Sunnudagur á laugardegi

Ég skipti á dögum núna, hafði sunnudagsmatinn í dag en laugardagsmaturinn verður á morgun. Tengdadóttir mín er nefnilega á landinu, kom til að tékka á einhverjum jarðskjálftamælum og freista þess að vinna tíunda Norðurlandameistaratitilinn sinn í skylmingum með höggsverði, og það hentaði henni og syninum betur að koma í mat í dag – en sunnudagsmaturinn hentaði betur en það sem var í laugardagsmatinn á matseðli Helgu. Svo ég skipti bara.

Og sunnudagsmaturinn hjá Helgu var:

Lambakjöt með brúnuðu grænmeti

Rabarbaragrautur eða bláberjagrautur

Það fylgir með uppskrift hjá Helgu og ég studdist við hana að hluta en þó ekki varðandi kjötið eða eldun á því – Helga talar um bringukoll eða síðu sem hún sker í ekki mjög stóra bita og sýður. Það fannst mér nú ekki sunnudagslegt og hefði líklega ekki fallið í kramið hjá gestunum. En í Bónus fékk ég skagfirskan lambabóg á spottprís, 889 krónur kílóið – sá sem ég keypti var rétt tæpt 1,5 kg, passlegur fyrir þrjá, og kostaði 1325 krónur. Keypti hann fyrr í vikunni og lét þiðna í ísskáp og tók hann svo út klukkutíma fyrir eldun svo hann færi ekki ískaldur í ofninn.

_MG_2668

Ég byrjaði á að hita ofninn í 225°C. Svo smurði ég bóginn vel með svona 50 g af linu smjöri, kryddaði hann vel með pipar og salti og af því að ég átti dálítið af timjani setti ég nokkrar greinar yfir og í kring, ásamt einum söxuðum lauk. Setti þetta í ofninn og steikti í 20-25 mínútur, eða þar til bógurinn hafði tekið góðan lit.
_MG_2675

Þá tók ég hann út, lækkaði hitann í 165°C, hellti hálfum lítra af sjóðandi vatni í formið, breiddi álpappír vel yfir (eða hefði sett lokið á ef ég hefði notað form með loki) og setti aftur í ofninn í svona klukkutíma og korter. Venjulega hef ég hitann heldur lægri og tímann lengri en ég var tæp á tíma þarna svo ég lét þetta duga (en sjá samt seinna).

_MG_2679

Á meðan bógurinn mallaði í ofninum undirbjó ég grænmetið. Ég notaði það sama og Helg var með í sinni uppskrift nema ég bætti við einni gulrófu, fannst það passa við tímann. Svo var ég með 10 frekar litlar kartöflur, 200 g af gulrótum, hálfan lítinn blómkálshaus, 2-3 sellerístöngla (tók blöðin af þeim frá og geymdi), bita af hvítkáli og einn lauk. Skar þetta allt niður frekar smátt (hvítkálið í mjóar ræmur) nema kartöflurnar. Þær forsauð ég þar til þær voru næstum tilbúnar og sauð líka rófubitana með síðustu 5 mínúturnar eða svo – þeir eiga samt að vera frekar stinnir svo þeir fari ekki í mauk við frekari eldamennsku. Hellti svo vatninu af kartöflunum og rófunum og skar kartöflurnar í tvennt.
_MG_2684

Ég hitaði svo 2 msk af olíu og 25 g af smjöri í stórri, djúpri pönnu (eftir á að hyggja hefði verið betra að nota víðan, þykkbotna pott) og byrjaði á að láta laukinn krauma í nokkrar mínútur. Bætti svo gulrótum, selleríi og blómkáli á pönnuna og steikti við meðalhita í nokkrar mínútur. Hrærði oft á meðan og kryddaði með pipar, salti og þurrkaðri basilíku.
_MG_2687

Svo bætti ég hvítkálsræmunum á pönnuna og síðan kartöfluhelmingunum og rófubitunum. Steikti þetta allt áfram í nokkrar mínútur. Þá var kjötið einmitt búið að vera í klukkutíma og korter í ofninum svo að ég tók það út, hellti soðinu úr fatinu í skál og setti kjötið svo aftur í ofninn án yfirbreiðslu í 10-15 mínútur, eða þar til paran, sem hafði mýkst í gufunni undir álpappírnum, var aftur orðin stökk og fín.
_MG_2694

Ég mældi 200 ml af soðinu og hellti yfir grænmetið á pönnunni. Setti svo lok á hana, lækkaði hitann og lét krauma þar til grænmetið var allt orðið vel meyrt og enginn vökvi eftir. Bar það fram á pönnunni og stráði söxuðum blöðum af sellerístönglunum yfir.

Afganginn af soðinu setti ég í pott og hitaði að suðu, þykkti með hveitijafningi og bætti við svona 125 ml af rjóma og dálitlum sósulit. Lét malla í um 10 mínútur – það þurfti ekkert að krydda þetta neitt, soðið var það kraftmikið, en það má bæta við pipar, salti og jafnvel kjötkrafti eftir þörfum. Og vatni, ef soðið er ekki mikið.
_MG_2695

Þetta var allt saman fínasti matur.
_MG_2699

Ég bætti við einföldu salati – hálfur poki af salatblöndu (180 kr.), 2 tómatar (60 kr.), tæplega hálfur fetakubbur (200 kr), ólífuolía, sítrónusafi, pipar og salt (sirka 20 kr).

Annar kostnaður við aðalréttinn (fyrir 3): Kjöt 1325, smjör og olía 50, laukur 50, timjan 50, kartöflur 120, rófa 120, blómkál 70, sellerí 50, gulrætur 100, hvítkál 50, rjómi í sósuna 115 – samtals 2100 krónur, plús salatið 460 krónur – 2560 krónur eða 853 krónur á mann.

En það var eftirréttur. Fyrst ætlaði ég að hafa rabarbaragraut (á rabarbara í frysti, kostnaður enginn) en mundi svo að ég var tiltölulega nýbúin að gefa þeim rabarbaragraut svo það væri skemmtilega að hafa bláberjagraut. En þegar til átti að taka voru bláberin sem ég hélt að ég ætti ekki til staðar (eða fundust allavega ekki) – ég reyndist bara eiga frosin útlend bláber. Nú jæja, það má gera graut úr þeim líka en það hækkaði nú matarkostnaðinn alveg slatta, svona poki (500 g) kostar 479 krónur í Bónus.
_MG_2658

Allavega, ég setti 500 g af berjum, 1/2 l af vatni og 70 g af sykri í pott. Skar gula börkinn af hálfri sítrónu og setti út í og kreisti líka safann út í.
_MG_2662

Ég hitaði þetta að suðu og lét malla í 8-10 mínútur. Þá veiddi ég barkarræmurnar upp úr. Hrærði saman 25 g af kartöflumjöli og 4-5 msk af köldu vatni og tók svo pottinn af hitanum og hrærði jafningnum saman við – en þegar jafnað er með kartöflumjöli á ekki að hræra í hringi, heldur fram og aftur.
_MG_2666

Svo hellti ég grautnum í fallega skál og lét hann kólna alveg – fyrst við opnar svaladyrnar, svo í ísskáp.
_MG_2701

Bar hann svo fram með rjómablandi. Ljómandi góður alveg hreint. Það var afgangur – þetta var það mikið magn – sem verður t.d. notaður til að bragðbæta skyr og jógúrt næstu daga.

Þetta hefði verið mjög ódýr eftirréttur ef ég hefði átt heimafengin ber eða gert rabarbaragraut. Berin kostuðu semsagt 479, rjóminn 115 (125 ml), sítróna, kartöflumjöl og sykur svona 40 krónur – segjum 665 krónur, eða 222 krónur á mann. Þannig að tvíréttuð sunnudagsmáltíð á laugardegi er þá 1075 krónur á mann. En ég er nú búin að vera svo hagsýn síðustu daga að það hlýtur að vera innistæða fyrir því …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s