túlkun. Helga hefur væntanlega verið með heita hveitiþykkta sósu úr mjólk eða fisksoði – það er uppskrift í Mat og drykk og í henni eru 2-3 matskeiðar af saxaðri steinselju – en mig langaði nú ekkert í svoleiðis.

_MG_2862

Þess í stað tók ég knippi af flatblaða steinselju, tók smávegis frá en setti hitt (mínus sverustu stöngulendana) í matvinnsluvél ásamt 40-50 g af valhnetum, rifnum berki af hálfri sítrónu og 1-2 tsk af sítrónusafa, 2 söxuðum hvítlauksgeirum og pipar og salti.
_MG_2865

Lét vélina ganga þar til allt var komið í mauk og þá þeytti ég 150 ml af repjuolíu rólega saman við.
_MG_2869

Þetta gerði slétta 250 ml af steinseljusósu. Hún geymist alveg í nokkra daga í kæli en ég vissi að það væri engin þörf á að hugsa fyrir því… Ég sauð svo litlar, nýjar kartöflur og bjó til salat (blönduð salatblöð, 2 tómatar, smábiti af fetaosti sem hafði orðið afgangs um helgina, 1 msk fræblanda, ólífuolía, sítrónusafi, pipar og salt).

_MG_2896

Og þegar fór að líða að því að gestirnir kæmu hitaði ég vatn í potti með 2 lárviðarlaufum, salti, nokkrum piparkornum og svolitlum sítrónusafa. Skar ýsuflökin í stykki og setti út í, lét suðuna rétt koma upp og setti svo lok yfir og lét malla á lægsta mögulegum hita í 3-4 mínútur undir loki, vatnið varla hreyfðist. Slökkti svo undir pottinum og lét standa í 2 mínútur í viðbót. Svo tók ég fiskinn upp með gataspaða og setti á fat með kartöflunum. Stráði ögn af steinselju yfir þær og hellti svolitlu af steinseljusósunni yfir fiskinn en bar hitt fram með.
_MG_2901

Það kláraðist hver einasta arða. Fiskur, kartöflur, sósa … Og kostnaðurinn? Ja, ýsan kostaði rétt um 1400 krónur, kartöflurnar 115 krónur, steinseljan 219, hneturnar 130, olían og kryddið í sósuna svona 30 krónur. Salatið – ja, salatblöðin líklega um 250 krónur, tómatarnir 80, fetaosturinn sirka 80 (afgangur eins og ég sagði, ekki viss hvað bitinn var þungur), fræblandan, olían og sítrónusafinn kannski 40 krónur. Samtals um það bil 2345 krónur og við vorum þrjú – það eru 775 krónur á mann.

Og svo er það eftirrétturinn. Ég eldaði stundum eggjamjólk hér áður fyrr en það er óralangt síðan …
_MG_2872

Ég byrjaði á að setja 1/2 l af mjólk í pott ásamt 2 msk af sykri, örlitlu salti og 1 tsk af vanilluessens. Ég hefði kannski notað hálfa vanillustöng ef ég hefði átt hana, og þó – þetta er hversdagsmatur og vanilluessensinn frá Kirkland sem fæst í Kosti er alveg ágætur í þetta og ódýr í þokkabót (fæst reyndar bara í stórum flöskum en endist vel). Hitaði þetta að suðu og lét malla í 1-2 mínútur.
_MG_2875

Á meðan tók ég tvö egg, aðskildi og setti rauðurnar í súpuskál en stífþeytti hvíturnar með 2 msk af sykri. Setti þær svo út í mjólkina með skeið (þær fljóta). Svo setti ég lok yfir og lét malla í 2 mínútur.
_MG_2877

Ég var búin að gleyma því hvað hvíturnar þenjast út, annars hefði ég líklega notað víðari pott … En þær haldst alveg aðskildar þótt þær blási svona út og ég tók þær upp með gataspaða og setti á eldhúspappír. Þær síga aðeins saman en verða áfram léttar og loftkenndar.
_MG_2880

Rauðurnar voru í súpuskálinni eins og ég sagði og ég hellti sjóðheitri mjólkinni hægt og rólega saman við og þeytti stöðugt á meðan.
_MG_2884

Og svo setti ég eggjahvítubollurnar ofan á.
_MG_2891

Gjörsvovel, norræna útgáfan af hinum klassíska franska eftirrétti oeufs a la neige. Floating islands á ensku. Þetta hafði Tobba aldrei smakkað og Hjalti ekki síðan hann var lítill (og mundi ekkert eftir því).

Mjólk 60 krónur, egg 90 krónur, vanilla og sykur svona 30 krónur. Samtals 180 krónur, eða 60 krónur á mann. Matarkostnaður dagsins því 835 krónur á mann.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s