Með smávegis frávikum

Þegar sunnudagsmaturinn er á laugardegi verður laugardagsmaturinn að vera á sunnudegi. Ef maður hefur einsett sér að fara (nokkur veginn) eftir matseðli allavega.

Sem þýðir að matseðill dagsins samkvæmt Helgu Sig og þættinum Kvenþjóðin og heimilið í Morgunblaðinu 1935 ætti að vera:

Sagóvellingur

Soðin síld með smjöri og eggjum

Ég sagði í upphafi að ég sæi fram á að víkja frá matseðlinum í tveimur atriðum. Annað var að ég setti hjörtu í staðinn fyrir lifur af því að ég var nýbúin að vera með lifraruppskrift. Og nú kemur hin, vegna þess að a) ég veit ekki hvar ég ætti sosum að fá síld til að sjóða b) mér finnst síld góð í ýmsu formi en ekki soðin og c) síld var ekki algengur matur á kreppuárunum þótt hún væri ódýr. Helga Sig var hins vegar mikil áhugamanneskja um að auka síldarát Íslendinga með góðu eða illu og var alltaf að reka áróður fyrir því og koma með síldaruppskriftir í tíma og ótíma.

En ég hafði samt síld í matinn, mikil ósköp. Bara maríneraða. Reyndar finnst mér langbest að kaupa saltsíld og verka hana sjálf en hafði ekki tíma til þess núna svo að ég keypti maríneraða síld og bragðbætti hana. 500 gramma dós, þar af 240 g síld, stendur utan á. Kostaði 398 krónur.

_MG_2709

Ég byrjaði á að búa til majónes, það tekur tvær mínútur. Aðskildi tvö egg og setti rauðurnar í matvinnsluvél ásamt 1 tsk af nýkreistum sítrónusafa, pipar og salti.
_MG_2714

Svo setti ég vélina af stað og hellti á meðan 250 ml af matarolíu út í í mjórri bunu og þeytti olíunni saman við. Ég notaði 200 ml af repjuolíu og 50 ml af ólífuolíu en það má hafa önnur hlutföll eða nota repjuolíu eingöngu. Eða aðrar olíur.
_MG_2718

Tók tvær mínútur eins og ég sagði. Ég þurfti ekki að nota allt majónesið svo að ég setti kúfaða matskeið í tvær litlar skálar (alltsvo eina matskeið í hvora) en setti hitt í krukku og stakk í ísskápinn.
_MG_2720

Svo hrærði ég einni kúfaðri teskeið af dijonsinnepi saman við majónesið í annarri skálinni og einni sléttfullri teskeið af karrídufti saman við hinn skammtinn. Tók svo eina skál enn og setti 2 tsk af smátt söxuðum rauðlauk og nokkur söxuð basilíkublöð í hana.

_MG_2726

Ég hellti síldinni í sigti, tíndi síldarbitana frá lauknum og henti honum (hann er hvort eð er alltaf óætur) en skipti síldinni jafnt á milli skálarnar, blandaði vel, breiddi plastfilmu yfir og lét standa í nokkra klukkutíma í ísskáp. Þegar fór að líða að kvöldmat sauð ég nokkrar kartöflur og tvö egg (notaði samt bara annað núna, hitt verður með afganginum af síldinni í nestið á morgun) og kældi svo eggin, skurnfletti það sem ég ætlaði að nota og skar í báta og flysjaði kartöflurnar. Og þá var eiginlega ekki annað eftir en að ná í síldina og setja á diskinn.
_MG_2846

Ein hrúga af hverri tegund af síld, heitar kartöflur, harðsoðið egg skorið í báta, saxaður rauðlaukur, kapers, klettasalat, rúgbrauð og smjör … Alveg hreint ágætt bara, ef maður kann að meta síld. Nei, þetta er ekki soðna síldin hennar Helgu en þarna er þó síld, egg og smjör svo að þetta er næstum því það sem var á matseðlinum.

Og kostnaðurinn? Síldin var á 398 krónur eins og ég sagði, kartöflurnar 25 krónur, rúgbrauðið 50 , klettasalatið 100  eggin 180 (4 alls, tvö harðsoðin og tvö í majónesið), rauðlaukur, kapers, sinnep og krydd svona 40 krónur, olía 75 krónur … segjum svona 870 krónur. Og nóg eftir í hádegismatinn á morgun og ríflega það.

Og þá er það eftirrétturinn. Hmmm, ég verð víst að játa á mig smásvindl þar líka, Helga talar um sagóvelling en mig langaði meira í hnausþykkan sagógrjónagraut … Og hver þekkir annars muninn á vellingi og graut nú til dags?
_MG_2824

Ég setti 500 ml af mjólk í pott og hitaði rólega. Hellti svo 100 ml af sagógrjónum rólega út í og hrærði á meðan.
_MG_2828

Ég setti 2-3 matskeiðar af rúsínum út í og lét þetta malla við mjög hægan hita í svona 8 mínútur. Hrærði oft á meðan og saltaði svolítið í lokin. Ég vildi hafa grautinn alveg hnausþykkan en það má alveg bæta við meiri mjólk ef maður vill.

_MG_2858

Svo blandaði ég kanelsykur og hafði saft með. Eða safa, öllu heldur. Ekki dísæta berja- eða rabarbarasaft og þaðan af síður ,,litað sykurvatn með kjörnum“ eins og mátti kaupa til skamms tíma. Nei, eitthvað Flórídana Virkni andoxun-eitthvað, með safa úr allskonar heilsusamlegum berjum og ég veit ekki hvað. Það var samt alveg ágætt út á grautinn.

Hráefnið í grautinn kostaði um 130 krónur og hollustusafinn út á hann 50 krónur (ég notaði þriðjung úr flösku) eða 180 krónur alls.Sem bætist við 870 krónur svo að matarkostnaður dagsins skreið upp fyrir þúsundkallinn, var 1050 krónur.

6 comments

  1. ha finnst þér laukurinn með marineruðu síldinni óætur? mér finnst hann bestur og hrúga alveg hellingi af honum á rúgbrauðiðmeðsíldinniminni (rúgbrauðiðmittmeðsíldinni?)

    • Sagógrjón eru litlar, hvítar kúlur úr sterkju eins og sjást á myndinni hér fyrir ofan. Þau voru áður gerð úr bol sagópálmans (Metroxylon sagu) og voru stundum kölluð viðgrjón eða pálmagrjón á íslensku. Seinna var farið að gera þau úr maníok eða kartöflumjöli og þau sem fást hér eru úr 100% kartöflumjöli (mundu væntanlega henta vel í grauta fyrir fólk með glútenóþol). Þau voru algeng í sætum súpum og grautum áður fyrr en eru orðin sjaldséð, fást þó enn í sumum búðum í litlum (250 g) pokum.

  2. Sagógrjón fengust í öllum búðum hér áður fyrr og ættu að fást í flestum stórmörkuðum. Mig minnir að ég hafi keypt þau sem ég notaði núna í Nólatúni, eða kannski Hagkaup.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s